26.5.2007 | 00:13
Svo hrikalega margar...
Vetrarbraut er orð sem margir kannast við sem eitthvað fyrirbæri í himingeimnum. Sumir tengja það við daufu "slæðuna" sem teygir sig yfir himininn á stjörnubjörtu kvöldi. Þetta segir svo sem ekki mikið um hvað vetrarbraut er í raun. Hér er mjög gróf imbaskilgreining á vetrarbraut:
"Vetarbraut er safn margra stjarna (Sóla) sem hrærast saman í geimnum fjarri öðrum stjörnum"
Orðið stjörnuþoka er oft notað í stað vetrarbrauta þótt ég vilji meina að stjörnuþoka sé aðeins víðara hugtak. Við jarðarbúar erum íbúar í einni vetrarbraut, oftast kölluð Vetrarbrautin (með stóru V-i), á ensku: The Milky Way. Okkar vetrarbraut er skífulaga og inniheldur líklega yfir hundrað milljarða stjarna þ.e. 100.000.000.000 stykki af sólum svipaðar sólinni okkar!
En þetta er bara okkar vetrarbraut. Þegar við skyggnumst út í geiminn sjáum við fjölda annara vetrarbrauta. Hver þeirra hefur að geyma marga milljarða stjarna. Fjöldi vetrarbrauta í alheiminum er líklega meiri en 100 milljarðar. (100.000.000.000 stjörnur í vetrarbraut) x (100.000.000.000 vetrarbrautir) = hrikalega margar stjörnur! Ímyndið ykkur að þessi gríðarlega orkulind og lífgjafi sem sólin okkar er, þá er hún aðeins ein af hrikalega mörgum stjörnum í alheiminum.
"Það eru fleiri stjörnur í alheiminum en sandkorn á öllum ströndum jarðar"
- Carl Sagan
þessi fullyrðing er ekki ýkt. Fjarlægðirnar sem aðskilja vetrarbrautirnar eru einnig hrikalegar t.d. ein nálægasta vetrarbrautin er Andrómeda sem er í um 2,5 milljón ljósára fjarlægð). Við getum að sjálfsögðu ekki séð okkar vetrarbraut "utan frá" svo myndin sýnir dæmi um vetrarbrautir sem eru taldar líkjast okkar Vetrarbraut.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:15 | Facebook
Athugasemdir
Þessi "stærð" geimsins er ótrúleg og heillandi um leið. Verður spennandi að fylgjast með framvindu í geimvísindum, vona að mér endist aldur til að verða vitni að stórfenglegum uppgötvunum
Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.5.2007 kl. 16:18
Það má segja að síðasta "stórfenglega" uppgötvun hafi komið árið 1998. Þá uppgötvuðu vísindamenn að alheimurinn er ekki bara að þenjast út, heldur þenst hann út sífellt hraðar og hraðar með tímanum. Í fjarlægri framtíð mun hann hafa þanist út svo gríðarlega að margar vetrarbrautir sem við sjáum í dag munu sigla út fyrir endimörk hins sýnilega alheims. Þá verðum við einmanna. (meira um heimsfræði hér)
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.5.2007 kl. 17:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.