2.1.2010 | 15:39
Árið 2009...
... var ekki ár kreppu eða Icesave leiðinda. Árið 2009 var alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar og ár Darwins og þróunarkenningarinnar. Er strax farinn að sakna þess. Við gerðum fjölmargt á síðustu tólf mánuðum. Við gáfum út veglegt tímarit (af hverju ertu ekki búin(n) að eignast það?), stóðum fyrir fyrirlestraröð og héldum ljósmyndasýningu.
Líffræðingarnir stóðu sig líka vel.
Ekki sér enn fyrir endann á öllu saman. Það besta er handan við hornið. Á vormánuðum munu allir grunn- og framhaldsskólar landsins fá stjörnusjónauka að gjöf frá okkur sem stóðum að stjörnufræðiárinu hér á landi. Við munum skýra betur frá því síðar.
Stjörnufræðivefurinn er bjartsýnn fyrir komandi ár. Við ætlum að fylgja eftir velheppnuðu stjörnufræðiári með krafti. Við munum halda áfram að flytja ykkur fréttir og sýna ykkur gullfallegar ljósmyndir af undrum alheimsins. Við munum standa fyrir námskeiðum í stjörnufræði og stjörnuskoðun. Við munum heimsækja skóla og kenna kennurum og nemendum. Við ætlum að halda áfram að efla vefinn og kynna nýjungar til sögunnar.
Þú ættir endilega að slást í hóp með okkur!
Jörðin næst sólu
Í dag er jörðin næst sólu á braut sinni. Þá í aðeins um 147 milljón km fjarlægð. Þann 6. júlí verður jörðin fjærst sólinni, þá í um 152 milljón km fjarlægð. Munurinn er sáralítill, aðeins 5 milljón km, svo þetta hefur ekki mikil áhrif á hitastigið á jörðinni. Þessi breyting er ekki ástæðan fyrir árstíðaskiptum eins og margir halda.
Mynd fengin héðan.
Sem betur fer er sólin í öruggri fjarlægð frá okkur. Ef þú ætlaðir að fljúga þangað með venjulegri farþegaþotu tæki flugferðin hátt í 30 ár!
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.