10.11.2009 | 14:42
Útgjöld til hersins o.fl.
Verja Bandaríkjamenn virkilega meira fjármagni til hersins en velferðarkerfisins? Ég hef oft heyrt þessu fleygt og gapað af undrun, trúað þessu, en aldrei kannað málið fyrr en ég rakst á Egil Helgason segja þetta:
Það er alveg rétt, Bandaríkin verja óskaplegum fjármunum í herinn. Á meðan er velferðarkerfið fjársvelt. Og það má ekki hækka skattana sem eru fjarska lágir á evrópskan mælikvarða.
Ég prófaði að Gúggla fjárlög bandaríska ríkisins og staka útgjaldaliði til að kanna eyðsluna. Eins og stundum áður, voru upplýsingarnar teknar saman á Wikipedia.
Árið 2009 hefur forsetinn úr 3,1 trilljón dollara að spila (eitt ljósár er 9,5 trilljónir km, hvað ætli sé langt þar til fjárlögin eru jafn há ljósári?). Þetta deilist svona niður:
- $644 milljarðar - Social Security
- $515,4 milljarðar - Varnarmálaráðuneytið
- $408 milljarðar - Medicare
- $360 milljarðar - Atvinnuleysi og velferðarbætur auk annarra bótagreiðslna
- $260 milljarðar - Vaxtagreiðslur vegna ríkisskulda
- $224 milljarðar - Medicate og State Children's Health Insurance Program
- $145,2 milljarðar - Stríðið gegn hryðjuverkum
- $70,4 milljarðar - Heilbrigðisráðuneytið
- $45,4 milljarðar - Menntamálaráðuneytið
Af þessum tölum að dæma fæ ég ekki betur séð en að Bandaríkin verji miklu hærri fjárhæðum til heilbrigðis- og velferðarmála en til hersins. Ég er á engan hátt að verja herútgjöldin með þessu, heldur einungis að benda á þetta. Það er hægt að verja hernaðarútgjöldunum á miklu betri hátt, t.d. í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og vísindi.
NASA fær ekki nema $17,6 milljarða og National Science Foundation $6,9 milljarða. Það finnst mér heldur snautlegt. Þessar tvær stofnanir eru meðal minnstu ríkisstofnanna í Bandaríkjunum. Ég yrði svangur ef ég fengi svona litla sneið af kökunni.
Til samanburðar á allri þessari eyðslu má nefna að tunglkapphlaupið kostaði ekki nema rúma $100 milljarða, sem dreift var yfir átta ára tímabil.
----
En nóg um pólitík og leiðindi. Í Vísindaþættinum í dag kemur Gísli Sigurðsson í heimsókn. Gísli er prófessor við Árnastofnun og ætlar að fræða okkur um rannsóknir sínar á Snorra-Eddu og öðrum fornbókmenntum. Fyrir skömmu hélt Gísli mjög fróðlegt erindi um það hvernig finna má lýsingar af stjörnuhimninum í þessum ritum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.