31.10.2009 | 18:08
Íslenskt stjörnukort fyrir nóvember
Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í nóvember (á íslensku að sjálfsögðu!). Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.
Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum
Margt er að sjá á næturhimninum í nóvember á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Hátt á himni er lítið en bjart stjörnumerki sem nefnist Kassíópeia. Það er auðþekkt á því að skærustu stjörnurnar raðast upp í mynstur sem lítur út eins og bókstafurinn W.
Sjöstirnið sést á austurhimni en það er án nokkurs vafa auðþekktasta stjörnuþyrpingin á næturhimninum. Það er stórt og bjart og lítur út eins og glitrandi stjörnuský. Með berum augum má sjá um 6-8 stjörnur en í handsjónauka og stjörnusjónauka koma í ljós margfalt fleiri stjörnur í þyrpingunni.
Þegar líður á kvöldið rís stjörnumerkið Óríon upp á næturhimininn. Óríon var veiðimaður í grískum goðsögum og er auðþekktur á þremur björtum stjörnum í belti hans sem oft eru nefndar Fjósakonurnar. Fyrir neðan Fjósakonurnar er sverð Óríons. Í miðju þess er Sverðþokan sem sést með berum augum og er auðvelt að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.