Fyrsta myndin af halastjörnunni PanStarrs yfir Íslandi

Stjörnuáhugamaðurinn Jón Sigurðsson tók þessa mynd af halastjörnunni PanStarrs á himninum yfir Þingeyri í kvöld (15. mars). Þetta er, eftir því sem við komumst næst, fyrsta myndin af halastjörnunni á íslenska stjörnuhimninum.

544122_4508448715449_673954271_n.jpg

Uppfært 16. mars: Jón Sigurðsson hefur raðað myndum af halastjörnunni í myndband á YouTube.

 

Halastjarnan er ekki eins áberandi með berum augum og vonast var eftir. Undirritaður varði til að mynda rúmri klukkustund í að reyna að sjá hana með berum augum á himninum yfir suður Svíþjóð í kvöld, án árangurs. 

Nauðsynlegt er að nota handsjónauka til að sjá halastjörnuna vel. 

Þetta rímar við það sem aðrir íslenskir áhugamenn hafa sagt okkur. Björn Jónsson skrifaði eftirfarandi athugasemd á Facebook síðuna okkar:

„Fór vestur á Álftanes og fann PanSTARRS kl. 20:45 með handsjónauka eftir 15-20 mínútna (!) leit. Sá hana svo með naumindum með berum augum um kl. 21. Ég held að það sé útilokað að sjá hana með berum augum mikið fyrr en það. Upp úr kl. 21 var hún hinsvegar orðin flott í handsjónauka og halinn mjög greinilegur. Hún er það lágt á lofti (innan við 10 gráður virtist mér) að það mega engin tré eða byggingar vera fyrir auk þess sem bjartir ljósastaurar væru truflandi - því er æskilegt að fara á stað þar sem lítið er um björt ljós í vesturátt.“

Sem sagt, til að sjá halastjörnuna þarf handsjónauka, horfa í rétta átt og góðan skammt af þolinmæði.

Við ætlum að reyna að hjálpa ykkur að sjá halastjörnuna á sunnudagskvöldið frá klukkan 20:00 og þar til hún hverfur undir sjóndeildarhringinn. Við verðum við golfskála Golfklúbbsins Ness á Seltjarnarnesi. Nánari upplýsingar hér.

- - -

Fylgst með í Vestmanneyjum

Eftirfarandi barst okkur frá vinum okkar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja:

Í kvöld, föstudagskvöldið 15. mars um kl. 20 hittust nokkrir félagar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja úti á Breiðabakka á Heimaey til þess að reyna að koma auga á Halastjörnuna PanStarrs. Fyrirfram var ekki við miklu að búast, því ský huldu mest allan himininn, en í vestri var svolítil glæta af rauðgulum himni. Ekki mættu margir, enda var búið að gera tilraun kvöldið áður sem endaði í kalsarigninu. En þarna sátum við og nutum veðurblíðunnar mauluðum kleinur og biðum þess að skýin þokuðust ofar. Kindurnar fengu afganginn af kleinunum þegar okkur var að verða bumbult af þeim. Sigð tunglsins gægðist af og til í gegnum skýin, en stoppaði stutt við. Rétt fyrir kl. 21 sá formaðurinn stjörnu rétt neðan við skýjahuluna og í sólroðanum, sem honum fannst líkleg. Ekki var þó unnt að staðfesta þetta sem halastjörnuna, fyrr en meirihluti stjórnar félagsins var búinn að leggja blessun sína yfir fyrirbærið. Eftir að mestu fagnaðarlátunum linnti var fylgst með halastjörnunni lækka á himni í kapp við nálæg ský. Konunglegur aðstoðar-ljósmyndari félagsins, Heiðar Egilsson tók myndir í gríð og erg og okkur til mikillar furðu sást stjarnan miklu betur á myndunum, en með okkar ófullkomnu sjón eða jafnvel sjónaukunum. Yngra fólkið fylgdist með stjörnunni með berum augum, en hinir störðu og rýndu án mikils árangurs, nema með sjónaukanum. Hringt var í tölvumann félagsins sem kom auðvitað stökkvandi og sá fyrirbærið áður en það skreið svo nálægt sjóndeildarhringnum að ekki var unnt að sjá hana vel lengur. Þá var klukkan orðinn 21:30 og fundi slitið. Skemmtilegri samverustund var lokið. Við reynum á ný næstu kvöld - stay tuned.

Þetta skrifar Karl Gauti Hjaltason.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband