Stjörnukort fyrir Ísland í janúar

Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í janúar (á íslensku að sjálfsögðu!). Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.

Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum

Annars er margt að sjá á næturhimninum í byrjun nýs árs. Veiðimaðurinn Óríon fer fremstur í flokki stjörnumerkjanna en hann er auðþekktur á stjörnunum í beltinu sem eru yfirleitt nefndar Fjósakonurnar. Fyrir neðan Fjósakonurnar er sverð Óríons. Í miðju þess er Sverðþokan sem sést með berum augum og er auðvelt að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka. Sverðþokan er í raun risavaxin stjörnuverksmiðja og hefur Hubblessjónaukinn náð myndum af sólkerfum sem eru að fæðast inni í miðri þokunni.

Óríon 

Reikistjarnan Mars er áberandi á austurhimni þegar líður á kvöld í janúarmánuði og upp úr miðnætti rís Satúrnus upp á himininn með hringa sína sem sjást í litlum stjörnusjónauka.

Meðal annarra viðburða í mánuðinum má nefna loftsteinadrífuna Kvaðrantíta en geislapunktur hennar er efst í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (sést á kortinu sem hægt er að ná í hér fyrir neðan). Þeir ættu að sjást síðdegis þann 3. janúar í norðvestri ef skyggni er gott. Best er að fara út fyrir mestu ljósmengungarsvæðin til þess að njóta þeirra. Erfitt er að spá fyrir fram um fjölda stjörnuhrapa en þau gætu verið á bilinu 20 til 100 á klukkustund við hámarkið í kringum kl. 19.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband