Góð grein í Morgunblaðinu í dag - Fyrirlestur um tilurð tegunda

Í Morgunblaðinu í dag skrifar Eiríkur Sigurðsson líffræðingur sem starfar hjá KOM almannatengslum grein sem nefnist "Lítið gert úr vísindum". Í greininni fjallar Eiríkur um ábyrgð fjölmiðla í umfjöllun um vísindi og nefnir réttilega að stundum eru ekki allar skoðanir jafn réttháar. Hann kemur líka inn á ástæðulausan ótta fólks um bólusetningar, fjallar um skoðanir fólks á erfðabreyttum og lífrænum matvælum. Eiríkur minnist líka á detox meðferðir sem njóta ótrúlegra vinsælda hér á landi og bloggvinur okkar Svanur Sigurbjörnsson læknir gerði að umtalsefni í bloggfærslu sem vakti talsverða athygli. 

Að lokum segir Eiríkur í greininni:

Vísindamenn þurfa að taka þátt í umræðunni

Á þessu vandamáli er engin einföld lausn. Fjölmiðlar þurfa auðvitað að taka sig á í því að auka umfjöllun um vísindaleg málefni og leggja þar ekki öll sjónarmið að jöfnu. Einstaklingar án sérþekkingar á tilteknu fræðasviði eiga ekki gagnrýnislaust að geta kallað sig sérfræðinga og haldið fram rökum sem ganga þvert gegn vísindalegri þekkingu. Það er hins vegar enn mikilvægara að vísindamenn taki meiri þátt í almennri umræðu í samfélaginu. Það er ekki lengur nóg að bera staðreyndir á borð á hlutlausan hátt þegar eftir því er kallað. Vísindamenn verða að leyfa sér að hafa skoðun og hafa frumkvæði að beinskeyttri gagnrýni á rökleysu, kukl, hjátrú, hjávísindi, sögusagnir og fortíðardýrkun. 

Algjörlega!

----

Arnar Pálsson vekur athygli á mjög áhugaverðum fyrirlestrum sem fram fara laugardaginn 29. ágúst:

Næstkomandi laugardag munu Peter og Rosemary Grant halda erindi um finkurnar á Galapagos (13:00 laugardaginn 29 ágúst, í hátíðarsal HÍ - aðalbyggingu). Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwin (sjá darwin.hi.is). Þar verður gefið yfirlit um fjölbreytileika tegundanna, útbreiðslu þeirra og þróun. Rannsóknir Grant hjónanna eru innblásin af þróunarkenningunni og hafa þau fylgst með náttúrulegum breytingum á samsetningu finkustofna á nokkrum eyjum klasans. Þau takast við eina af lykilspurningunum þróunarfræðinnar "hvernig verða tegundir til?"

Tilurð tegunda er ein af ráðgátum þróunarfræðinnar. Almennt er talið að tegundir myndist greiðlega í kjölfar landfræðilegrar uppskiptingu stofna, við svokallaða sérsvæða tegundamyndun (allopatric speciation). Annar möguleiki er að tegundir verði til án landfræðilegrar einangrunar, eða vegna  samsvæða tegundamyndunar (sympatric speciation). Samsvæða tegundamyndun er þó álitin af mörgum mjög ólíkleg. Samt eru til nokkur forvitnileg dæmi sem benda til þess að tegundir geti myndast úr einum stofni á einu landsvæði. Þróunarfræðingarnir og hjónin Peter og Rosemary Grant við Princeton háskóla munu ræða um rannsóknir sínar í erindi sem þau nefna “Samsvæða tegundamyndun meðal fugla”.

Hinn fyrirlesturinn verður kl 10:00 laugardaginn 29 ágúst, í stofu 132 í Öskju. Erindið er öllum opið og verður flutt á ensku.

Að gefnu tilefni: Athugið að um er að ræða tvo fyrirlestra, einn um sérhæfðara efni kl 10:00  og annan yfirgripsmeiri kl 13:00.

Nánar á bloggsíðu Arnars.

Við hvetjum að sjálfsögðu allt áhugafólk um vísindi til að mæta.

----

Við minnum enn og aftur á ljósmyndasýninguna From Earth to the Universe á Skólavörðuholti. Sýningin hefur vakið talsverða athygli og þegar hafa þúsundir einstaklinga skoðað hana. Ég er ótrúlega stoltur af þessari sýningu, sér í lagi vegna þess að hún grípur fólk sem hefur ekkert endilega neinn sérstakan áhuga á vísindum. Þarna sést nefnilega hvað viðfangsefni vísindanna eru ótrúlega tilkomumikil og falleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég las þessa óvenju góðu grein í Mogganum í morgun.  Mæli með henni!

Ágúst H Bjarnason, 27.8.2009 kl. 10:26

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Sævar fyrir að benda á þetta.

Eiríkur er gamall félagi úr líffræðinni, alveg ljómandi íslenskumaður. Getur þú ekki endurprentað alla greinina? Ég tími ekki áskrift að mogganum!

Arnar Pálsson, 27.8.2009 kl. 11:17

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Hér er hún. Ég vona að hann fyrirgefi mér að kópera þetta svona:

Lítið gert úr vísindum
Eiríkur Sigurðsson

ÞEIRRAR tilhneigingar gætir æ meira í almennri umræðu að leggja að jöfnu vísindaleg rök og þekkingu annars vegar og rökleysu, kukl, hjátrú, hjávísindi, sögusagnir og óljósa fortíðardýrkun hins vegar. Þröskuldur fjölmiðla gagnvart óvísindalegu efni er lágur og umræðan magnast upp á spjall- og bloggsíðum, í spjallþáttum ljósvakamiðla og í svokölluðum lífsstílstímaritum.

Alvarlegt dæmi um þetta er umræða um ímynduð tengsl einhverfu og bólusetninga sem alltaf skýtur öðru hverju upp kollinum hér á landi. Ábyrgð þeirra sem halda þessari umræðu á lofti er mikil, því foreldrar sem láta blekkjast og láta ekki bólusetja börnin sín, leggja líf barnanna sinna og annarra í hættu.

Bólusetningar valda ekki einhverfu

Einn af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum telur að bólusetningar geti valdið einhverfu. Talið er að rekja megi mislingafaraldur í Bandaríkjunum árið 2008 til þess hversu margir ákveða að láta ekki bólusetja börnin. Hettusótt og kíghósti hafa einnig sótt í sig veðrið af sömu ástæðu. Allt frá þeim tíma þegar þessi umræða kom fyrst upp, fyrir um tíu árum, hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir til að kanna hvort bólusetningar geti mögulega orsakað einhverfu. Engar vísindalegar niðurstöður benda til þess. Hins vegar sýna fjölmargar rannsóknir að bólusetningar vernda börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. En þrátt fyrir að virtar vísindastofnanir hafi sent frá sér yfirlýsingar um að bólusetningar valdi ekki einhverfu, lifir umræðan góðu lífi í samfélaginu, meðal annars í fjölmiðlum og netheimum.

Sjálfskipaðir sérfræðingar um erfðabreytt bygg

Annað dæmi um hversu afvega umræða um vísindaleg málefni á það til að fara, er umræða um ræktun á erfðabreyttu byggi hér á landi í vor. Þar var enginn skortur á sjálfskipuðum sérfræðingum sem vöruðu almenning við þeirri stórkostlegu hættu sem fælist í því að »sleppa erfðabreyttum lífverum í íslenskri náttúru«. Í fjölmiðlum var það áberandi að vísindaleg og tilfinningaleg sjónarmið voru lögð að jöfnu. Sjálfskipuðum sérfræðingum var gefið sama vægi og raunverulegum vísindamönnum á þessu sviði. Þannig tókst um tíma að sá fræjum efasemda meðal almennings, þó engin raunveruleg hætta sé fólgin í því að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi, hvorki fyrir umhverfið né menn. Þessi umræða hefur nú leitt til þess að óprúttnir einstaklingar hafa eyðilagt mikilvæga tilraunaræktun nýsköpunarfyrirtækisins ORF Líftækni í Gunnarsholti. Það er mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt vísindasamfélag að umræðan hér sé orðin svo afvegaleidd að hópur fólks, sem neitar að taka vísindaleg rök gild, skuli vera tilbúinn að styðja aðgerðir að fyrirmynd erlendra öfgahópa.

Lífrænt er ekki sjálfkrafa betra

Þetta tengist því hversu viðurkennt það er orðið í almennri umræðu að allt sem sé »lífrænt« eða »náttúrulegt« sé á einhvern óskilgreindan hátt betra, hollara, umhverfisvænna og öruggara en það sem er »tilbúið« eða »unnið«. Rannsóknir benda þó til að hollusta lífrænt ræktaðra matvara sé síst meiri en annarra matvæla, þó verðið sé auðvitað frábrugðið. Í rannsóknum hafa jafnvel komið fram vísbendingar um að lífrænt ræktaðar matjurtir geti innihaldið meira magn þungmálma og annarra eiturefna en aðrar matvörur. Því er samt sem áður endalaust haldið að almenningi að svokallaður lífrænn matur sé hollari og betri öðrum mat og að eftirsóknarvert sé að hverfa aftur til fortíðar með svokölluðum lífrænum búskaparháttum, meðal annars með því að hætta notkun tilbúins áburðar og lyfja.

Svelti og stólpípa ekki holl

Það er auðvelt að tína til fleiri dæmi um sérstaka umræðu þar sem óvísindaleg umfjöllun viðgengst og lítið er gert úr vísindalegri byltingu undanfarinna alda. Má til dæmis nefna svokallaða ristilskolun eða »detox« sem látið er að liggja að byggist á raunverulegri læknisfræðilegri þekkingu. Engin rök hníga hins vegar að því að svelti og stólpípa séu holl heilsu manna.

Vísindamenn þurfa að taka þátt í umræðunni

Á þessu vandamáli er engin einföld lausn. Fjölmiðlar þurfa auðvitað að taka sig á í því að auka umfjöllun um vísindaleg málefni og leggja þar ekki öll sjónarmið að jöfnu. Einstaklingar án sérþekkingar á tilteknu fræðasviði eiga ekki gagnrýnislaust að geta kallað sig sérfræðinga og haldið fram rökum sem ganga þvert gegn vísindalegri þekkingu. Það er hins vegar enn mikilvægara að vísindamenn taki meiri þátt í almennri umræðu í samfélaginu. Það er ekki lengur nóg að bera staðreyndir á borð á hlutlausan hátt þegar eftir því er kallað. Vísindamenn verða að leyfa sér að hafa skoðun og hafa frumkvæði að beinskeyttri gagnrýni á rökleysu, kukl, hjátrú, hjávísindi, sögusagnir og fortíðardýrkun. 

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.8.2009 kl. 12:09

4 identicon

Já hvernig væri nú að íslenskir vísindamenn fari að láta í sér heyra...  bara á bloggi mbl eru ótal ruglukollar að básúna galdra og annað kjaftæði sem er til þess eins fallið að skemma og rífa niður þekkingu og vísindi, er eiginlega bein árás á framtíð æskunnar og íslands.

Praise humanity, science and knowledge

DoctorE (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 14:44

5 Smámynd: Óli Jón

Þetta er góð grein og í tíma töluð. Margir vilja setja hjátrú og hindurvitni ofar vísindum og nú er svo komið að víðs vegar í Bandaríkjunum er skólum skylt að gera hvoru tveggja jafn hátt undir höfði. Því munu ótal börn alast upp við það að vera mötuð á 'staðreyndum' sem ekki eiga sér nokkra stoð í veruleikanum.

Þetta er sorgleg staðreynd.

Óli Jón, 27.8.2009 kl. 14:57

6 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég held að sumir bloggarar hérna ættu að fara á þetta... nefni engin nöfn. ;)

Jón Ragnarsson, 27.8.2009 kl. 21:44

7 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Magnús Tumi lét heyra í sér um daginn með frábærri grein í Morgunblaðinu þar sem hann gjörsamlega hraunaði yfir "sjándann" sem þóttist hafa séð fyrir stóran jarðskjálfta. Vonandi er þetta að aukast.

Tek undir með þér Óli Jón.

Já, Mofi ætti sennilega að fara á þessi erindi. Hann myndi nú samt ekkert sannfærast enda horfir hann á heiminn með bundið fyrir augun.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.8.2009 kl. 22:09

8 identicon

Af nógu er að taka. Í Morgunblaðinu í dag er heilt aukablað, Heilsa, tileinkað misviturlegum "lífstílslausnum" og hjávísindum um áhrif meðferða, öndunaræfinga, orkudrykkja o.fl. til andlegrar og líkamlegrar alsælu. Með ákveðinni gerð öndunar sem þú getur lært gegn gjaldi, tryggir þú betra súrefnisflæði um heilavefinn, hugsar skýrar og losnar við streitu. Orkudrykkurinn Jenfe inniheldur efni sem kemur í veg fyrir krabbamein, beinþynningu og lengir líf músa um 30%. Morgunblaðið hefur engan þröskuld fyrir sölumennsku þar sem örvænting fólks sem líður illa er höfð að féþúfu.

Jóhanna Arnórsdóttir (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 09:33

9 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Úff, margt af þessu sem þú bendir á Jóhanna er alveg hræðilegt. Það er ótrúlegt hvað þetta fólk á auðvelt með að ota sínum tota. Allir að selja töfralausnir sem falla fólki vel í geð. Vonandi verða vísindamenn smám saman óhræddari við að gagnrýna þessa vitleysu.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 28.8.2009 kl. 22:39

10 Smámynd: Páll Jónsson

Það er merkilegt að sama sjónvarpsstöð og sýnir Penn og Teller (sem er vissulega stundum mistækir en almennt boðberar skynsemi) skuli á sama tíma vera að auglýsa nýjan þátt með miðilsógeðinu sem var á bak við lífsaugað ef ég man rétt.

Páll Jónsson, 29.8.2009 kl. 22:32

11 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, það er dálítið sorglegt. Kannski halda þeir að svona óskaplega margir muni koma til með að horfa á Þórhall "miðil" sem sér með þriðja auganu og heyrir með dulheyrninni. Hvað svo sem það er. Reyndar hef ég ekki trú á að sami hópur og horfir á Penn og Teller muni koma til með að sitja undir þvættingnum í Lífsauganu.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 29.8.2009 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband