28.1.2014 | 10:31
Ágæt hugmynd sem virkar því miður ekki
Norðurljósarör hljóma eins og ágætis hugmynd, en koma raun að frekar takmörkuðu gagni ef njóta á norðurljósanna.
Rörin þrengja sjónsviðið verulega svo fólk sæi ekki nema örlítinn hluta af himninum í einu og þar af leiðandi norðurljósunum, ef þau eru á annað borð á þeim stað sem rörin beinast. Norðurljósin missa dálítið mikilfengleika sinn ef maður sér þau ekki í öllu sínu veldi. Þau eru svo nálægt okkur og víðfeðm á himninum að lang besta leiðin til að skoða þau er með því að horfa til himins án sjóntækja, eða einhvers sem skerðir sjónsviðið.
Þar að auki er ljósmengun ekki lítið og staðbundið vandamál sem hægt er að losna við með 8 metra háum rörum. Ljósmengun liggur eins og risavaxinn hjúpur yfir borgum og bæjum sem nær líka langt út fyrir bæina og líka langt upp í himinninn. Maður losnar ekki við ljósmengun þótt horft sé í gegnum rör, það þekkjum við vel sem rembumst við að skoða stjörnur úr borginni.
Það eina sem svona rör gæti gert er að draga úr glýju frá nálægum ljósastaurum, svona eins og þegar maður notar höndina sem skyggni á sólríkum degi. Og ef það er hugmyndin mættu rörin vera miklu styttri, hálfur metri kannski og keilulaga til að víkka sjónsviðið.
Því miður er eina leiðin til að losna við ljósmengun sú að draga verulega úr henni, til dæmis með því að lagfæra ljósastaura og perur eða fara út fyrir hana.
Ágæt hugmynd, sem því miður virkar ekki vel í praktík.
- Sævar Helgi
Norðurljósin í gegnum rör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 29.1.2014 kl. 22:58 | Facebook
Athugasemdir
Var einmitt að furða mig á þessu. Út af fyrir sig er alltaf skemmtilegt að horfa í gegnum rör en varla til að fylgjast með norðurljósum.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.1.2014 kl. 15:55
Athyglisvert gáfumannaspjall. Listin hefur gengið í gengnum svona "raunsæispælingar" í margar aldir. Í nær undnrekningartilfellum hefur "raunsæismaðurinn" orðið halloka í þessum samræðum. Raunveruleikinn fyrir blindum er oft draumórakendur. Ég veit ekki hvort almennt menn hafi lagst niður á jörð með einhverskonar rör og horft til himins ? Veit það þó að aðeins við það eitt kvikna ekki Norðurljós. En það að horfa á Norðurljós þannig er allt annað en að horfa á Norðurljósin t.d uppi á hálendi þar sem engin mengun er. Ég því miður gef lítið fyrir háspekilegt spjall eða pælingar "stjörnufræðisvefsins" - því ég veit , engin af "þeim" hefur prófað að skoða Norðurljósin " í gegnum rör".
Gudmundur R Ludviksson (IP-tala skráð) 30.1.2014 kl. 00:31
Ágæti Guðmundur
Það er alveg óþarfi að sýna hroka og yfirlæti og tala niður til mín og okkar. Við hljótum að mega að hafa skoðun á þessu eins og aðrir og benda á annmarka. Orð eins og gáfumannaspjall dæma sig sjálf og gæsalappanotkunin sýnir mér bara að þú telur að það sé verið að ráðast á þig persónulega, sem er ekki rétt. Hér er aðeins verið að fjalla um að þótt hugmyndin sé ágæt, þá muni hún ekki virka eins og þú heldur. Þú hlýtur að verða að geta tekið gagnrýni á verkin þín.
Hér er ekki verið að segja neitt illt um ágæti listamannsins eða listaverksins út af fyrir sig. Það getur verið ágætt en það vill nú svo til að ég og miklu fleiri höfum áralanga reynslu af stjörnuskoðun og að horfa á norðurljósin, bæði í gegnum rör og án þeirra. Það er því ekki satt að ""engin" af "þem" hefur prófað að skoða Norðurljósin" í gegnum rör".
Það að horfa á norðurljós uppi á hálendi er einmitt allt annað en úr borg og bæjum, út af ljósmengun. En ljósmengun nær miklu meira en átta metra upp í loftið og því hefur þetta ekkert að segja, nema hugsanlega að draga úr glýju frá ljósastaurum í nágrenni.
Því miður dregur það að horfa í gegnum rör úr mikilfengleika norðurljósanna, vegna þess að það skerðir sjónsviðið. Ég hef prófað það, margoft, og leyft öðrum að gera það líka.
Ég vona að Reyjanesbær verji fjórum milljónum í að laga lýsingu í bænum. Það sparar bæjarfélaginu fé til langs tíma og allir endurheimta himinninn, án þess að þurfa að horfa í gegnum rör. Fyrir sparnaðinn gætu þeir síðan keypt listaverk af þér og fleiri góðum listamönnum.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 30.1.2014 kl. 19:04
Það sakar ekki að minna á samtökin International Dark-Sky Association (IDA)sem barist hafa fyrir minni ljósmengun með því að ráðleggja notkun á réttri lýsingu.
Erlendis hafa sum sveitarfélög og borgir farið eftir ráðleggingum þeirra og hefur það verið fljótt að skila sér í mun minni orkukostnaði, auk þess að lífsgæðin hafa aukist.
Sjá Facebook síðu IDA:
https://www.facebook.com/pages/International-Dark-Sky-Association/142158105400
og vefsíðu IDA:
http://www.darksky.org/
Blogg um ljósmengun.
Myrkurgæði á Íslandi - Umhverfis og auðlindaráðuneytið.
Ágúst H Bjarnason, 30.1.2014 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.