Nýrra niðurstaðna að vænta um uppruna alheimsins

Næstkomandi fimmtudag munu vísindamenn birta nýjar niðurstöður rannsókna á örbylgjukliðnum (e. cosmic microwave background) — eftirgeislun Miklahvells — með Planck gervitungli ESA.

Planck gervitunglinu var skotið á loft þann 14. maí árið 2009 og hefur síðan gert mælingar á örbylgjukliðnum, eina af meginstoðum Miklahvellskenningarinnar.

Fyrsta myndin frá Planck var birt í júlí 2010.

planck_fsm_03_black_frame_orig.jpg

Þarna sést allt himinhvolfið og liggur skífa Vetrarbrautarinnar yfir miðja mynd. Út frá henni ganga straumar úr köldu ryki sem mynda vef úr stjörnumyndunarsvæðum.

Á bak við Vetrarbrautina sést örbylgjukliðurinn, elsta ljósið í okkar 13,7 milljarða ára gamla alheimi. Örbylgjukliðurinn sýnir alheiminn eins og hann leit út þegar hann var aðeins 380.000 ára gamall. Samhliða útþenslu alheimsins hefur teygst á bylgjulengd þessa ljóss sem greinist nú sem örbylgjur og er aðeins 2,7 gráður yfir alkuli.

Þetta ævaforna ljós er allt í kringum okkur. Sennilega hefur þú „séð“ það í sjónvarpinu þínu. Um það bil 1% af snjónum sem við sáum í gömlu analog tækjunum er ljós frá Miklahvelli! Hversu svalt er það?

Mynd eins og þessi er stjörnufræðingum einstaklega mikilvæg. Með henni er hægt að læra um efnasamsetningu alheimsins, aldur hans og þróun í fortíð, nútið og framtíð.

Flekkirnir eru vegna hárfínna hitastigsbreytingua í örbylgjukliðnum. Þessar breytingar koma fram í örlítið mismunandi efnisþéttleika í árdaga alheimsins. Þéttustu svæðin voru fræin sem gátu af sér allt sem við sjáum í kringum okkur í dag: Stjörnurnar og vetrarbrautirnar.

Sumir stjarneðlisfræðingar hafa meira að segja getið sér til um að í örbylgjukliðnum gætu verið ummerki hliðstæðra alheima sem hafa rekist á alheiminn okkar. En það er önnur saga.

Við munum fylgjast grannt með þessu og segja frá niðurstöðunum á Stjörnufræðivefnum á fimmtudaginn. Nýjar niðurstöður um uppruna alheimsins, hvað gæti verið meira spennandi!

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Hvað var þar á undan.

Kristinn Snævar Jónsson, 19.3.2013 kl. 23:40

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Það veit enginn.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 20.3.2013 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband