Arftaki Hubbles

Í maí síðastliðnum heimsóttu geimfarar Hubblessjónaukann í hinsta sinn. Öll helstu markmið leiðangursins náðust. Sett voru upp tvö ný mælitæki og gert við gamla myndavél sem hafði bilað. Skipt var um rafhlöður og stjórnbúnað og miðunarbúnaður sjónaukans endurnýjaður. Loks settu geimfarar upp nýjar hlífar til þess að verja sjónaukann fyrir ryki sem hann rekst á í geimnum. Eftir þessa endurnýjun ætti sjónaukinn að eiga fimm ár framundan hið minnsta. Gert er ráð fyrir því að um það leyti verði nýjum geimsjónauka sem nefnist James Webb geimsjónaukinn skotið á loft.

James Webb sjónaukinn verður heldur stærri en Hubble. Hubble er á stærð við strætisvagn en James Webb verður álíka stór og tennisvöllur. Spegill James Webb verður 6,5 metri í þvermál á meðan spegill Hubbles er "aðeins" 2,4 metrar í þvermál. 

Ekki er hægt að koma svo stórum sjónauka fyrir í hefðbundinni eldflaug. Þess vegna er sjónaukanum pakkað saman og hann látinn opna sig líkt og fiðrildi að klekjast úr eggi sínu. Þar má ekkert fara úrskeiðis enda útilokað að fara í viðhaldsleiðangur til James Webb þar sem hann verður ekki á hringsólu umhverfis jörðina líkt og Hubble, heldur verður honum komið fyrir í 1,5 milljón km fjarlægð frá jörðinni.

Þú getur lesið allt um James Webb geimsjónaukann í nýrri og fróðlegri grein á Stjörnufræðivefnum. Í greininni er myndskeið sem sýnir sjónaukann opna sig og þar er líka fróðleikur um spegilinn sem er húðaður með 24 karata gulli!

----

Nýjasti Vísindaþátturinn er líka kominn á vefinn. Í gær leit Karen Meech, stjörnufræðingur við Hawaiiháskóla, til okkar í spjall um sumarskólann í stjörnulíffræði og halastjörnur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband