Sex spennandi fyrirbæri á hausthimni

Við höfum tekið saman lista yfir sex spennandi fyrirbæri sem hægt er að skoða í stjörnusjónaukum af öllum stærðum og gerðum. Hægt er að lesa sér til um öll þessi fyrirbæri á Stjörnufræðivefnum og prenta út kort sem duga (vonandi) til þess að finna þau á himninum. Hér er brot af því besta sem hentugast er að skoða á haustin:

M13 - Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi1) Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi (M13)
Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi er glæsilegasta kúluþyrpingin sem sést frá Íslandi. Í henni eru nokkur hundruð þúsund stjörnur samankomnar í kúlulaga skýi sem er um 150 ljósár í þvermál.

2) Herðatréð í Litlarefi
Hérðatréð í Litlarefi er samstirni nokkurra stjarna sem raðast upp í mynstur sem lítur út eins og herðatré! Þær eru hins vegar mislangt frá okkur á bilinu 200 til 1100 ljósára fjarlægð.

3) Dymbilþokan í Litlarefi (M27)
Dymbilþokan er hringþoka eins og Hringþokan í Hörpunni (M57). Þær eru báðar leifar sólstjarna sem líktust sólinni en þeyttu frá sér ytri lögunum þegar þær enduðu ævi sína.

4) Tvístirnið Albíreó í Svaninum
Gullfallegt tvístirni með litamun. Tiltölulega auðvelt er að finna Albíreó á himninum neðst í Svaninum (er í raun í höfði Svansins þar sem hann flýgur niður eftir Vetrarbrautarslæðunni). Albíreó er trúlega þekktasta tvístirnið á næturhimninum og það er ekki að ástæðulausu!

M57 - Hringþokan í Hörpunni5) Hringþokan í Hörpunni (M57)

Hringþokan í Hörpunni er þekktasta hringþokan á næturhimninum. Við fyrstu sýn lítur hún út eins og loðin stjarna en við nánari athugun líkist hún frekar örlitlum reykhring.

6) Tvöfalda tvístirnið epsilon í Hörpunni
Auðvelt er að finna staðsetning epsilon í Hörpunni rétt hjá Vegu sem er meðal björtustu stjarnanna á himninum. Við litla stækkun sjást tvær stjörnur. Við þokkaleg skilyrði má með talsverðri stækkun sjá að þarna eru í raun fjórar stjörnur (tvö tvístirni).

Hér er greinin á Stjörnufræðivefnum: Sex spennandi fyrirbæri á hausthimni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband