Úr hverju er alheimurinn

abell1689

Myndina hér fyrir ofan tók Hubblessjónaukinn af hópi vetrarbrauta sem kallast Abell 1689 og er í 2,2 milljarða ljósára fjarlægð. Á myndinni sjást bogadregnar línur vetrarbrautar sem er í um 12,8 milljarða ljósára fjarlægð. Sú vetrarbraut varð sem sagt til aðeins 700 milljón árum eftir að alheimurinn varð til. Massi vetrarbrautahópsins í forgrunni er svo mikill að hann magnar upp ljósið frá bakgrunnsvetrarbrautinni og sveigir það og gerir okkur kleift að greina hana. Vetrarbrautahópurinn verkar því sem náttúrulegur stjörnusjónauki eða svonefnd þyngdarlinsa.

Seinustu ár hafa athuganir stjarneðlisfræðinga leitt í ljós þá óvæntu niðurstöðu að 95% af efnis- og orkuinnihaldi alheimsins er okkur ósýnilegt. Einungis 4,6% alheimsins er úr sýnilegu efni (atómum) en 23% svonefnt hulduefni og 72% hulduorka. Þótt hulduefnið sé ósýnilegt er engu að síður hægt að rannsaka það með hjálp svonefndra þyngdarlinsa.

Laugardaginn 18. apríl flytur Árdís Elíasdóttir, stjarneðlisfræðingur við Princetonháskóla í Bandaríkjunum, erindi um rannsóknir sínar á þessu dularfulla hulduefni. Erindið er hið sjötta í fyrirlestraröðinni ,,Undur veraldar: Undur alheimsins”, sem Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands efna til í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Venju samkvæmt hefst erindið klukkan 14:00 og fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Árdís var í viðtali við Ísland í bítið í morgun. Þú getur hlustað á viðtalið hér.

Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband