23.12.2009 | 12:06
Tarantúluþokan óskar þér gleðilegra jóla
Stjörnufræðivefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. Meðfylgjandi er nýleg ljósmynd sem Hubblessjónaukinn tók af jólalegri stjörnuþoku í Stóra Magellanskýinu.
Á þessari fallegu jólaljósmynd sjást hundruð blárra stjarna innan í glóandi gasskýi. Þessi stóra stjörnuþyrping nefnist R136 og er að finna Tarantúluþokunni (30 Doradus eða NGC 2070) í Stóra Magellanskýinu, sem er lítil fylgivetrarbraut við Vetrarbrautina okkar. Hún er mjög ung, aðeins nokkurra milljón ára gömul. Tarantúluþokan er stærsta stjörnumyndunarsvæði sem menn þekkja og eru margar stjörnurnar, sem þar er að finna, meðal hinna massamestu sem vitað er um. Nokkrar eru meira en 100 sinnum massameiri en sólin okkar. Svo stórar sólir enda ævi sína sem sprengistjörnur eftir fáeinar ármilljónir.
Hubble tók myndina með nýju Wide Field Camera 3 myndavélinni milli 20. og 27. október 2009. Hér er blandað saman útfjólubláu, sýnilegu og innrauðu ljósi. Blái liturinn stafar af heitustu og orkuríkustu stjörnunum, græni liturinn frá glóandi súrefni en rauði liturinn frá vetni. Myndin þekur 100 ljósára breitt svæði.
Þessi pistill birtist upphaflega á Stjörnufræðivefnum.
Gleðilega hátíð!
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Óska þeim sem standa að stjörnufræðivefnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs, þakka fyrir mig á árinu sem er að líða. Kíki alltaf reglulega hingað inn til ykkar og hef alltaf gagn og gaman af. Gleðilega hátíð
Ása (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 12:42
Gleðileg jól drengir. Hlakka til að lesa meiri fróðleik á næsta ári frá ykkur.
kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 24.12.2009 kl. 00:01
Takk fyrir mig og gleðileg jól.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.