Af stjörnum ertu komin(n), að stjörnum skaltu aftur verða

m1_krabbathokan_i_nautinu.jpgÞú ert úr stjörnuryki. Súrefnið í vatninu, kalkið í beinum, járnið í blóðinu, kolefnið í erfðaefninu, gullið í skartgripunum. Öll urðu þessi efni til þegar stjarna sprakk fyrir mörgum milljörðum ára. Jarðarbúar eru tengdir alheiminum djúpum og órjúfanlegum böndum í tíma og rúmi.

Mér finnst það stórbrotin staðhæfing. Hún er studd sönnunargögnum. Við sjáum þetta allt í kringum okkur. 

Árið 1054 sást stjarna springa í Nautsmerkinu. Það tók ljósið frá henni 6300 ár að berast til okkar sem þýðir að þegar menn urðu hennar fyrst varir hafði hún í raun verið dáin í 6300 ár. Sprengistjarnan var svo björt að hún sást að degi til og lesbjart var á næturnar. Í dag sést þarna stjörnuþoka, M1 eða Krabbaþokan, úr efnunum sem stjarnan skilaði frá sér við dauðdaga sinn.

Við sprenginguna hófst framleiðsla á öllum þeim náttúrulegu frumefnum sem finnast í alheiminum. Efnin dreifast með tímanum um víðáttur Vetrarbrautarinnar þar sem þau mynda hráefnið í nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.

Í miðju skýsins situr eftir ofurþétt stjörnuleif úr nifteindum; stjarna á stærð við höfuðborgarsvæðið sem snýst 30 sinnum á sekúndu og kallast því tifstjarna. Þú getur hlustað á tifið hér. Á hverri sekúndu gefur hún frá sér orku á við hundrað þúsund sólir. Snúningurinn er svo hraður að gríðarsterkt segulsvið myndast við hana sem lýsir upp alla þokuna. Segulsviðið hefur svo aftur þau áhrif að það hægist á snúningnum.

krabbathokan.jpg

Þessi mynd sýnir Krabbaþokuna á þremur mismunandi bylgjulengdum ljóss. Blái liturinn táknar orkuríkasta ljósið, röntgengeislun, sem Chandra sjónaukinn sér. Rauði og guli liturinn kemur frá sýnilegu ljósi sem Hubblessjónaukinn sér. Fjólublái liturinn sýnir innrautt ljós sem Spitzer sjónaukinn greinir.

Fleiri stjarna í Vetrarbrautinni okkar bíða þessi nöturlegu örlög. Ein þeirra er áberandi á kvöldhimninum þessa dagana, Betelgás í Óríon. Við ætlum að fjalla nánar um hana hér á blogginu á næstunni.

Á meðan er kjörið að fara út á kvöldin, finna Nautið og elta uppi Krabbaþokuna. Það er lítið mál með hjálp góðra korta eins á finna má á Stjörnufræðivefnum. Ef þú vilt sjá hana er reyndar nauðsynlegt að eiga góðan stjörnusjónauka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gullfallegt :)

. (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 16:22

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Frábær pistill, myndirnar skaða ekki heldur.

Merkilegt hversu mikil áhrif svona framandi form hafa á fegurðaskyn manns.

Ætli það sé einhvers staðar fólk sem fái oxytocin púls við að sjá fallegar stjörnuþokur?

Arnar Pálsson, 7.12.2009 kl. 16:37

3 identicon

Maður fær alveg netta minnimáttarkend á að spá í þetta

Jónatan Gíslason (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 17:49

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Flott hjá þér. þetta er það áþreifanlega í alheiminum. Gott að fræðast um þetta. Takk fyrir .

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.12.2009 kl. 18:22

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk kærlega fyrir það öllsömul.

Arnar, ég skal ekki segja um oxytocin en ég fæ alla vega oft gæsahúð þegar ég sé fallegar ljósmyndir af náttúrunni, hvort sem það er af fyrirbærum á jörðinni eða úti í geimnum. Svona hlutir vekja bara upp tilfinningar í mér sem er ekkert ósvipað og þegar maður hlustar á fallega tónlist, heimurinn er eitthvað svo magnaður og fallegur. Ég geymi oxytocinið fyrir aðrar (náttúrulegar) athafnir ;)

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 7.12.2009 kl. 20:02

6 identicon

Af stjörnum ertu komin,að stjörnum

skaltu aftur verða........yndisleg setning.

Óskandi að prestar hefðu hana yfir

við útfarir.

Dagný L. (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 20:45

7 identicon

Flott færsla, þenur vitundina, takk fyrir þetta !

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 22:22

8 identicon

Vel skrifað og minnir mann á hvaðan maður kemur. Takk fyrir flottar myndir og texta!

Skúli Magnússon (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 01:49

9 Smámynd: Kama Sutra

Það er eitthvað stórkostlega magnþrungið við þennan pistil og myndirnar.

Maður fyllist lotningu og kemst næstum því á geimverustigið.

Kama Sutra, 8.12.2009 kl. 02:31

10 Smámynd: Arnar

Við erum öll geimverur Kama Sutra :)

Arnar, 8.12.2009 kl. 10:51

11 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þegar maður er ekki í kreppupælinum er þetta blogg það albesta

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 8.12.2009 kl. 23:23

12 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Lífið er of stutt til að sóa því í leiðinlegt kreppuhjal. 

Ég þakka öllum fyrir góð orð um pistilinn. Og jú, við erum öll geimverur.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 8.12.2009 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband