Námskeið í stjörnuskoðun

Þann 11. september næstkomandi munu Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn standa fyrir námskeiði í stjörnufræði og stjörnuskoðun fyrir alla áhugasama. Námskeiðið er hugsað fyrir alla sem hafa áhuga á stjörnunum og sérstaklega fyrir þá sem eiga stjörnusjónauka og vilja læra á hann. Eign á sjónauka er samt ekkert skilyrði fyrir því að sækja námskeiðið.

Námskeiðið mun standa yfir þrjú kvöld og hefst eins og áður sagði þann 11. september klukkan 20:00 í Valhúsaskóla, þar sem aðsetur Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness er. 

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

Um Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði hér á landi og eru félagar í því um 150 talsins. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem hýsir aðalsjónauka félagsins. Hann er af gerðinni JMI NGT-18 og er spegill hans 46 cm í þvermál. Þetta er stærsti stjörnusjónauki landsins og hafa félagsmenn aðgang að honum.

Félagið á einnig tvo aðra stjörnusjónauka. Annars vegar 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade og hins vegar 14 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Celestron. Sá hinn síðari er fyrsti sjónauki félagsins.

Saga Stjörnuskoðunarfélagsins nær yfir rúm þrjátíu ár en félagið var stofnað þann 11. mars árið 1976 og voru stofnfélagar tuttugu talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Núverandi stjórn Stjörnuskoðunarfélagsins skipa

  • Sævar Helgi Bragason, formaður
  • Grétar Örn Ómarsson, ritari
  • Kristján Þór Þorvaldsson, féhirðir

Stjörnuskoðunarfélagið er opið öllum áhugamönnum um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Undanfarin ár hefur félagsgjaldið verið 2.000,- kr. á ári. Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum spennandi uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning auk ýmiss annars.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Mig langar á svona námskeið en á ekki stjörnusjónauka. Ætla að hafa þetta á bak við eyrað þegar nær dregur

Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.5.2007 kl. 16:17

2 identicon

Það er einmitt ekkert skilyrði að eiga stjörnusjónauka! Endilega skráðu þig ef þú hefur áhuga. Við munum einmitt fara í stjörnuskoðun á þessu námskeiði, með sjónaukum félagsins og félagsmanna, þannig að þú þarft ekkert að eiga sjónauka.

Sævar Helgi (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband