3.3.2009 | 13:54
Stjörnuskoðun í Elliðaárdal í kvöld kl. 20:00
Í kvöld (þriðjudaginn 2. mars) býðst þér og fjölskyldu þinni tækifæri til þess að skoða stjörnuhiminninn með Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því að stjörnuskoðunin hefjist klukkan 20:00 og verður fjöldi stjörnusjónauka á staðnum. Þetta stjörnuskoðunarkvöld er haldið fyrir þig í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Eitt allra mikilvægasta markmið ársins er enda að sýna þér það sem Galíleó sá fyrir 400 árum og meira til.
Fjölmargt forvitnilegt er að sjá á himninum þessa dagana og munum við reyna að sýna þér það forvitnilegasta. Á vesturhimni við sólsetur skín reikistjarnan Venus áberandi skærast. Ofar á himninum er vaxandi tungl og ef vel er að gáð má sjá hvernig endurvarp frá jörðinni lýsir dauflega upp skyggða hluta þess. Við munum beina sjónaukunum að þessum tveimur næstu nágrönnum okkar í sólkerfinu.
Við verðum með blaðið um ár stjörnufræðinnar á staðnum. Það er því um að gera að koma með 1000 kr og styrkja starf félagsins í leiðinni.
Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.