Hamborgarinn

Ég Heart fagrar vetrarbrautir. Centaurus A er ein þeirraInLove. Þessi glæsilega mynd var tekin í nær-innrauðu ljósi með 3,6 metra breiðum sjónauka Stjörnustöðvar Evrópu á suðurhveli (ESO) í Chile. Á myndinni sést sérkennilegur hringur af stjörnum :


Centaurus A er virk vetrarbraut. Hún er að ganga í gegnum hrinu stjörnumyndunar eftir að hafa étið aðra ólánsama þyrilvetrarbraut. Í kjarna hennar er risasvarthol, 200 milljón sinnum massameira en sólin okkar og 50 sinnum massameira en svartholið sem lúrir í miðju okkar Vetrarbrautar. Hugsaðu þér að sólin yrði þjöppuð saman, 200 milljón sinnum, á svæði sem er smærra en fjarlægðin milli jarðar og sólar!

Efni fellur stöðugt inn í risasvarthol Centaurus A sem veldur því að þessi risavetrarbraut er einstaklega virk. Stjörnuhringurinn sem sést á myndinni er sennilegast leifar árekstursins, meltingatruflanir eftir ofátið sem átti sér stað fyrir aðeins hálfum milljarði ára! Fyrir augnabliki á stjarnfræðilegum mælikvarða.

Centaurus A er nágranni okkar í geimnum. Hún er í aðeins 11 milljón ljósára fjarlægð og því sérstaklega glæsileg að sjá með stjörnusjónauka. Því miður sést hún ekki frá Íslandi en fólk á suðurhveli fær að njóta hennar. Í gegnum sjónauka lítur hún út eins og hamborgari þar sem bungurnar tvær eru brauðið og rykskýin í miðjunni kjötið og osturinn. Þess vegna köllum við hana stundum hamborgaravetrarbrautina.

Þessi mynd er tekin í sýnilegu ljósi, svona eins og við myndum greina hana með berum augum. Glæsileg, ekki satt? Ætli það sé einhver þarna að horfa yfir á Vetrarbrautina okkar og velta fyrir sér hvort þar sé líf?

Með útvarpssjónaukum og röntgensjónaukum sjást strókar út frá svartholinu. Strókarnir eru úr háorkuögnum sem svartholið hraðar á næstum ljóshraða út frá sitt hvorum pólnum eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan: "ropið" eftir allt ofátið.

Nú langar mig bara í hamborgara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Minnir á nálarauga. Með geislun svartholsins minnir þetta á nálarauga með Möbíusarborða þræddum í gegn.

Stórfenglegar myndir alveg hreint.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.11.2009 kl. 11:19

2 identicon

Óneitanlega glæsilegar myndir.

þorvaldur hermannsson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband