Júpíter og Venus eiga stefnumót

Undanfarnar vikur hafa reikistjörnurnar Venus og Júpíter skinið skært á kvöldhimninum í vestri. Venus hefur smám saman verið að hækka á lofti á meðan Júpíter lækkar þegar hann nálgast sólina.

Og nú eru þau um það bil að eiga stefnumót svo að úr verður fallegt sjónarspil sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Venus er enda næst bjartasta fyrirbæri stjörnuhiminsins og Júpíter þriðja bjartasta. Aðeins tunglið er bjartara.

Milli 9. og 17. mars skilja aðeins fimm gráður reikistjörnurnar að. Þær falla þess vegna vel inn í sjónsvið dæmigerðs handsjónauka. Hámarkinu er náð 13. mars þegar aðeins 3 gráður skilja milli þeirra.

stj1203d.jpg

Nú er gullið tækifæri til að skoða tvíeykið í gegnum handsjónauka. Ef þú heldur honum stöðugum geturðu komið auga á Galíleótunglin fjögur, svo framarlega að þau séu ekki of nærri reikistjörnunni á þeim tíma. Þú sérð líka skífu Venusar nokkuð vel og tekur eftir því að rétt rúmur helmingur hennar er upplýstur (60%).

Eftir þessa samstöðu hverfur Júpíter smám saman af kvöldhimninum. Um miðjan apríl er orðið erfitt að koma auga á hann í birtu sólar. Á hinn bóginn kemst Venus hærra á loft og verður skærari uns hámarkinu er náð í apríl. Þá verður hún glæsileg minnkandi sigð að sjá í gegnum stjörnusjónauka. Eftir það nálgast hún sólina á ný og hverfur í birtu hennar.

En 5.-6. júní verður einstakur stjarnfræðilegur atburður þegar Venus er mitt á milli jarðar og sólar og gengur fyrir sólina frá okkur séð. Þverganga Venusar sést frá Íslandi öllu en Reykjavík er eina borgin í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfir. Nánar um það síðar.

Næst verða reikistjörnurnar tvær álíka nálægt hvor annarri á himninum við sólsetur seint í maí árið 2013. Hægt verður að koma auga á þær yfir dimmasta tíma sólarhringsins, sem er reyndar ekkert sérstaklega dimmur þetta leyti ársins.

Venus og Júpíter munu ekki sjást aftur saman á myrkvuðum himni fyrr en í júní 2015. Þá verður reyndar of bjart á Íslandi til að það sjáist en fólk annars staðar á hnettinum fær að njóta þess. Sú samstaða verður hins vegar mögnuð því hægt verður að skoða báðar reikistjörnurnar í stjörnusjónauka við mikla stækkun.

Grípið tækifærið nú til að skoða þessar björtustu reikistjörnur himins. Allir út að kíkja!

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GunniS

þetta minnir mig á, eða - er það mögulegt að það komi upp sú staða að allar stjörnunrar í sólkerfinu myndi beina línu ?  og ef það er möguleiki. er hægt að reikna út hvenær sú staða kemur upp ?

GunniS, 10.3.2012 kl. 17:35

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Prentvilla er í textanum að ofan þar sem rætt er um væntanlega þvergöngu Venusar - þar stendur júlí - en á að vera júní. Júní er auðvitað réttur á síðunni sem tengillinn vísar til.

Trausti Jónsson, 10.3.2012 kl. 23:59

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

GunniS: Það er mögulegt en sólkerfinu endist ekki aldur til þess. Ég sá nú einhvers staðar útreikninga á þessu og það þyrftu að líða hátt í hundrað milljarðar ára til þess að það gæti gerst.

Trausti: Takk! Ég er búinn að lagafæra þetta.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 11.3.2012 kl. 14:04

4 identicon

Er ástæðan fyrir að þær eru bjartari vegna þess að þær eru báðar nær jörðu á sama tíma, sem sagt ekki bara vegna þess að þær eru í beinni línu næstum?

Sigfús (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 08:58

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Sigfús: Þær eru fyrst og fremst bjartar vegna þess að þær eru annars vegar nálægt okkur (Venus í um 120 milljón km fjarlægð og nálgast okkur) og stórar (Júpíter er langstærsta reikistjarnan en er í yfir 800 milljón km fjarlægð þegar við horfum á hann þessa dagana).

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.3.2012 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband