26.5.2007 | 22:21
Andlitið á Mars
Í júlí 1976 sveimaði Viking 1 geimfarið yfir Mars í leit að heppilegum lendingarstað fyrir systurfar sitt Viking 2. Ákjósanlegasta svæðið var á norðurhluta Mars sem kallast Cydonia. Myndir sem geimfarið sendi til jarðar sýndi sléttlendi og hæðir - hefðbundið landslag á Mars. Ein myndanna vakti þó meiri athygli en nokkur önnur, enda virtist hún sýna andlit sem starði út í geiminn.
Vísindamenn NASA töldu að þessi skrítna mynd myndi vekja áhuga fólks og birtist hún viku síðar í dagblöðum. Í myndatextanum stóð að myndin sýndi veðrað sléttlendi og að bergmyndunin fyrir miðju líktist mannsandliti vegna skugga sem virðast framkalla augu, nef og munn.
Það kom vísindamönnum nokkuð á óvart að sumt fólk taldi andlitið alls enga skynvillu. Því var haldið fram að um raunverulegt andlit væri að ræða, reist af vitsmunaverum til að vekja athygli manna þegar við hefðum tæknina til að fljúga til Mars. Minnir óneitanlega á 2001: A Space Odyssey! Næstu tvo áratugi ræddu áhugamenn um fljúgandi furðuhluti og geimverur um andlitið í fjölmiðlum og á fleiri stöðum. Fólk taldi sig meira að segja sjá borgir, pýramída og aðrar byggingar á yfirborðinu.
Árið 1998 tók Mars Global Surveyor geimfarið aðra mynd af andlitnu í tíu sinnum betri upplausn en myndin frá Viking. Á myndinni sást fátt óeðlilegt. Flestir töldu sig sjá náttúrulegt fyrirbrigði. Unnendur samsæriskenninga héldu nú fram að NASA væri að reyna fela andlitið.
Þegar málið er skoðað er augljóst að hugmyndin um andlit sem merkjatæki er vægast sagt skrítin. Ef vitsmunaverur byggðu andlitið, hefðu þær þurft að gera það á seinustu hundruð þúsundum ára því mannkynið er ekki mikið eldra. Ef geimverur hefðu heimsótt jörðina fyrir 100 milljón árum, er líklegt að þær hefðu byggt risaeðliandlit. Annars væri það mögnuð tilviljun að þær slysuðust til jarðar þegar við vorum nýkomin til sögunnar.
Minna hefur borið á umræðum um andlit á Mars síðustu ár. Í apríl 2001 tók Mars Global Surveyor nákvæma mynd af svæðinu þar sem smáatriði niður í fáeina metra að stærð sjást. Sú mynd er 30 sinnum betri en myndin frá 1976 eins og myndin hér að neðan sýnir.
Eins og sjá má er andlitið á Mars ekkert annað afleiðing vindveðrunar og skondið samspil ljóss og skugga. Þessar myndir voru teknar með Viking og Mars Global Surveyor tveimur áratugum síðar.
Hvers vegna sér fólk andlit í ýmsum fyrirbærum?
Allir kannast við það að sjá dýr, mannsandlit eða annað í skýjum. Sama á við um bergmyndanir víða í náttúrunni en við þekkjum einmitt mörg dæmi um slíkt hérlendis. Fólk telur sig jafnvel sjá andlit þekkts fólks úr óskýrum mynstrum á veggjum eða gólfum og í örfáum tilfellum á samlokum eða tortillaflögu! Það er ekkert óvenjulegt við þetta enda er ástæðan vel þekkt í sálfræði.
Missýn (e. pareidolia) er sálfræðilegt fyrirbrigði sem felur í sér að óljóst og handahófskennt áreiti er mistúlkað sem eitthvað raunverulegt. Með þessu er átt við að manni finnst maður bera kennsl á eitthvað kunnuglegt en mistúlkar það ranglega. Hægt er að útskýra fjölmargar skynvillur út frá missýn, til dæmis birtingarmyndir Jesú Krists eða Maríu meyjar á ýmsum stöðum, karlinn í tunglinu, fljúgandi furðuhluti og skilaboð á hljómplötum sem leiknar eru aftur á bak. Missýn útskýrir líka hvers vegna fólk túlkar óhefðbundin mynstur á byggingum eða í náttúrunni sem andlit.
Frá því að við komum til sögunnar höfum við þróast til að bera kennsl á kunnugleg andlit. Skömmu eftir fæðingu sjáum við andlit móður okkar. Fólk les margt í andlit annars fólks og heilinn í okkur er mjög fær um að sjá andlit út úr mynstrum, jafnvel þótt þar sé augljóslega ekkert mannsandlit. Gott dæmi um þetta er broskarlinn :) sem er aðeins samsettur úr tveimur punktum og bognu striki.
Ótrúlega margir telja á hinn bóginn að um yfirnáttúrulegan og þar af leiðandi óútskýranlegan hlut sé að ræða. Reglulega berast okkur fréttir um að María mey hafi sést á ólíklegustu stöðum, t.d. á glugga, í trjám eða á brunabletti á samloku. Sama á við um son hennar Jesús krist! Hafa þau virkilega ekkert þarfara að gera?
María Mey? Mér finnst myndin minna frekar á Homer Simpson, er það ekki?
Mjög auðvelt er að sjá sambærilega hluti út úr fyrirbærum í geimnum. Forfeður okkar sáu mynstur í stjörnum næturhiminsins og nefndu þau eftir hetjum og skepnum sem fáir taka eftir í dag. Þegar sæfarendur upplýsingatímans sigldu suður á bóginn sáu þeir ný mynstur og nefndu þau eftir hlutum sem voru algengir á þeim tíma. Við köllum þessi handahófskenndu mynstur stjörnumerki.
- Sævar Helgi Bragason
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:24 | Facebook
Athugasemdir
Já Ólafur. Svona pælingar gefa manni gæsahúð, hroll eða eitthvað álíka. Margir segja að stórtækar hugleiðingar valdi sér svima og finnst þannig óþægilegt að fara út fyrir hugsanagang hins daglega lífs. Það er bara einmitt þessi svimi sem lætur mig halda áfram svona hugleiðingum. Ætli það kallist ekki fíkill í daglegu tali. -Kári
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.5.2007 kl. 11:14
Alheimurinn hefur líklega eitthvað "mynstur" eða "kerfi" og því er okkur eiginlegt að sjá mynstur eða kerfi út úr hlutum Nú er ég kannski komin með kollinn of langt út fyrir rammann
Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.5.2007 kl. 16:25
Það er nú grundvöllur eðlisfræðinnar. Alheimurinn virðist fylgja ákveðnum reglum þ.e. náttúrulögmálum. Það er kannski ekki skrýtið að við reynum að koma reglu á hlutina.
-Kári
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.5.2007 kl. 17:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.