LRO og LCROSS búin undir geimskot - Skeyti á stærð við Land Cruiser rekst á tunglið

Þann 17. júní verður tveimur nýjum tunglkönnunarförum, Lunar Reconnaissance Orbiter (LRO) og LCROSS, skotið saman á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Með þessum geimförum hefst endurkoma NASA til tunglsins fyrir alvöru, fjörutíu árum eftir að menn stigu þar fyrst fæti.

LRO er brautarfar sem ætlað er að kortleggja yfirborð tunglsins mjög nákvæmlega og leita eftir vísbendingum um vatnsís í skyggðum gígum við pólsvæði tunglsins. Um borð í geimfarinu er mjög öflug myndavél sem er fær um að ljósmynda þau tæki sem Apollo geimfararnir skildu eftir sig fyrir fjörutíu árum.

LCROSS mun aftur á móti beina efsta stigi Atlas V eldflaugarinnar, sem kom geimförunum á loft, niður að yfirborði tunglsins í október næstkomandi. Efsta stig eldflaugarinnar gegnir því hlutverki skeytis sem á að klessa á gígbotn við suðurpól tunglsins á 9000 km hraða á klukkustund. Efsta stig eldflaugarinnar er á stærð við Land Cruiser jeppa. Við áreksturinn þyrlast upp jarðvegur sem LRO og sjónaukar á jörðu niðri munu rannsaka ítarlega í þeirri von að þar finnist ummerki íss. LCROSS bíða sömu örlög, nokkrum mínútum síðar.

Nánar er sagt frá þessu á Stjörnufræðivefnum.

Sjá einnig ítarlega grein um Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS á Stjörnufræðivefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband