25.10.2009 | 22:51
Baráttan fyrir bættri lýsingu heldur áfram
Baráttan fyrir bættri lýsingu hérna í Edmonton er loksins að skila árangri! Þau Bruce og Sherriliyn sem ég vann með í stjörnustöðinni í sumar fengu um daginn tækifæri til þess að hitta borgarstjórnirnar í Edmonton og Sherwood Park (sem er grannborg Edmonton). Málflutningur fjallaði lítið um stjörnuhimininn en þeim mun meira um þann sparnað sem má ná fram með bættri lýsingu. Þau náðu þeim árangri að í framtíðinni verður sérstaklega haft í huga að vanda frágang lýsingar á nýjum byggingarsvæðum og þegar gömlum búnaði er skipt út fyrir nýjan.
Áætlað hefur verið að um 30% af orkunni sem fer til götulýsingar í Bandaríkjunum berist upp í næturhimininn. Slakur frágangur á götulýsingu hér í Edmonton bendir til þess að hlutfallið sé síst lægra en sunnan megin landamæranna. Það er því til mikils að vinna! Sem fyrr þá hef ég ekki sambærilegar tölur fyrir Reykjavík en myndir Grétars Arnar Ómarssonar frá borgarmyrkvanum í Reykjavík haustið 2006 segja þó sína sögu um orkusóunina sem viðgengst á höfuðborgarsvæðinu:
Samsett ljósmynd af Reykjavík á meðan á borgarmyrkvanum stóð 28. september 2006. Megnið af birtunni sem berst til himins er frá iðnaðar- og verslunarhúsnæði. Ljósmynd: Grétar Örn Ómarsson (Hér er slóð á myndasíðu Grétars hjá Stjörnuskoðunarfélaginu)
Samsett ljósmynd af Reykjavík eftir að kveikt hafði verið á götulýsingunni. Ljósmynd: Grétar Örn Ómarsson (Hér er slóð á myndasíðu Grétars hjá Stjörnuskoðunarfélaginu)
Það er eitt sem þau hafa hérna í Edmonton sem við höfum ekki á Íslandi (ekki enn að minnsta kosti) en það er griðasvæði fyrir náttmyrkur (e. dark sky preserve) sem sett hefur verið á fót í Elk Island þjóðgarðinum í nágrenni við Edmonton. Ég hef áður á þessu bloggi sagt frá stjörnuteiti sem er haldið árlega í garðinum til þess að fagna stofnun griðasvæðisins árið 2006. Nú hefur verið sótt um að Elk Island þjóðgarðurinn verði alþjóðlegt griðasvæði fyrir náttmyrkur (e. international dark sky reserve) þar sem fylgt er ströngum stöðlum frá Alþjóðasamtökum um náttmyrkur (International Dark Sky Association - IDA). Að þessu tilefni kom framkvæmdastjóri IDA, Peter Strasser, til Edmonton í afmælisfögnuðinn. Hann flutti þar fyrirlestur um hvernig megi ganga betur frá lýsingu og spara þannig rafmagn, bæta öryggi, minnka röskun fyrir lífríkið og endurheimta næturhimininn. Daginn áður flutti hann tvo fyrirlestra fyrir borgarstjórnina í Sherwood Park sem á land að garðinum og var gerður góður rómur að þeim. Það tekur sinn tíma að breyta viðhorfi fólks til lýsingar en hann gerði sitt til þess að sannfæra áheyrendur um að sterk lýsing sé ekki það sama og góð lýsing! Ég mun fjalla betur um þetta mikilvæga atriði við tækifæri.
Peter Strasser flytur fyrirlestur um ljósmengun fyrir borgarstjórnina í Sherwood Park. Ljósmynd: Sverrir Guðmundsson
Það er von mín að í náinni framtíð verði hægt að setja upp verndarsvæði fyrir náttmyrkur í Krísuvík þar sem eru bestu skilyrði til stjörnuskoðunar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hefur uppi áform um að reisa stjörnustöð í Krísuvík og hefur fengið vilyrði fyrir lóð við Grænavatn. Það er eitt af verkefnum næstu missera að sannfæra bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélögunum Grindavík og Ölfusi um nauðsyn þess að vernda þessa gersemi í túnfætinum. Ef menn sofna á verðinum gæti verið búið að setja upp flóðlýsingu í kringum orkuver á svæðinu eða lýsingu við þjóðvegina sem rýra gildi svæðisins til stjörnuskoðunar.
Kort af ljósmengun á suðvesturhorninu byggt á gögnum úr Google Earth forritinu. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness áformar að reisa stjörnustöð í Krísuvík. Þar er ljósmengun í lágmarki og óskert útsýni til suðurs. Mynd: Adam Thor Murtomaa
Ég held að það sé við hæfi að enda þessa bloggfærslu á mynd frá Grétari Erni Ómarssyni af stjörnuhimninum í Krísuvík. Vil einnig hvetja lesendur til þess að fara þangað á fallegu vetrarkvöldi og njóta náttúrufegurðarinnar. Við förum reglulega þangað í stjörnuskoðunarferðir og oft er sagt frá þeim á spjallsvæði Stjörnuskoðunarfélagsins: korkur.astro.is. Það er því um að gera að kíkja þangað ef veðurútlit er gott fyrir helgina!
Mynd af stjörnumerkjum á næturhimninum yfir Krísuvík. Stjarnan Vega í Hörpunni er bjarta stjarnan á efri hluta myndarinnar. Neðst á myndinni sést í samstirni sem nefnist Herðatréð. Ljósmynd: Grétar Örn Ómarsson (Hér er slóð á myndasíðu Grétars hjá Stjörnuskoðunarfélaginu)
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.