17.9.2009 | 20:09
Tuttugu ár frá leiðangurslokum Voyager 2
Þann 20. ágúst 1977 var Voyager 2, ómönnuðu könnunarfari, skotið út í geiminn frá Canaveralhöfða í Flórída. Á ferðalagi sínu heimsótti Voyager 2 fjórar reikistjörnur og tungl þeirra, þar á meðal tvær reikistjörnur sem ekkert geimfar hafði heimsótt áður, Úranus og Neptúnus. Fá geimför hafa kennt okkur meira um undur sólkerfisins en Voyager kannarnir eins og Carl Sagan segir frá á þessu myndskeiði úr sjötta þætti Cosmos þáttaraðarinnar, sem er óumdeilanlega bestu sjónvarpsþættir sögunnar:
Þess er nú minnst að tuttugu ár eru liðin frá leiðangurslokum Voyagers 2 þegar geimfarið geystist framhjá Neptúnusi og Tríton í lok ágúst 1989. För þess var þá heitið út úr sólkerfinu, út í víðáttur Vetrarbrautarinnar.
Í maí 2008 var Voyager 2 í ríflega 86 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni (tæpir 13 milljarðar km) og fjarlægðist með hraðanum 16 km/s. Það þýðir að geimfarið fjarlægist um 3,3 stjarnfræðieiningar á ári. Voyager stefnir í átt að stjörnumerkinu Páfuglinum (Pavo) sem sést ekki frá Íslandi. Geimfarið stefnir ekki í átt að neinni tiltekinni stjörnu. Reiknað er með því að samband haldist við geimfarið til ársins 2025, eða meðan rafmagnið endist, þá um 48 árum eftir að því var skotið á loft.
Ég er of ungur til að muna eftir þessum leiðangri, því miður. Eftir stutta könnun á Tímarit.is sýnist mér þó sem leiðangurinn hafi ekki fengið sömu athygli og hann átti skilið. En það er víst ekkert nýtt, fjölmiðlar hafa því miður ótrúlega lítinn áhuga á vísindum, jafnvel þótt fólk hafi mjög gaman af þeim. Því þarf að breyta.
----
Í gær var birt ljósmynd frá Swift gervitunglinu af Andrómeduvetrarbrautinni í útbláu ljósi. Eins og svo oft vill verða með ljósmyndir úr stjörnufræðinni er myndin stórglæsileg. Þú getur notið hennar hér.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:11 | Facebook
Athugasemdir
Algjörlega sammála því að vísindin fá skammarlega litla athygli.
Langaði annars að heyra hvað ykkur finnst um þessa grein Paul Davies um ferðalag aðra leið til Mars? Sjálfum finnst mér hún hrein snilld. Skakki Turninn fjallaði líka um hana og lét forsíðuna undir takk fyrir!
http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2009/sep/15/space-mars-martian-astronaut
Lúlli (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.