Nánar um hringa Satúrnusar

Þessi nýi hringur Satúrnusar fannst með Spitzer geimsjónaukanum sem gerir athuganir í innrauðu ljósi.

Upphafssvæði hans er í 6 milljón km fjarlægð frá Satúrnusi og teygir hann sig allt að 18 milljón km út frá reikistjörnunni. Hringurinn hallar auk þess 27 gráður miðað við meginhringa Satúrnusar, sem er áhugavert.

Í fréttinni ætti að standa að fjarlægasta þekkta fylgitungl Satúrnusar, Föbe (ekki Phoebe), hringsóli um Satúrnus innan hins nýfundna hrings og er að líkindum uppspretta hringefnisins.

Það sem gerir þennan hring líka áhugaverðan er þykkt hans. Hann er um tuttugu sinnum þykkari en reikistjarnan sjálf, en hringar Satúrnusar eru annars örþunnir, ekki nema fáeinir tugir metra á þykkt. Þessi mikla þykkt þýðir að hringurinn er mjög efnisrýr, en hann er annars úr mjög fínum ís og rykögnum. Þetta er aðalástæða þess að þessi hringur fannst svo seint. Efnið í honum er dreift yfir svo víðfemt svæði að ef þú værir innan hringsins, þá myndir þú ekki vita af honum. Ekki einu sinni Cassini geimfarið, sem er á braut um Satúrnus, fann hringinn þegar það ferðaðist í gegnum hann árið 2004.

Þessi uppgötvun gæti mögulega útskýrt eina helstu ráðgátu tunglsins Japetusar. Þegar Japetus fannst árið 1671 tóku stjörnufræðingar eftir því að tunglið var misbjart, eftir því hvoru meginn við Satúrnus það var. Drógu þeir þá ályktun að önnur hlið tunglsins væri hvít en hin dökk. Hingað til hefur ekki fundist haldbær útskýring hvers vegna tunglið er svona sérkennilegt, en hinn nýfundni hringur gæti útskýrt það. Þegar Japetus snýst umhverfis Satúrnus safnast rykagnirnar í hringnum á þá hlið tunglsins sem það stefnir í, ekki ósvipað og flugur sem rekast á framrúðu bíls á ferð. Þess vegna er önnur hliðin dökk en hin ljós.

Ef þú vilt fræðast meira um hringa Satúrnusar, þá mæli ég með þessari grein á Stjörnufræðivefnum. Þarna eru stórglæsilegar myndir og hafsjór af fróðleik um þetta undur sólkerfisins.

Mbl.is fær prik fyrir viðleitni þótt frásögnin þar sé kannski ekki alveg fullkomlega rétt.


mbl.is Nýr hringur um Satúrnus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldarviðbót við fréttina, takk.

Viðar Örn Línberg (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband