Áreksturinn á eftir

Uppfært! Áreksturinn hefur átt sér stað. Því miður varð enginn efnismökkur greinilegur á myndunum í beinu útsendingunni, sem eru talsverð vonbrigði satt að segja, en var vissulega möguleiki. Við bíðum bara spennt eftir myndum frá sjónaukum um heim allan. Mökkurinn hefur þar af leiðandi örugglega ekki sést í áhugamannasjónaukum, en við skulum bíða og sjá hvað sést hefur á myndum frá Hubble og öðrum sjónaukum á jörðu niðri. Samkvæmt því sem ég er að heyra hefur enginn mökkur greinst á myndum frá Palomar og Mauna Kea

Hafa verður í huga að svona atburðir eru ekki alltaf sýnilegir í sýnilegu ljósi heldur á öðrum bylgjulengdum. 

Hvað gæti þetta þýtt? Það eru einkum þrír möguleikar. Í fyrsta lagi gæti verið að það sé hreinlega enginn vatnsís þarna. Í öðru lagi gæti verið miklu minna vatn en búist var við og í þriðja lagi gæti áreksturinn hafa orðið á óheppilegum stað ef svo má segja.

Hvað um það. Það verður fréttamannafundur klukkan 2 í dag þar sem fyrstu gögn verða birt. Myndir frá LRO af árekstrinum verða þá örugglega birtar.

 

Eins og segir í þessari fínu frétt rekst tveggja tonna skeyti á tunglið klukkan 11:31 að íslenskum tíma. Fjórum mínútum eftir fyrri áreksturinn bíða LCROSS geimfarinu sömu örlög. Á tunglinu eru árekstrar af þessari stærðargráðu vikulegir atburðir en það sem gerir þennan árekstur spennandi er fyrirhugaður árekstrarstaður. Geimförin tvö eiga að rekast á tunglið í gígnum Cabeus þar sem vatnsís kann að leynast í jarðveginum. Bestu sjónaukum heims verður beint að árekstrinum í þeirri von að unnt verði að efnagreina það sem leynist í mekkinum.

Vert er að hafa í huga að dramatíkin í kringum áreksturinn verður ekki eins og í bíómyndunum. Mökkurinn rís upp af tunglinu í skugga. Búast má við að skugginn verði örlítið ljósari í um 30 sekúndur þegar efnið þeytist upp af tunglinu. Þrátt fyrir það verða ljósmyndirnar og gögnin án efa glæsileg og mjög áhugaverð.

Í gær var ég í viðtali við Ríkissjónvarpið um áreksturinn þar sem þessu er ágætlega lýst:

Áhugavert er að hugsa til þess að árekstrar af þessari stærðargráðu verða oftar á jörðinni en tunglinu. Nokkrum sinnum í viku falla loftsteinar á stærð við geimförin tvö inn í lofthjúp jarðar. Ástæðan er auðvitað sú að jörðin er miklu stærri og massameiri en tunglið og laðar því að sér fleiri loftsteina. Sem betur fer er jörðin með þykkan lofthjúp sem ver okkur fyrir ágangi loftsteinanna.

Hægt er að fylgjast með umfjöllun NASA um áreksturinn á netsjónvarpsrás geimstofnunarinnar.


mbl.is Tvö geimför rekast á tunglið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef dálitlar áhyggjur af þessum málum. Mér þykir það gríðarlegt ábyrgðarleysi að vera að þyrla upp grjóti þarna uppi. Hvenær má búast við að grjótinu rigni yfir okkur hér niðri? Væri nægileg vörn í því að vera með hjálm? Hver er eiginlega ábyrgur fyrir þessu?

Hjálmar (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:44

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Á vefsíðunni www.spaceweather.com er umfjöllun um áreksturinn. Fréttir þar eru uppfærðar nokkuð oft.

Ágúst H Bjarnason, 9.10.2009 kl. 09:47

3 identicon

Aðal spennan á að vera í kringum það; hvaða efnasambönd kunna að fynnast í mekkinum sem mun þyrlast upp við áreksturinn.

Hvað er búið að taka mörg jarðveg-sýni af tunglinu í gegnum tíðina og hvað skildu allar þær ferðir hafa kostað?

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:54

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Útsendingar á NASA-TV eru hafnar:

http://www.nasa.gov/multimedia/nasatv/index.html

Ágúst H Bjarnason, 9.10.2009 kl. 10:05

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Apollo tunglferðirnar kostuðu um 100 milljarða dollara, framreiknað til ársins í ár. Það er ekki ýkja mikið, sér í lagi þar sem þessum fjármunum var varið á tæpum áratug. Þessi upphæð er einn sjötti af árlegum hernaðarútgjöldum Bandaríkjanna.

Apollo tunglferðirnar lentu við miðbaug tunglsins, ekki á pólsvæðunum. Við þekkjum pólsvæðin því lítið sem ekki neitt. Á pólsvæðunum eru gígar í varanlegum skugga. Þar gæti leynst vatnsís á botninum. Ef ís er þarna í vinnanlegu magni, gætum við nýtt það fyrir geimferðir framtíðarinnar og gert þær ódýrari. Þar fyrir utan er þetta fjársjóðskista fyrir vísindamenn sem vilja vita hvaðan t.d. vatnið á jörðinni er komið. 

Það er erfitt að draga ályktun um heilan hnött eftir sýnasöfnunarleiðangra á sex staði sem allir eru keimlíkir en auðveldast var að komast að. Værum við geimferðalangar og lentum aðeins við miðbaug á jörðinni, þá hefðum við ekki hugmynd um alla þá fjölbreytni sem er á hærri breiddargráðum. Hefðum ekki hugmynd um ísinn á pólsvæðunum t.d.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.10.2009 kl. 10:31

6 identicon

Það er dýr vatns-sopinn!

Væri okkur ekki nær að huga betur að þeim vatnsbólum sem eru hér á jörðu niðri heldur en að kaupa köttinn í sekknum?

Og reyna að vinna úr þeim fjölda gagna sem tengjast geimveruheimsóknum sem hafa verið staðfestar af yfirvöldum í USA?

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 11:03

7 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ég ætla nú ekki að ræða um geimveruheimsóknir, enda hef ég ekki orðið var við neinar slíkar hingað til og ekki heyrt af neinum staðfestum tilvikum.

Sumum finnst þetta dýrt, öðrum ekki. Mér finnst þetta hræódýrt miðað við það sem við fáum í staðinn. Ómetanlega þekkingu og tækninýjungar sem bæta líf okkar hér á jörðinni. Ég veit um fullt af öðrum hlutum sem mætti spara við í staðinn fyrir geimferðir. Geimferðir eru nefnilega ótrúlega ódýrar og auka lífsgæði okkar á jörðinni með ýmsum hætti.

Ef það er hægt að spara 30.000 dollara í hverri geimferð (kostnaðurinn við að koma einum lítra af vatni út í geiminn), þá væri einmitt hægt að nota þessa 30.000 dollara í staðinn í að huga betur að vatnsbólunum á jörðinni. Væri ekki frábært að geta gert bæði?

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.10.2009 kl. 11:11

8 Smámynd: Arnar

Svekkjandi að sjá ekkert, en það var svo sem búið að vara við því.  Dimmir skuggar þarna.. ekkert ljós til að lýsa upp rykskýið.

Mér fannst ég reyndar sjá einhvern glampa hægramegin við miðju gígsins skömmu áður en seinna farið hrapaði.  Kunningi minn sem ég var að spjalla á msn sá það ekki og það var ekkert minnst á þennan glampa í útsendingunni.

Einn þulurinn minntist reyndar á það ef þeir lentu á mjög hörðum stað (klettum) þá kæmi væntanlega minna ryk.

Arnar, 9.10.2009 kl. 12:19

9 identicon

Hvað þarf til svo að þið sannfærist um líf í geimnum?

Þú segist ekki hafa orðið var við neinar geimveruheimsóknir hingað til.

Hafið þið sýnt minnsta áhuga á að leyta eftir svörum um þessi mál?

http://www.youtube.com/watch?v=UWR6WE4z20g&feature=related

Bestu kveðjur

Jón

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:43

10 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Arnar, já það var jú vonandi búið að draga eitthvað úr væntingunum. Alla vega reyndi ég það með bloggfærslunni í morgun. Væntingar mínar voru samt töluvert meiri en þetta, ég átti von á að sjá alla vega blossa og mökk en svo var því miður ekki.

Mér sýndist ég líka sjá glampa á þeim stað sem þú lýsir en eftir því sem ég kemst næst var það bara dauflega upplýst landslag, þ.e.a.s. ef þetta var það sama og þú sást.

Við bíðum bara eftir fréttamannafundinum á eftir, þá er væntanlega búið að vinna úr frumgögnunum. 

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.10.2009 kl. 12:49

11 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Jón, já við höfum mjög mikinn áhuga á lífi í geimnum. Þetta er einhvern mest spennandi viðfangsefni sem hægt er að hugsa sér. Snemma í nóvember er ég meira að segja að fara á fund um stjörnulíffræði í Svíþjóð svo það er óhætt að segja að ég hafi kynnt mér þetta mjög vel og hafi mjög mikinn áhuga. Ég mun hoppa hæð mína þegar sá dagur rennur upp þegar líf í geimnum fæst staðfest, hvort sem um yrði að ræða örverur eða vitsmunaverur sem SETI finnur. Ég er sannfærður um að líf leynist þarna úti en ég hef nákvæmlega enga trú á að geimverur séu að heimsækja okkur og hef aldrei séð sannfærandi sönnunargögn þar að lútandi. Ég þarf meira en samsæriskenningar, óljósar ljósmyndir sem auðvelt er að falsa og vitnisburð fólks sem skjátlast til að sannfærast.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.10.2009 kl. 12:53

12 identicon

Hafið þið ekki skoðað slóðirnar sem ég hef sent ykkur?

http://www.youtube.com/watch?v=qkg1HFrf1Gc&feature=related

Upplýsingar frá íslensku leyniþjónustunni.

007 (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 13:44

13 Smámynd: Arnar

Jón, það er stór munur á að 'sannfærast' varðandi líf í geimnum og svo að trúa því að geimverur ferðist miljónir ljósára til þess eins að kíkja upp í.. ja.. óæðri endan.. á fólki og beljum.

Ég er td. alveg sannfærður um að það sé líf annarstaðar en á jörðinni.  Fjöldi stjarna er einfaldlega bara það mikill að líkurnar á því að einhverstaðar sé önnur pláneta með svipuð lífsskilyrði og jörðin eru alveg þokkalegar.

Ég er hinsvegar ekki eins sannfærður um möguleikanna á 'djúp-geims' ferðalögum vegna fjarlægða og geislunar.  Geislunin á leiðinni til mars er það mikil að mannað geimfar þyrfti mjög þykka vörn, utan sólkerfisins er hún en þá meiri.

Og svo eins og 'stjörnufræðivefurinn' bendir á er spurning hvort lífið sé 'vitrænt' eða ekki.  Af öllum þeim miljónum tegunda af lífverum sem búið hafa á jörðinni síðustu ~3.8 miljarð árinn hefur aðeins ein þróað með sér 'vitsmuni'.

En, það segir kannski mikið um vitsmunina ef einhver ferðist hundruð eða miljónir ljósára aðeins til þess að fara í einhvern feluleik..

Arnar, 9.10.2009 kl. 13:45

14 identicon

"Vísindamenn hafa getið sér til að ís kunni að finnast á hinni myrku hlið tunglsins, þeirri sem ætíð snýr frá sólu. Þessar tilgátur hafa hingað til ekki fengist staðfestar."

Skv. mbl er ákveðin hlið tunglins sem snýr ætíð frá sólu. Það er rangt því þessi svokallaða dark side of the moon snýr ætíð frá jörðinni, en sólin skín jafnt á allar hliðar þess, þannig að þessi tilvitnun meikar ekkert sen.

Gummi (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 18:04

15 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Gummi, Þetta er alveg rétt hjá þér. Þeir hafa greinilega misskilið aðeins, enda ætti að standa þarna að ís gæti leynst á varanlega skyggðum svæðum á pólsvæðum tunglsins.

007, jú við höfum séð slóðirnar og skoðað myndskeiðin sem þú hefur sent okkur. Ég er heldur betur ekki sannfærður.

Arnar, þú segir eiginlega allt sem segja þarf. 

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.10.2009 kl. 18:08

16 identicon

Geimverurnar líta eflaust á okkur eins og frumbyggja sem ekki megi hrófla við.

Alveg eins og mannfræðingur frá Háskólanum myndi reyna að friða frumþyggjaþorp sem hann fyndi; fyrir skarkala heimsins.

Ef þær létu sjá sig einn daginn; hjá hverjum ættu þær að banka upp á ?

Yrðu þær ekki bara skotnar niður af NATÓ um leið og þær kæmu inn í lofthelgina?

Þess vegna eru þær að senda okkur þessi mynstur á akrana= Reyna að koma skilaboðum áleiðis.

Takið þið ekki mark á Prófessorum hjá NASA?

www.youtube.com/watch?v=YzqRmKsEq-o&feature=related

007 (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband