Loftsteinar splundrast gjarnan

Loftsteinar geta orðið mjög bjartir, litríkir og tilkomumiklir, þótt ekki séu þeir endilega stórir. Stundum splundrast þeir við komuna inn í lofthjúp jarðar. Lýsingin kemur heim og saman. Ég væri gjarnan til í að vita meira, t.d. litinn á glæringunum og í hvaða átt hann féll. 

Hvort loftsteinn splundrast eða ekki veltur á samsetningu hans, hraða hans þegar hann kemur inn í lofthjúpinn og undir hvaða horni. Hraðfleygur loftsteinn sem kemur inn á kröppu horni verður fyrir meira álagi og brotnar frekar upp. Loftsteinar úr járni standast betur álagið en loftsteinar úr bergi, þótt jafnvel járnsteinar geti auðvitað líka splundrast. Frægasta dæmið um loftstein (líklega brot úr halastjörnu) sem splundrast er atburðurinn í Tunguska í Síberíu árið 1908.

Mér er í fersku minni steinn sem við nokkrir félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness sáum splundrast í október í fyrra. Um hann skrifuðum við hér og tókum myndir af slóðinni sem hann skildi eftir sig.

Ef einhver brot úr þessum steini hafa ratað niður á jörðina, er harla ólíklegt að þau finnist. Loftsteinar blandast einfaldlega íslenska basaltinu svo erfitt er að greina þá frá öðru grjóti. Rétt er að taka fram að loftsteinarnir eru ekki heitir þegar falla niður til jarðar.

Hægt er að fræðast nánar um loftsteina á Stjörnufræðivefnum.

Skoðaðu stjörnurnar í kvöld!

Í kvöld, og jafnvel næstu kvöld, viðrar vel til stjörnuskoðunar. Það er fjölmargt forvitnilegt að sjá á himninum, bæði með berum augum og sjónauka. Ef þú vilt vita hvaða fyrirbæri hægt er að sjá skaltu heimsækja Stjörnufræðivefninn og prenta út stjörnukortið þar. Hver veit, kannski langar þig síðan í stjörnusjónauka til að sjá meira.

Tilkomumiklir loftsteinar eru algengari sjón en margur heldur. Prófaðu að fara út í kvöld og líta til stjarna. Kannski verður þú heppin(n) og sérð fallegt loftsteinahrap.

**Uppfært**

Í fréttinni segir nú: "Samkvæmt Almanaki Háskóla Íslands erum við að fara í gegn um loftsteinabelti. Áhrif þess eiga að vera í hámarki á þriðjudag. Viðmælendur blaðsins telja það líklegustu skýringuna."

Við erum á leið í gegnum loftsteinadrífu sem ber nafnið Leonítar, kennd við Ljónsmerkið vegna þess að geislapunktur drífunnar liggur í stjörnumerkinu. Ljónið kemur ekki upp á himinninn fyrr en eftir miðnætti og hámark drífunnar er 18. nóvember. Mér þykir því harla ólíklegt að þessi steinn tengist Leonítum.


mbl.is Loftsteinn sprakk á austurhimni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Við vorum að keyra í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi kl. 17:34 í dag. Sáum þá allt í einu ljós á norðaustur himni. Okkur fannst það ekki mjög hátt á lofti og héldum í fyrstu að þetta væri flugvél. Ljósið var gult en sveif öðruvísi heldur en flugvél. Að lokum brann það upp, eða sprakk með neistaflugi, ekki ósvipað stjörnuljósi. Við gætum hafa horft á þetta í 10 sekúndur eða svo (kannski var það styttra).

Brattur, 14.11.2009 kl. 19:25

2 identicon

Líka hægt að setja upp Stellarium (http://www.stellarium.org/)

Flott ókeypis forrit sem sýnir stjörnuhimininn.

Björn (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 19:29

3 Smámynd: Rang(is)færslur

Já við hjónin sáum þetta á austurleið frá Landvegamótum um 17:30 og þetta fór nokkurn veginn til norðurs að manni fannst, eða frá hægri til vinstri. Liturinn á glæringunum var gulur út í rautt og leit nánast út eins og eldglæringar úr rakettu sem springur ekki almennilega.

Rang(is)færslur, 14.11.2009 kl. 21:22

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hvað ætli dæmigerður svona loftsteinn eins og sást sé stór? Einhverjir sentímetrar?

Fyrir nokkrum dögum skaust nýuppgötvað 7 metra smástirni rétt fram hjá jörðu í aðeins 14.000 km fjarlægð. Til samanburðar þá eru algengir fjarskiptahnettir í  36.000 km fjarlægð.
Hefði svona stór steinn geta valdið usla hefði hann lent á jörðinni?

Sjá  http://neo.jpl.nasa.gov/news/news166.html

Small Asteroid 2009 VA Whizzes By The Earth...

Ágúst H Bjarnason, 14.11.2009 kl. 22:48

5 identicon

Komst að því eftir að ég fór að hlaupa frekar á kvöldin en morgnanna að himininn er aktívari en margan gæti grunað. Hreint ótrúlegar sýningar sem hann setur stundum á svið fyrir mann. Sá þetta því miður ekki.

Egill (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 22:57

6 identicon

Ég sá þetta í kvöld þegar ég fór út að hlaupa. Hélt fyrst að um geimskip væri að ræða sem væri að hrapa.

Brynjar (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 01:40

7 Smámynd: Arnar

Frá linknum sem Ágúst vísar á:

On average, objects the size of 2009 VA pass this close about twice per year and impact Earth about once every 5 years. 

Svona atburðir eru mun algengari en fólk heldur.

Ég missi hinsvegar alltaf af þessu, þarf greinilega að fara út að hlaupa..

Arnar, 16.11.2009 kl. 09:56

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég var í Hrunamannahreppi um hálfsexleytið þennan dag þegar ég sá bjart ljós á himni. Það þeyttist í austurátt og virtist vera á hraðri niðurleið. Fyrst þegar ég sá það var það gulleitt en sprakk síðan í þrjár einingar og varð grænt áður en það sprakk og hvarf.

Hrönn Sigurðardóttir, 16.11.2009 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband