Hvað ætlar NASA að tilkynna?

Við blogguðum um málið í gær. Best ég birti bara færsluna aftur hér undir:

Fyrir tveimur dögum barst mér þessi tilkynning frá NASA. Hún vakti að sjálfsögðu forvitni mína, enda orðuð þannig að um sé að ræða nokkuð merkilega uppgötvun í stjörnulíffræði (íslenska orðið yfir astrobiology) „sem á eftir að hafa áhrif á leit að vísbendingum um líf utan jarðar“. Sama dag verður rannsóknin birt í tímaritinu Science. Nú þegar hafa að minnsta kosti tveiríslenskir vefmiðlar birt frétt þar sem sagt er frá fundinum og kynnt undir vangaveltur sem eiga kannski ekki alveg við rök að styðjast.

Ég hef ekki hugmynd um hverju skýrt verður frá á morgun klukkan 19 að íslenskum tíma. Miðað við þá vísindamenn sem taka þátt í fundinum býst ég við því að það hafi eitthvað að gera með lífvænlegar aðstæður á hnetti í sólkerfinu okkar og lífræn efnasambönd. Ég ætla þess vegna að skjóta á að fundist hafi merkileg lífræn efnasambönd í lofthjúpi Títans, fylgitungli Satúrnusar, án þess að ég hafi nokkuð sérstakt fyrir mér í því. Kannski hefur þetta eitthvað að gera með hlutverk arseniks og/eða fosfórs í lífi utan jarðar. 

Eitt þykir mér nokkuð ljóst og það er að ekki verður tilkynnt um að líf hafi uppgötvast utan jarðar. Það má einfaldlega lesa út úr tilkynningunni. Því miður hafa margir túlkað tilkynninguna sem svo að greint verðir frá sönnunargögnum um líf utan jarðar. En vonandi hef ég rangt fyrir mér!

Ég er hræddur um að með þessari tilkynningu hafi blaðafulltrúar NASA skapað óþarfa spennu og vangaveltur meðal almennings. Ekki misskilja mig, ég efast ekki um að fréttin verður vísindalega mjög merkileg, en ég er hræddur um að fréttin valdi fólki, sem á von á einhverju stórkostlegu eins og sönnunum fyrir lífi í alheimi, dálitlum vonbrigðum.

Hvað svo sem verður ætla ég að fylgjast vel með fundinum á morgun, en leyfi mér að efast um að eitthvað stórbrotið líti dagsins ljós, því „stórbrotnar staðhæfingar krefjast stórbrotinna sönnunargagna“ eins og Carl Sagan orðaði það.

Uppfært 2. desember kl. 11:30

Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum hefur þessi tilkynning með hlutverk arseniks í lífi að gera. Það ku vera býsna spennandi því það snertir uppruna lífs á jörðinni og annars staðar í alheiminum. Þetta hefur þá þýðingu að líf gæti verið miklu algengara en okkur hafði áður órað fyrir. Líf eins og við þekkjum það endurskilgreint! Spennandi!

Þetta hlýtur að tengjast þessari grein hér. Þessi grein fjallar um lífefnafræði arseniks og hvaða ályktanir má draga af því fyrir uppruna lífs á jörðinni. Líf gæti hafa kviknað oftar en einu sinni á jörðinni og það hefur vitaskuld áhrif á uppruna lífs annars staðar í alheiminum.

Viðbót kl. 14:00

Í athugasemd við fyrra blogg var bent á að þetta tengdist Monovatni í Kaliforníu. Um árabil hefur einn vísindamannanna, Dr. Felisa Wolfe-Simon, rannsakað vatnið í leit að lífverum sem nota arsenik úr vatninu fyrir efnaskipti. Monovatn er gífurlega salt og inniheldur einni lítri vatnsins um 70 grömm salts. Til samanburðar má nefna að í höfum jarðar eru um 31,5 grömm af salti í hverjum lítra.

Í okkur og öllum öðrum lífverum sem við þekkjum er fosfór lykilefni og myndar t.d. hryggjarsúluna í DNA (líffræðingar, endilega leiðréttið mig ef þetta er rangt). Auk fosfórs reiða öll þekkt lífsform á jörðinni sig á aðra sameind sem kallast ATP eða adenósín þrífosfat. ATP er lífrænt efnasamband sem geymir í sér mikla orku og er því nokkurs konar lífræn rafhlaða ef svo má segja.

Arsenik er beint undir fosfóri í lotukerfinu svo þessi efni hafa svipaða efniseiginleika, þótt efnafræði þeirra sé of ólík til þess að arsenik geti leyst fosfór af hólmi í lífverum. Arsenik er því eitrað en arsenik og fosfór eru nógu lík til þess að lífverur reyni að taka það upp í staðinn.

Það er þess vegna mjög spennandi að finna lífverur í arsenikríku umhverf. Ef þessar lífverur nota arsenat í stað fosfats sýnir það að til eru önnur lífsform, ólik þeim sem við þekkjum, þ.e.a.s. ólíkt lífi eins og við þekkjum það.

Líf hefur þá væntanlega orðið til á jörðinni oftar en einu sinni, jafnvel mörgum sinnum. Arsenik lífið er því líklega ekki af sama meiði og við þótt þær deili sama hýbýli í geimnum.

Það er því stórmerkilegt og bendir til þess að líf gæti verið miklu algengara en við teljum. 

(ATH! Þarna hætti ég mér inn á svið lífefnafræði sem ég er enginn sérfræðingur í. Takið þessu sem ég skrifa því með þeim fyrirvara. Auk þess eru þetta bara vangaveltur enn sem komið er.)

===

Í dag greindi ESO frá merkilegri uppgötvun. Í fyrsta sinn hafa vísindamenn skyggnst inn í lofthjúp risajarðar. Sjá nánar hérhttp://www.eso.org/public/iceland/news/eso1047/

- Sævar

 


mbl.is Ný stjarnlíffræðileg uppgötvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Eru þetta þá ekki svoldið 'old news', þar er amk. töluvert langt síðan (2-3 ár) ég las greinar um að fyrstu lífverur jarðarinnar hafi líklega verið arsenik-based.

Arnar, 2.12.2010 kl. 13:52

2 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Skemmtileg pæling í greininni. Það sem mér hefur alltaf þótt vankantur á pælingum um líf  á öðrum hnöttum er að það hljóti að byggjast á og vera háð sömu ferlum aðstæðum og það sem við þekkjum hér í dag.

Haraldur Rafn Ingvason, 2.12.2010 kl. 13:56

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Mjög spennandi, ágripið sem þið vísuðuð á er mjög forvitnilegt.

Annars leiðist mér fréttamannafundargleði NASA, það er eins og þeir séu of mikið að minna á eigið mikilvægi...auðvitað er það bara nöldur, því þeir hafa gert margt sniðugt.

Það verður gaman að sjá vísindagreinina, vonandi gerið þið henni ítarleg skil á stjörnfræðivefnum. 

Arnar Pálsson, 2.12.2010 kl. 14:15

4 identicon

Þetta er fín samantekt hjá þér Sævar.

Ég er aðeins búinn að skoða þetta seinustu klukkutíma en ég er s.k. ólífrænn lífefnafræðingur. Það hafa sem sagt áður fundist lífverur sem þola arsenik og líka lífverur sem hafa þróað ensím til að brjóta arsensambönd niður.

Greinin frá 2008 sem þú vísar á er með spekúlasjónir um hvort að eldgamlar lífverur (jafnvel jafn gamlar lífinu sjálfu) gætu hafa þróast sem notast við arsen sambönd í stað fosfór-sambanda í lífefnaferlum sínum.

Og þetta vekur jafnvel upp spurninguna hvort að DNA með arsenbeinagrind gæti verið til (þ.e. bæði til og notað af lífverum).

Felisa Wolfe-Simon virðist vera vísindamaðurinn á bak við þessa uppgötvun: http://www.ironlisa.com

en hún er búinn að vera skoða þetta vatn í Kaliforníu.

Og Paul Davies, þekktur eðlisfræðingur og vísindarithöfundur er annar höfundur á International Journal of Astrobiology greininni og er búinn að vera með svona spekúlasjónir lengi.

Ágætis gömul BBC umfjöllun:

http://www.ironlisa.com/bbc_world_report.mp3

Þetta er spennandi en við verðum að bíða og sjá hvað verður kynnt nákvæmlega. Það þarf ansi góð sönnunargögn til að sýna fram á fullyrðinguna að þetta sé annars konar lífsform, frekar en bara gamall leggur baktería sem hefur þróast í aðra átt en annað líf.

Ragnar (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 14:41

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Arnar Pálsson: Þeir þurfa auðvitað að minna dálítið á eigið ágæti og ber reyndar skylda til sem ríkisstofnun. Mér finnst þeir hins vegar þurfa að orða fréttatilkynningarnar sínar aðeins betur, að minnsta kosti þessa, til að draga úr væntingum.

Ragnar: Takk fyrir það. Þú ert mér náttúrulega miklu fróðari um þessa hluti svo það er flott að fá þetta frá þér. Tek auðvitað undir með þér að það þurfi mjög góð sönnunargögn til að styðja annað lífsform. Við sjáum hvað setur.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 2.12.2010 kl. 14:59

6 identicon

Þú ert heimskur. NASA eru fávitar, en mér finnst svo sem ekkert ótrúlegt við þessa 'uppgötvun'. Vissi að þessu. ;)

Ad (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 15:21

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Stjarna.

Veit ekki alveg hvort að það eigi að vera stefna ríkisstofnanna að réttlæta eigin tilvist. Ríkisstofnanir eiga að geta horfið, þegar þörfin fyrir þær eru uppfyllt.

Hlutverk NASA var ekki endilega fræðilegt í upphafi, heldur öðrum þræði pólitískt eða hernaðarlegt. Þeir hafa farið að spá í líffræðilegum spurningum síðustu áratugi, allt frá því James Lovelock var að spá í aðferðum til að meta hvort líf væri í jarðveginum á Mars. Ég held að Bandaríkjamenn ættu að halda í NASA, en það má vel vera að það sé hægt að endurhanna þessa stofnun.

Allavega - varðandi þennan fund þá má segja að eftirvæntingarnar eru nægar. Vonandi standa þeir undir þeim.

Ég ætla samt ekki að taka mér frí frá því að semja spurningar fyrir erfðafræðiprófið til að fylgjast með. Treysti á að þig gerið þessi sæmileg skil ;)

Arnar Pálsson, 2.12.2010 kl. 15:24

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Leiðrétting:

Treysti á að þið gerið þessi sæmileg skil ;)

Arnar Pálsson, 2.12.2010 kl. 15:25

9 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Arnar: Jamm, það sem ég kannski á við að þar sem þeir eyða skattpeningum bandarískra skattgreiðenda ber þeim skylda til að láta vita í hvað peningarnir fara. Alltaf þegar ráðist er í nýjan leiðangur út í sólkerfið er 1-2% af heildarkostnaði verkefnisins eyrnamerktur "education and outreach". Þeim ber auðvitað ekki skylda til að réttlæta eigin tilvist.

Við munum að sjálfsögðu gera þessu skil jafnvel þótt ég eigi að vera að læra fyrir stærðfræðiprófið á morgun! Sjitt, hvað þið kennararnir í HÍ þurfið alltaf að hafa próf á óheppilegum tíma ;)

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 2.12.2010 kl. 15:35

11 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Mun líta hér við strax að loknu vinnustaðarjólasnarlinu 

Haraldur Rafn Ingvason, 2.12.2010 kl. 16:11

12 Smámynd: Arnar

"Life as we know it" er náttúrulega svakalega takmarkandi þáttur, frekar hæpið að finna svoleiðis nema við nákvæmlega sömu eða mjög svipaðar aðstæður og á jörðinni.

Svona eins og að leita af polli sem passar í ákveðna holu.

Hinsvegar er það mjög spennandi ef þeir eru búnir að finna líf á jörðu sem er ekki 'samstofna' "Life as we know it".  Það þýðir væntanlega að myndun lífs á jörðinni var ekki einstakur atburður.. svona á alheims vísu.

Arnar, 2.12.2010 kl. 16:24

13 Smámynd: Arnar Pálsson

Sammála, það væri mjög spennandi ef þeir hafa undið lífsform sem notar arsenik í stað fosfórs. Ennþá ómögulegt að vita hvort það sé samstofna eða ekki, nema auðvitað fyrir Járn-Lísu (www.ironlisa.com).

Las kaflann hans Guðmundar Eggertssonar um uppruna lífsins í Arfleifð Darwins með hraði og skimaði heimildaskránna hans að Leitinni að uppruna lífs, en fann engar umræðu um arsenik eða vísanir í Felise Wolfe-Simon.

Arnar Pálsson, 2.12.2010 kl. 17:22

14 identicon

Ég er nokkuð viss um að þeir muni kynna forseta geimþjóðasambandinu sem er staðsett í Sagittarius fylkingunni. 

Ég held að fyrsta spurningin hjá mankininu verða "afhverju voru þið að senda geimverur til okkar til að taka okkur og a***proba okkur?". Við höfum Jónínu Ben til að gera það!.

EkkiGeimfróður (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 17:58

15 identicon

En svona án gríns, þá held ég að þetta verði tiltölulega spennandi. amk sjáum við hvað þeir segja.

Ps. flott grein hjá þér.

EkkiGeimfróður (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 18:01

16 identicon

Jæja, þetta er að skýrast.

Bakterían, GFAJ-1, sem var einangruð úr vatninu (þar sem finna má bæði fosfat og arsenat ) virðist geta fjölgað sér á labbi þegar henni er bara gefið arsenat en ekki fosfat (eitthvað af upprunalega fosfatnui verður samt alltaf til staðar í ræktinni). Bakterían tekur upp mjög mikið af arsenati þegar henni er gefið það, en er samt hrifnari af fosfati (fjölgar sér hraðar).

Masagreiningar og spektróskópíugögn virðast benda til þess að fosfatið sem tekið er upp, endi á ýmsum stöðum í frumunni, þar á meðal (að virðist) í DNA-strengnum.

Ef þetta reynist rétt, og þá sérstaklega ef það er hægt að sannreyna að DNA-ið sé úr arsenati í stað fosfats er það rosaleg uppgötvun því allt annað líf á Jörðinni sem nokkurn tímann hefur fundist hefur notast við sama gamla DNA. Bendir til þess að Lífið sé fjölbreytilegra en við héldum og eykur þannig séð líkurnar á því að það væri hægt að finna líf utan Jarðarinnar einhvern tímann.

Mér sýnist gögnin ekki benda til þess að það sé hægt að segja mikið um aldur bakteríanna (þ.e. hvort þetta sé fjarskylt öllu öðru lífi á Jörðinni).

En þetta er mjög merkilegt. Mér hefði aldrei dottið í hug að maður ætti eftir að sjá lífveru með DNA úr svona framandi frumefni.

http://www.space.com/scienceastronomy/arsenic-bacteria-alien-life-101202.html

http://arstechnica.com/science/news/2010/12/bacteria-can-integrate-arsenic-into-its-dna-and-proteins.ars

http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-11886943

Ragnar (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband