Furðufréttir vikunnar

Í gær birtust tvær furðulegustu fréttir vikunnar á DV.is:

Þetta eru einhverjar skringilegustu og um leið sorglegustu fréttir sem ég hef lesið í langan tíma. Þessar ágætu konur virðast einlægar í trú sinni, en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er engin reikistjarna til sem heitir Vúlkan...  nema auðvitað í Star Trek þaðan sem Mr. Spock á rætur að rekja... svo frétti ég líka af bæ í Kanada sem heitir Vúlkan, það er sennilega ekki það sem átt er við.

Mér finnst sorglegt að þessar konur trúi þessu en verst er þó að fólk í kringum þær virðist taka undir þessar hugrenningar þeirra, í stað þess að benda þeim á að þetta sé nú kannski ekki alveg raunveruleikinn. Reyndar sýnist mér það ekki skipta neinu máli hvort sem er. Seinni konan leitaði til stjörnufræðings við HÍ sem sagði henni að Vúlkan væri ekki til. Hún trúði honum samt ekki. 

Væri reikistjarna á bak við sólina, sem við sæjum aldrei (sem gengur ekki upp), gætum við engu að síður fundið hana. Allir hnettir sólkerfisins, sér í lagi stórar reikistjörnur, sveigja brautir halastjarna og smástirna vegna þyngdaráhrifa sinna. Þetta gætum við hæglega mælt með því að fylgjast með brautum slíkra hnatta sem ferðast aftur fyrir sólina. Engin slík áhrif hafa nokkru sinni mælst.

Ætli ég kæmist í fjölmiðla með því að segjast koma frá Gliese 581c? Mín reikistjarna er í það minnsta ekki hugarburður. Ég veit að þessar tvær fréttir voru sennilega skrifaðar til að gera grín að konunum, en mér finnst þetta ekkert sérstaklega fyndið.

----

Önnur töluvert skemmtilegri furðufrétt barst frá Noregi í gær. Svakalega flottar ljósmyndir sýndu þyrillaga ský á himni yfir Noregi. Svo virðist sem þetta tilkomumikla sjónarspil hafi myndast af völdum eldflaugaskots sem fór úrskeiðis. 

Glæsilegt ekki satt? Á myndskeiðum sést þyrillinn hreyfast. En hvað var þetta?

Hér er að öllum líkindum um stjórnlausa eldflaug að ræða. Við höfum svipað eiga sér stað áður við misheppnuð geimskot, en aldrei jafn tignarlegt og í þetta skipti. Eldflaugin snýst stjórnlaust í hringi svo það myndast samskonar mynstur við sjáum stundum í vindrellum. Þegar eldflaugaeldsneytið er uppurið myndast dökk geil í miðjunn sem síðan vex út á við. Blái strókurinn sem vindur sig upp á við bendir líka til að eitthvað hafi mistekist snemma í geimskotinu.

Þegar tölvulíkön eru gerð af stjórnlausri eldflaug birtist nákvæmlega sama mynstur:

Það hefði verið einstaklega gaman að verða vitni að þessu. 

Jafnvel þótt staðfest verði að um misheppnað geimskot hafi verið að ræða, þá skiptir það engu fyrir þá sem trúa staðfastlega á geimveruheimsóknir.

Live long and prosper.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þetta er svipað og þegar prikið dettur af rakettu - svo notuð sé samlíking sem margir þekkja...

Haraldur Rafn Ingvason, 10.12.2009 kl. 19:30

2 identicon

Já og Vulkan... það eru til gamlar úreltar vangaveltur um Vulkan og þær pælingar duttu inn í einhverskonar dulspekipælingar... alltaf erfitt að henda frá sér einhverju sem mönnum langar að trúa :) 

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband