Eldtungur Logaþokunnar

vista.jpg Nú í desember vígði Stjörnustöð Evrópu á suðurhveli (ESO) nýjan sjónauka í Paranal í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile. Aðstæður þar til stjörnuathugana eru meðal hinna bestu í heiminum. Það skildi því engan undra að stjörnufræðingar reisi þar stærstu stjörnusjónauka jarðar.

Umræddur sjónauki nefnist VISTA sem stendur fyrir Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy. Líkt og nafnið bendir til er sjónaukanum ætlað að kortleggja himinninn í innrauðu ljósi. Spegill hans er 4,1 metrar og svo nákvæmlega slípaður að minnstu ójöfnur á honum eru aðeins nokkrir þúsundustu hlutar af breidd mannshárs! VISTA er stærsti sjónauki sinnar tegundar í heiminum.

Myndavél sjónaukans er engin smásmíði heldur. Hún vegur þrjú tonn og er útbúin sextán innrauðum ljósnemum sem saman mynda eina 67 megapixla myndavél. Sjónsvið sjónaukans er sérstaklega vítt og þekur ein ljósmynd frá honum tífalt stærra svæði á himninum en fullt tungl.

VISTA gerir einkum athuganir á innrauðu ljósi, þ.e. rafsegulgeislun með lengri bylgjulengd en við sjáum með berum augum. Þannig getur sjónaukinn séð fyrirbæri sem falin eru á bak við þykk rykský í Vetrarbrautinni okkar eða ljós frá heitum og ungum stjörnum í fjarlægum vetrarbrautum, sem upphaflega lagði af stað sem útfjólublátt eða sýnilegt ljós, en hefur, vegna útþenslu alheimsins, færst yfir á innrauða svið rafsegulrófsins.

Í desember birtist fyrsta myndin frá VISTA og er hún sérstaklega glæsileg. Á henni sést stjörnumyndunarsvæði í stjörnumerkinu Óríon sem kallast Logaþokan (NGC 2024). Í sýnilegu ljósi er þetta svæði þakið þykku ógegnsæju rykskýi. VISTA tekst að svipta hulunni af rykslæðunum og sýnir fjölda þyrpinga heitra og ungra stjarna innan skýsins. Skammt sunnan við eldtungur Logaþokunnar er endurskinsþokan NGC 2023 og þar undir glittir í Riddaraþokuna frægu.

logathokan_orion.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Glæsileg mynd,mér finst vanta að það sé sett ljósárastika á svona myndir svo að maður geri sér betur grein fyrir umfángi þessara fyribæra.kv

þorvaldur Hermannsson, 14.12.2009 kl. 17:23

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Stóra þokan efst á myndinni, sjálf Logaþokan, er um 7 ljósár á breidd.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.12.2009 kl. 17:31

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Zwaðalega flott mynd !

Steingrímur Helgason, 15.12.2009 kl. 23:30

4 identicon

Mjög flott mynd.  En mig langaði að vita hvort þið hafið skoðað forritið Clelestia ?. Skemmtilegt forrit sem vert er að skoða.

Kveðja  Árni

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 15.12.2009 kl. 23:53

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, við höfum skoðað Celestia. Það er mjög fínt. Sverrir Guðmundsson hefur stundum notað það til að útbúa kort fyrir Stjörnufræðivefinn, held ég alveg örugglega.

Ég er annars með fyrirhugaða grein um ókeypis stjörnufræðihugbúnað sem kemur inn á Stjörnufræðivefinn einhvern tímann eftir áramót. 

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 16.12.2009 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband