28.5.2009 | 09:55
Brennd sönnunargögn
Perklórat (HClO4) er salt sem aðeins hefur fundist á einum stað á Mars svo vitað sé, á norðurheimskautssvæði reikistjörnunnar þar sem Phoenix geimfarið lenti í maímánuði í fyrra. Á sama stað staðfestu menn tilvist íss undir þunnri jarðvegsþekju. Perklórat er efnasamband sem finnst t.d. í skraufþurri Atacamaeyðimörkinni í Chile og er notað til dauðhreinsunar á jörðinni. Þrátt fyrir það finnast bakteríur sem geta nýtt það sem orkugjafa. Tilvist perklórats á yfirborði Mars er því hvorki góðar fréttir né slæmar fyrir hugsanlegt líf. Líf á Mars myndi þó sennilegast leynast undir yfirborðinu, þar sem vatn gæti haldist fljótandi, fjarri sótthreinsandi útfjólubláum geislum sólar sem eiga greiða leið í gegnum örþunnan lofthjúp Mars.
Á Mars er nístingskuldi en tilvist þessa salts og annarra varpar fram spennandi möguleika. Það er erfitt að ímynda sér vatn á fljótandi formi við -70°C. Sölt eins og perklórat geta hins vegar gegnt hlutverki frostlagar og lækkað frostmark vatns umtalsvert. Þannig getur magnesíum perklórat salt lækkað frostmark vatns niður í -72°, sem er svipað hitastig og var á lendingarstað Phoenix á meðan leiðangrinum stóð.
Hefur fljótandi vatn þegar fundist á Mars?
Í febrúar á þessu ári tilkynnti Nilton Renno, einn vísindamannanna sem starfaði við Phoenix leiðangurinn, niðurstöður rannsókna sinna sem sögðu að fljótandi vatn hefði þegar fundist á Mars. Rannsóknarteymi Rennos sýndi fram á, með tilraunum, að lendingarflaugar geimfarsis gætu hafa brætt efsta lag íssins undir lendingarstaðnum og vatnsdroparnir sem þá mynduðust, gætu hafa skvesst á einn fót geimfarsins. Ef vatnið innihélt nógu mikið af salti gæti það hafa haldist fljótandi þegar hlýjast var dagsins. Með tímanum gæti einnig vatnsgufa í lofthjúpnum hafa safnast saman á fætinum, vaxið og runnið eftir fætinum.
Það ber þó að taka skýrt fram að þessar niðurstöður eru mjög umdeildar meðal reikistjörnufræðinga.
Því má ekki gleyma, að ef bakteríur finnast á Mars þætti þeim líklega lofthjúpurinn okkar baneitraður. Hver veit hvort perklórat sé kostur frekar en galli?
Mars er alveg ótrúlega heillandi reikistjarna, en ég leyfi mér að efast stórlega að menn hafi nú þegar brennt sönnunargögn fyrir lífi á henni. Ég hef miklu meiri trú á að lífið leynist á heppilegum svæðum einhvers staðar undir yfirborðinu.
Sönnunargögnin brennd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Alltaf athyglisverðir pistlar frá þér við svona fréttir á Mbl.is! :)
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 10:18
Fréttir af Mars vekja alltaf áhuga minn, takk fyrir þessar upplýsingar.
Loftslag.is, 28.5.2009 kl. 12:23
Takk kærlega fyrir það báðir tveir!
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 28.5.2009 kl. 19:19
Alltaf góðir.
Takk fyrir þetta, drengir!
Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 07:51
Mjög skemmtileg og áhugaverð grein.
Sólveig (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 23:23
Skemmtileg lesning og áhugaverð. Mín spurning er nánast alltaf sú sama: Hvenær heldur þú að mannkynið setjist að á Mars? Mér finnst plánetan okkar vera að verða of lítil fyrir okkur :/
Rúnar Jóhannesson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.