9.12.2009 | 12:56
Ný mynd frá Hubble sýnir fjarlægustu fyrirbæri alheims
Í gær birti NASA og ESA nýja ljósmynd frá einum besta vini okkar, Hubble geimsjónaukanum. Ljósmyndin sýnir elstu, fjarlægustu og daufustu fyrirbæri sem þekkjast í alheiminum.
Hún lætur ekki mikið yfir sér hér. Þess vegna skaltu endilega sækja stærri útgáfu og svífa um meðal allra þessara vetrarbrauta. Það er vel þess virði.
Í fjörutíu og átta klukkustundir starði Hubble á svæði á himninum, sem er á stærð við blýantsodd sem haldið er í útréttri hendi, í stjörnumerkinu Ofninn. Frá jörðu séð virðist svæðið að mestu leyti tómt en samt eru yfir tíu þúsund vetrarbrautir á myndinni.
Ljósið frá heitum og ungum stjörnum í þessum fjarlægu vetrarbrautum lagði upphaflega af stað sem útfjólublátt eða sýnilegt ljós, en vegna útþenslu alheimsins hafa bylgjulengdirnar lengst og færst yfir á innrauða svið rafsegulrófsins. Þess vegna eru fjarlægustu fyrirbærin á myndinni rauðleit. Ljósið frá þessum fyrirbærum lagði af stað fyrir meira en 13 milljörðum ára! Heilum 8,5 milljörðum árum áður en sjálf jörðin varð til! 13,1 milljarði árum eftir að ljóseindirnar lögðu af stað fyrst af stað er dýrategund á jörðinni svo loksins búin að útbúa sér geimsjónauka til að nema ljóseindirnar.
Þú getur lesið aðeins meira og skoðað myndina í stærri útgáfu hér.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:58 | Facebook
Athugasemdir
Epic, I love it
Kristinn Theódórsson, 10.12.2009 kl. 00:06
Magnað!
Kama Sutra, 10.12.2009 kl. 02:18
Takk. En já þetta er magnað. Mér finnst líka áhugavert hversu margir hafa komið inn á bloggið í dag og í gær og langar að fá að vita hvaðan öll þessi umferð kemur.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 10.12.2009 kl. 13:47
Já sannarlega er þetta magnað
Þér finnst áhugavert hvað mikil umferð er á síðunni, ég er hissa á því að hún skuli ekki vera mikið meiri alla daga því Þetta er flott síða sem, allavega ég, fæ mikinn og kærkominn fróðleik af.
Takk fyrir mig
Þórólfur Ingvarsson, 10.12.2009 kl. 16:41
Þetta eru allt frábærar myndir,en er ekki hægt að setja ljósárastiku á hverja mynd?þannig að maður geri sér betur grein fyrir þessum óravíddum himingeimsins.kv
þorvaldur hermannsson (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.