3.9.2009 | 17:32
Óviðjafnanleg fegurð hringa Satúrnusar
Hringar Satúrnusar eru eitt af undrum sólkerfisins. Óhemju fallegir og dularfullir á sama tíma. Galíleó sá hringana fyrstur fyrir tæpum 400 árum en gerði sér ekki grein fyrir hvað það raunverulega var sem skagaði úr hvorri hlið hans. Árið 1612 sá Galíleó að hringarnir voru horfnir en ári síðar birtust þeir á ný. Hvers vegna hurfu hringarnir ásjónum Galíleós? Ástæðan er möndulhalli Satúrnusar.
Allar reikistjörnur sólkerfisins hafa möndulhalla, aðeins mismikinn. Möndulhalli jarðar er 23,5 gráða og veldur hann árstíðaskiptum. Möndulhalli Satúrnusar er nokkru meiri eða 27 gráður. Á Satúrnusi eru því árstíðaskipti líkt og á jörðinni - vetur, sumar, vor og haust - en nokkru öfgafyllri vegna meiri möndulhalla. Líkt og jörðin heldur Satúrnus þessum möndulhalla á ferð sinni umhverfis sólina. Það þýðir að norður- og suðurhvel Satúrnusar beinast í átt til okkar til skiptist. Það þýðir aftur stundum sjáum við ofan á hringana og stundum undir þá.
Á sama tíma og Satúrnus fer einn hring um sólina fer jörðina þrjátíu. Á fimmtán ára fresti gerist það að við horfum beint á hringana. Þá er sagt að hringarnir séu á rönd. Þar sem hringarnir eru næfurþunnir, aðeins nokkrir tugir til hundruð metrar á þykkt, hverfa þeir algjörlega ásjónum okkar. Galíleó sá þetta gerast fyrir tæpum 400 árum og við sjáum þetta gerast í dag, á ári stjörnufræðinnar 2009.
Þessi glæsilega mynd sýnir hvernig hallinn breytist smám saman uns hringarnir hverfa nánast algjörlega. Myndina útbjó bandaríski stjörnuáhugamaðurinn Alan Friedman.
Síðustu ár hefur Cassini geimfarið sveimað um Satúrnus, hringana og fylgitungl hans. Cassini hefur sent þúsundir stórglæsilegra ljósmynda heim til jarðar af hringunum. Glæsilegar hreyfimyndir sýna þau áhrif sem þyngdarkraftur tungla hefur á hringana, t.d. þessi hér sem tekin var 20. ágúst síðastliðinn:
Hér sjást vel þau áhrif sem tunglið Prómeþeifur (innra) hefur á F-hringinn. Þegar Prómeþeifur dýfir sér inn í hringinn verður til þetta fallega gárumynstur þegar tunglið hrífur með sér örfínar ísagnir í hringnum. Neðra tunglið sem sést á þessari mynd heitir Pandóra. Tungl sem hringsóla innan hringakerfa reikistjörnu eru nefnd smalatungl.
Satúrnus er svo falleg reikistjarna. Þú getur fræðst miklu meira um hana og séð miklu fleiri myndir af hringunum á Stjörnufræðivefnum.
Hvers vegna þarf fólk að menga heiminn með óþarfa fantasíum þegar slík fegurð blasir við okkur?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.