5.10.2009 | 10:53
Hversu stór?
Loftsteinar sem þessir eru venjulega frekar litlir. Ætli þessi steinn, sem sást í gærkvöldi, hafi ekki verið einhvers staðar á milli þess að vera á stærð við vínber og tennisbolta, sem sagt tiltölulega lítill. Loftsteinarnir geta orðið mjög bjartir, en þeir eru sjaldnast mjög stórir. Stærri loftsteinar yrðu miklu bjartari.
Daglega falla um 300 tonn af efni úr geimnum í gegnum lofthjúp jarðar. Mest af þessu er afar smásætt ryk sem enginn tekur eftir. Aðeins stærstu steinarnir ná alla leið niður til jarðar en sem betur fer eru þeir örfáir.
Til eru mörg dæmi um að loftsteinar hafi náð til jarðar. Í október 1992 sást eldhnöttur á himni yfir Peekskill í New York sem brotnaði í nokkra hluta og féll til jarðar. Eitt brotið rakst á skottið á bíl konu. Konan heyrði hljóð sem minnti á árekstur og hljóp út. Þá sá hún hvar tólf kg þungur loftsteinn lá við hliðina á bílnum hennar sem varð fyrir talsverðum skemmdum. Tryggingarnar bæta ekki tjón af völdum loftsteina svo aumingja konan sat uppi með kostnaðinn. Fljótlega voru henni þó boðnir nokkur þúsund dollarar fyrir loftsteininn og bílinn sem nú er sýningargripur.
Ef loftsteinar eru svona smáir, hvers vegna verða þeir þá svona bjartir?
Þótt loftsteinarnir séu smáir geta þeir orðið mjög bjartir og sést í hundruð km fjarlægð. Ástæðan er fyrst og fremst hraði steinanna. Rétt áður en þeir koma inn í lofthjúpinn eru þeir á um 70 km hraða á sekúndu. Á þeim hraða færu þeir umhverfis jörðina á tæpum fjórum mínútum!
Steinninn var grænblár, hvað segir það okkur?
Sú staðreynd að bjarminn var grænblár segir okkur ýmislegt til um úr hvaða efnum steinninn er. Grænbláan bjarma má rekja til málma í steininum, t.d. magnesíums.
Hvers vegna lýsa loftsteinar?
Í grein Stjörnufræðivefsins um loftsteina er eftirfarandi skýring á því hvers vegna loftsteinar lýsa þegar þeir falla í gegnum lofthjúpinn:
Þvert á það sem margir telja, er það ekki núningurinn við lofthjúpinn sem hitar hrapsteinana. Þegar þeir ferðast í gegnum lofthjúpinn á um 15 km hraða á sekúndu þéttist loftið fyrir framan þá. Þegar gas þéttist hitnar það, líkt og margir hafa fundið þegar hjólapumpa hitnar við notkun. Það er svo þetta þétta loft sem hitar sjálfan hrapsteininn svo að hann lýsir.
Loftsteinninn sem féll í Peekskill 9. nóvember 1992. Hér má sjá myndskeið af loftsteininum. Ofurheitt loftið fyrir framan steininn, snertir hann í raun ekki þegar steinninn ferðast í gegnum lofthjúpinn. Hröð hreyfing loftsteinsins myndar höggbylgju í loftinu, líkt og hljóðfrá flugvél gerir þegar hún klýfur hljóðmúrinn. Höggbylgjan fyrir framan loftsteininn er þannig nokkra sentímetra frá honum.
Yfirborð loftsteinsins bráðnar vegna hita samanþjappaða gassins fyrir framan hann, og loftið sem streymir um hann blæs bráðinni utan af steininum, það er hann gufar upp. Orkan til að hita steinninn verður að koma einhvers staðar frá og því hægist á steininum eftir því sem meira af hreyfiorku hans breytist í ljós og varma. Hrapsteinninn fellur þannig einungis til jarðar á nokkur hundruð kílómetra hraða á klukkustund.
Þegar þarna er komið við sögu er hrapsteinninn enn frekar hátt í lofthjúpnum og það tekur hann nokkrar mínútur að falla til jarðar. Steinninn er búinn að vera lengi í lofttæmi geimsins og því er kjarni hans mjög kaldur. Þeir hlutar sem hitnuðu mest á ferðinni um lofthjúpinn hafa bráðnað og þeyst í burtu en einnig er loftið hátt í lofthjúpnum mjög kalt og hitar því ekki steininn. Loftsteinar sem ná til jarðar eru því ekki mjög heitir heldur allt frá því að vera volgir og niður í það að vera mjög kaldir (þaktir hélu).
Hafa einhverjir loftsteinar fundist á Íslandi?
Brot úr steininum sem sást í gærkvöldi hafa líklegast ekki náð niður til jarðar. Líklegt er að á Íslandi leynist loftsteinar innan um allt hitt grjótið, vandinn er sá að erfitt er að greina loftsteina frá öðru grjóti. Þess vegna hafa enn sem komið er, engir loftsteinar fundist hér á landi.
Sáu loftstein í Ölfusi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að lesa fréttablogg sem ekki felur í sér pólitískt skítkast. Ætli það sé sé ekki jafn algengur viðburðu og þegar loftsteinn stefnir í Ölfusá.
Elvar Geir (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 11:14
Frábær grein, fræðsla og góðar skýringar.
Bragi (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 11:23
Kærar þakkir fyrir þennan fræðandi pistil.
Bjarki (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 11:25
Tek undir með hinum, afar flott bloggfærsla, hvorki pólitískt skítkast eða aulahúmor út frá fyrirsögninni!
eir@si, 5.10.2009 kl. 12:06
Heyr, heyr, algerlega sammála síðustu ræðumönnum.
Þórhildur Daðadóttir, 5.10.2009 kl. 12:25
Takk fyrir það! Það er vonandi að einhverjir hafi nennt að lesa þennan pistil, en sérstaklega vona ég að einhverjir hafi smellt á tengilinn yfir á greinina um loftsteininn á Stjörnufræðivefnum til að fræðast enn meira.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 5.10.2009 kl. 12:45
Við hjónin vorum að gangi vestur Skildinganesið í Skerjafirði laust fyrir miðnættið í gær (4. okt). Ég sá blossa myndast um 60-70° á vesturhimninum og þreif í konuna og bæði sáum við síðan þetta frábæra stjörnuhrap. Það var eins og það byrjaði með ljóssprengingu? Ég hef séð nokkur stjörnuhröp áður og mér virtist sem stjörnuhrapið í gærkveldi hefði verið nær en þau sem ég hef áður séð.
Bestu þakkir fyrir góðan vef.
Bóndinn í Bauganesi 8, Skerjafirði.
Jens Pétur Jensen, 5.10.2009 kl. 14:05
Ég sá 3 ljósblá stjörnubjarma á laugardagsnóttina um 11 leytið. Ég bý í Breiðholti og þetta sást líka víða í Gravarvogi, Árbæ og í Vestur bænum. Þau hreyfðust mjög skringilega og byrtust af og til.
Mjög svipað þessum. Hvað gæti þetta verið?
http://www.youtube.com/watch?v=7WYRyuL4Z5I&feature=fvw
The Comic's man, 5.10.2009 kl. 22:53
Takk fyrir þessa færslu - frábær að vanda.
Höskuldur Búi Jónsson, 6.10.2009 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.