Kínverska geimfarið Chang'e 3 er lent á tunglinu!

20130109_change3_artwork_f840.jpg

Yutu tungljeppi Kínverja. Teikning: Glen Nagle

Uppfært kl. 21:15 laugardaginn 14. desember

Yutu jeppinn er farinn af stað!

Emily Lakdawalla hjá The Planetary Society útbjó þessar gif myndir af jeppanum aka af stað (myndunum er hraðað)

20131214_change3_rover_deploy_final.gif

20131214_change3_rover_deploy_2_transfer.gif

20131214_change3_rover_deploy_1_roll.gif

 

Uppfært kl. 13:15 laugardaginn 14. desember 

Chang'e 3 lenti heilu og höldnu á tunglinu fyrir örfáum mínútum, rétt á undan áætlun! Til hamingju Kínverjar! Við fáum vonandi fyrstu myndirnar í kvöld og birtum þær að sjálfsögðu hér hjá okkur!

Fyrsta myndin er hér undir og sýnir grjót í kringum lítinn gíg.

20131214_change_3_surface_photo_f840.jpg

- -  

Fremur lítið hefur verið fjallað um kínverska geimfarið Chang’e 3 í íslenskum fjölmiðlum. Það er mjög miður því leiðangurinn er sögulegur: Þetta í fyrsta sinn sem Kínverjar lenda á tunglinu og fyrsta mjúka tungllendingin síðan árið 1976.

Chang’e 3 á að lenda á tunglinu laugardaginn 14. desember klukkan 13:40 að íslenskum tíma, um það bil tveimur stundum fyrr en áætlað var. Geimfarinu var skotið á loft 1. desember síðastliðinn og hefur varið undanförnum dögum á braut um tunglið. Hægt er að lesa meira um geimfarið á Stjörnufræðivefnum.

Vísindamenn og áhugamenn um tunglrannsóknir bíða spenntir eftir að geimfarið lendi og hefji störf á Mánanum. Lendingarferlið hefst í 15 km hæð yfir tunglinu. Í um 100 metra hæð tekur sjálfstýring geimfarsins við. Þá munu myndavélar og tölvur um borð í geimfarinu sjá um að finna heppilegan lendingarstað. Í 4 metra hæð verður slökkt á bremsuflaugunum og lendir farið síðan mjúklega á tunglinu.

Eftir lendingu mun Chang’e 3 lendingarfarið opna sólarrafhlöðurnar og hlaða jeppann Yutu (Kanínuna, gæludýr kínversku tunglgyðjunnar Chang’e). Örfáum klukkustundum eftir lendingu mun jeppinn aka af lendingarfarinu og stuttu síðar fáum við myndir af báðum förum á yfirborði tunglsins.

Væntanlega verður hægt að fylgjast með umfjöllun um lendinguna hjá kínversku sjónvarpsstöðinni CCTV.

Hvað á Chang’e 3 að rannsaka?

Yfirborð tunglsins skiptist í tvennt: Í ljósleit hálendissvæði og dökkleit láglendissvæði sem við köllum höf. Munurinn á litnum er fólginn í berginu sem myndar svæðin. Dökka litinn í höfunum má rekja til basalts en ljósa litsins til ljósleitrar bergtegundar sem kallast anortþósít.

Chang’e 3 á að lenda í Regnbogaflóa (Sinus Iridum) á Regnhafinu (Mare Imbrium), einu af dökku svæðunum sem við sjáum með berum augum á tunglinu. Ekki er vitað nákvæmlega hvar geimfarið lendir en líklegt þykir að það verði skammt frá gígnum Laplace A.

wac_sinus_iridum300m.png

Lendingarstaður Chang'e 3 í Regnbogaflóa (Sinus Iridum) í Regnhafinu (Mare Imbrium) á tunglinu. Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University

Árið 1970 lenti sovéska geimfarið Luna 17 með jeppann Lunokhod 1 um 250 km suðvestur af sama gíg. Sá jeppi starfaði í tæplega ár og ók á þeim tíma tíu og hálfan kílómetra.

m175502049r_l17_thumb.png

Sovéska lendingarfarið Luna 17 á tunglinu. Í kringum það eru hjólför jeppans Lunokhod 1 en hann sjálfur sést ekki á myndinni. Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University 

Laplace A er áhugaverður rannsóknarstaður. Hann er tiltölulega ungur gígur (nokkur hundruð milljón ára), um 8 km breiður og 1.600 m djúpur. Í gígbörmunum sjást nokkur mismunandi berglög og berghlaup (skriður). Á gígbotninum er storknuð árekstrarbráð, nokkurs konar frosið stöðuvatn úr berginu sem bráðnaði við áreksturinn, um 2.500 metrar í þvermál.

laplacea_14mp_nac.png

Laplace A gígurinn. Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University 

Laplace A er gott dæmi um ungan gíg sem myndaðist í basalthafi. Aki jeppinn að gígnum, mun hann aka í gegnum efnisletturnar frá honum. Fjærst gígnum er efnið sem var grynnst eða við yfirborðið, en við gígbarmana er efnið sem grófst upp af mestu dýpi. Á þennan hátt verður hægt að fá innsýn berg á mismunandi dýpi á tunglinu.

Enn er margt á huldu um basalthöfin á tunglinu en jeppinn Yutu getur hjálpað okkur að svara nokkrum spurningum um þau, til dæmis um þykkt hraunanna, samsetningu þeirra og hvort og þá hvernig þau breyttust með tímanum. Í jeppanum er einnig ratsjá sem „sér“ niður á allt að 100 metra dýpi. Allar þessar upplýsingar gætu sagt okkur ýmislegt nýtt um eldgosasögu tunglsins og þar af leiðandi þróunarsögu þess.

Hingað til hafa hvorki mönnuð né ómönnuð geimför lent nálægt ferskum árekstragígum á tunglinu. Reyndar voru hugmyndir uppi um að senda einn af aflýstu Apollo leiðöngrunumgígnum Tycho snemma á áttunda áratugnum.

Ljóst er að Chang’e 3 mun veita okkur nýja sýn á tunglið og þess vegna eru vísindamenn um allan heim mjög spenntir fyrir leiðangrinum.

Þegar Chang’e 3 verður lent á tunglinu mun ekki líða á löngu þar til Lunar Reconnaissance Orbiter geimfar NASA kemur auga á geimfarið og jeppann í Regnbogaflóa. Við hlökkum til að sjá þær myndir!

Að endingu, ef einhver hefur áhuga skrifaði ég stuttan pistil um geimkapphlaup Indverja og Kínverja í nýjustu (17.) útgáfu Kjarnans.

- Sævar Helgi Bragason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð

Sævar takk fyrir þitt innlegg í þessa umræðu, ég sá stjörnuhrap seint í gærkvöldi. Ég elska að horfa upp í himininn á kvöldin.  Þú gerir líf mitt skemmtilegra

Davíð, 14.12.2013 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband