29.8.2009 | 23:23
Júpíter skín skært í suðri
Það er yndislegt veður þessa stundina til að stunda stjörnuskoðun. Í suðri blasir við björt og ægifögur stjarna, sjálfur konungur reikistjarnanna, gasrisinn Júpíter.
Ef þú átt handsjónauka, prófaðu þá að fara út með hann og kíktu á Júpíter. Reyndu að styðja sjónaukann við fasta undirstöðu svo hann titri sem allra minnst, t.d. á bílþak eða eitthvað slíkt. Þú ættir að geta séð það sama og Galíleó sá fyrir 400 árum, nefnilega fjögur tungl á sveimi um reikistjörnuna. Galíleótunglin líta út eins og litlar daufar stjörnur við hlið gasrisans.
Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Hér er stjörnuhimininn ægifagur. Vetrarbrautin sést vel, enda enginn bjarmi frá tunglinu eða norðurljósum.
Tungl Júpitres sjást vel með Canon 15x50 handsjónaukanum sem er með Image Stabilizer. Það er gaman að skoða stjörnuhimininn með handsjónauka, jafnvel þó maður eigi stjörnusjónauka.
Í fjarska sé ég marga sumarbústaði þar sem fólk er með skær útiljós. Á svona fallegum kvöldum veldur það glýju. Þetta er mikið tillitsleysi við nágrannana. Reyndar hef ég aldrei skilið hvers vegna fólk er með útiljósin kveikt við sumarbústaði. Ætli það sé svona myrkfælið?
Fólk skilur jafnvel útiljósin eftir kveikt þegar það er ekki í bústaðnum. Líklega til að auðvelda óboðnum gestum að finna þá í myrkrinu...
Ágúst H Bjarnason, 30.8.2009 kl. 00:09
Himininn í gær var alveg stórfenglegur. Úr bænum sá maður glitta í Vetrarbrautina þrátt fyrir smá ljósmengun. Það skipti sköpum að hvorki tungl né norðurljós voru á himni.
Tek undir með þér Ágúst, að stjörnuskoðun með handsjónauka er mjög skemmtileg. Handsjónauki er mjög vanmetið tæki.
Tek líka heilshugar undir með þér varðandi ljósmengunina. Ég skil líka ekki hvers vegna fólk fer í uppljómaða sumarbústaði. Ef það er svona myrkfælið, af hverju heldur það sig þá ekki bara í upplýstri borginni. Svo er þetta bara tillitsleysi við nágrannana og algjör sóun á orku og peningum í þokkabót.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 30.8.2009 kl. 12:11
Sælir var í bústað við Gíslholtsvatn,mjög flott í gærkveldi eingin ljósmeingun.sé sdundum bjarma frá Flúðum.
En hvers konar handsjónauka ætti maður að fá sér?
kv HJ
Makki (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 18:59
Talandi um sjónauka, þá vantar son minn stjörnusjónauka, almennilegan og ég var að velta því fyrir mér hvort þið vissuð um einhvern notaðan í góðu lagi? Þeir eru svo dýrir nýir Sonur minn var að hefja nám í eðlisfræði í Háskóla Íslands og kannski velur hann stjarneðlisfræði þegar fram líða stundir.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.9.2009 kl. 00:52
Það eru fjölmargir góðir handsjónaukar í boði, misdýrir að sjálfsögðu eftir gæðum. Ég myndi segja að í dag kosti góður handsjónauki milli 15 til 30 þúsund krónur. Góður staður til að kaupa handsjónauka og stjörnusjónauka er Sjónaukar.is.
Margrét, þetta er alltaf spurning um hversu háum fjárhæðir maður er tilbúinn að verja. Hægt er að fá mjög góða stjörnusjónauka á bilinu 30.000 upp í 50.000 kr. Á Sjónaukar.is er líka hægt að skoða ýmislegt sem er í boði og fá þá á betra verði en gengur og gerist út úr búð. Í stjörnuskoðun mæli ég með spegilsjónauka, eins stórum og mögulegt er.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 1.9.2009 kl. 09:23
Canon handsjónaukinn 15x50 IS sem er með innbyggðri hristivörn er auðvitað mjög góður, en fokdýr. Kostar í dag tæplega $970 hjá Amazon.
Á vefsíðu Amazon er umsögn sem byrjar þannig:
"These binoculars are spectacular. Point them at Jupiter and you see a bright dot wandering around in the field of view. Press the image stabilization switch and the planet and its moons instantly become visible. While they can't subtract all movement they do get rid of the little shakes that make hand held viewing so difficult. 15x is enough magnification that Saturn is obviously not round..."
Það er auðvitað algjör óþarfi að kaupa svona dýran sjónauka
Ágúst H Bjarnason, 1.9.2009 kl. 10:45
Bestu þakkir fyrir upplýsingarnar
Margrét St Hafsteinsdóttir, 2.9.2009 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.