5.6.2007 | 14:09
Bók vikunnar...
eiga þeir félagar Peter D. Ward og Donald Brownlee, Rare Earth: Why Complex Life is Uncommon in the Universe. Um er að ræða skemmtilega skrifaða bók um jörðina sem heimkynni lífs í alheiminum. Þeir færa rök fyrir því hvers vegna jörðin okkar er einstök í því að bjóða upp á skilyrði fyrir flóknar lífverur að þróast. Margir spekingar hafa fullyrt að vetrarbrautin ætti að vera full af háþróuðu lífi vegna fjölda stjarna og reikistjarna í henni. Þessi bók er í raun mótsvar við þessu. Höfundarnir nefna ýmsa þætti til að færa rök fyrir því að jörðin er ótrúlega sjaldgæf perla og að tilvist flókinna lífvera hér sé undraverð. Þeir nefna nauðsynlega þætti til að flókið líf (t.d. spendýr) nái að þróast, þ.á.m. lífbelti, flekahreyfingar á yfirborði, reglulegar fjöldaútrýmingar, stórt tungl, o.s.frv. Bókin gefur einnig skemmtilegt og gott yfirlit yfir stöðu stjörnulíffræðinnar í dag. Þetta er algjör eye-opener um litla bláa punktinn okkar (jörðina).
Gefum henni 4 af 5.
Gefum henni 4 af 5.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 6.6.2007 kl. 17:07 | Facebook
Athugasemdir
Já, eins og margir hafa eflaust tekið eftir þá hefur lítið verið um uppfærslur á Stjörnufræðivefnum. Það stendur til að taka nýjan stjörnufræðivef í notkun innan skamms en á meðan verður væntanlega mesta aktionið hérna.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 5.6.2007 kl. 23:20
Ég las þessa bók fyrir um ári. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þrátt fyrir að hún sé vel skrifuð og í henni komi fram áhugaverðir punktar þá finnst mér hún helst til þreytandi. Þreytandi? Ojá, það er eitthvað sem angrar mig við að lesa bók eftir lærða menn sem snýst um fátt annað en að safna saman atriðum víðsvegar að úr vísindaheiminum til þess eins að styðja fyrirframgefna niðurstöðu. Í raun finnst mér undarlegt að slíkir menn leyfi sér að álykta (jafnvel staðhæfa) um flóknar lífverur annarsstaðar í heiminum þegar við höfum ekki einu sinni fundið einfaldar lífverur utan jarðarinnar. Ég set ekkert út á efnistök bókarinnar eða röksemdafærslur sem höfundarnir nota en slík æsifréttamennska sem í heildarniðurstöðu höfunda felst finnst mér ekki við hæfi ef ætlast er til að bókin sé tekin alvarlega sem vísindarit.
Ef þessi bók, Rare Earth, hefði annan undirtitil og héldi sig við það sem mér finnst best við hana (að þróunarsaga flókins lífs á jörðinni er sundurskorin af tímabilum og aðstæðum þar sem útlit var fyrir heildarútrýmingu þess og að við leit að samskonar lífi við svipaðar aðstæður þurfi að taka tillit til fleiri þátta en bara samsetningu hnattar og andrúmslofts) væri ég eflaust mun meiri aðdáandi hennar en ég er.
Ég las einnig fyrir nokkrum árum bók (Evolving the Alien) sem fjallar að miklu leyti um að líf utan jarðarinnar gæti verið gríðarlega ólíkt okkar eigin (því sem við þekkjum). Þessi bók er að sama skapi ætluð sem nokkurskonar mótsvar við þeirri þröngsýnu niðurstöðu sem Rare Earth predikar og í henni má finna eftirfarandi línu: (umorðuð þar sem ég lánaði mitt eintak bókarinnar).
"Rare Earth talar um hversu heppin við erum að jörðin skuli vera akkúrat nógu langt frá sólinni til þess að vatn geti verið fljótandi á yfirborðinu, og hversu heppin við erum að Júpíter skuli vera akkúrat á réttum stað til þess að sópa til sín loftsteinum og halastjörnum sem ella gætu þurrkað út líf á jörðinni. Á móti segjum við, heppin erum við að lappirnar á okkur eru akkúrat nógu langar til að ná niður á jörðina svo við getum gengið."
Með bestu kveðju,
Bogi Brimir
Bogi Brimir Árnason (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 13:42
Gott komment Bogi.
Ég hef ekki lesið Evolving the Alien svo ég get ekkert sett út á hana. Rare Earth er jú gríðarlega vinsæl bók. Við megum ekki gleyma að hún var í sjálf hugsuð sem mótsvar við bjartsýni (jafnvel óskhyggju) manna á borð við Frank Drake og Carl Sagan um allsnægt flókins lífs í vetrarbrautinni. Síðan kemur Evolving the Alien sem mótsvar við mótsvarið sýnist mér. Gott og vel.
Eins og þú bendir réttilega á höfum við ekki einu sinni fundið einfalt líf utan jarðar. Það er erfitt að vinna í tölfræði með heildarúrtak N=1 (jörðin). Ég er sammála þér í að flókið líf þarf alls ekki að þróast við "sömu" aðstæður og það gerði hér á jörðinni hvað þá eins uppbyggt líf. Möguleikarnir eru svo margir. En ég stend við mína skoðun að Rare Earth er mikilvæg og áhugaverð bók. Þeir taka saman ótrúlega mikið efni og geta alls staðar heimilda og draga sína ályktun út frá þeim. Undirtitillinn er soldið harður en ég er viss um að útgefandanum hefði ekki litist á t.d. "why life on earth is dependent on a large number of delicate factors"
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 7.6.2007 kl. 14:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.