Tunglmyrkvi á laugardaginn

tunglmyrkvi-2010.jpgLaugardaginn 10. desember næstkomandi verður tunglmyrkvi. Myrkvinn sést best frá Asíu og Ástralíu en frá Evrópu sést hann að hluta. Tunglið verður almyrkvað þegar enn er dagsbirta á Íslandi og það undir sjóndeildarhring en Íslendingar munu samt geta séð sitthvað.

Einu (heppnustu!) íbúar landsins sem sjá rauðu almyrkvuðu tungli bregða fyrir eru Austfirðingar. Tunglið rís nefnilega austast á landinu skömmu áður en almyrkva lýkur klukkan 14:58. Annars staðar á landinu rís tunglið deildarmyrkvað (klukkan 15:28 í Reykjavík) en því stigi myrkvans lýkur klukkan 16:18 samkvæmt upplýsingum úr Almanaki Háskólans fyrir árið 2011.

Þótt fæstir landsmenn sjái rautt almyrkvað tungl verður engu að síður tignarlegt að fylgjast með deildarmyrkvanum. Þegar tunglið rís verður upplýsti hluti þess appelsíngulur með dökkan jarðskugga yfir hægri helmingnum.

Auk þess mun tunglið virka óvenju stórt lágt á himninum en það er skynvilla. Tunglið virðist stærra við sjóndeildarhringinn en það í raun og veru er vegna þess hvernig við skynjum lögun himinhvelfingarinnar. Þú getur sannreynt það sjálf(ur) með því að beygja þig og horfa á það á hvolfi. Hvað gerist? Tunglið minnkar! Reistu þig við og tunglið stækkar! Einhverjir munu reka upp stór augu og hlæja að þér en fyrirgef þeim, þau vita nefnilega ekki hvað þú ert að gera.

Um kvöldið er síðan tilvalið að virða fyrir sér næturhimininn (náðu þér í stjörnukort). Tunglið er fullt í stjörnumerkinu Nautinu. Rétt undir því er rauði risinn Aldebaran, tarfsaugað, sem sýnir okkur hvernig sólin mun líta út eftir á að giska 6 milljarða ára. Í kringum Aldebaran er stjörnuþyrping sem kallast Regnstirnið og lítur út eins og ör sem bendir til hægri.

Í stefnu klukkan sjö frá Aldebaran er rauði reginrisinn Betelgás í Óríon. Dag einn springur hún og verður þá líklega jafn björt fulla tunglinu. Í sverði Óríons, undir Fjósakonunum þremur, er risavaxin stjörnuverksmiðja, Sverðþokan í Óríon, sem alltaf er gaman að virða fyrir sér í gegnum sjónauka.

Bjartasta stjarnan á himninum, hægra megin við tunglið, er reikistjarnan Júpíter. Margir rugla Júpíter saman við Alþjóðlegu geimstöðina en því miður er það staðreynd að geimstöðin sést aldrei frá Íslandi.

stjornuhiminn-2011-12-10.jpg

Stjörnuhiminnin laugardagskvöldið 10. desember 2011. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum.

Við hvetjum fólk um land allt til að fylgjast með deildarmyrkvanum og Austfirðinga sérstaklega. Nú ef veðrið er óhagstætt er hægt að rifja upp þann dásamlega myrkva sem við urðum vitni að á stysta degi ársins í fyrra. Næst sést almyrkvi á tungli frá Íslandi 28. september 2015.

Mynd af tunglmyrkva: © Snævarr Guðmundsson, 2010

---

Vampírustjarna ljóstrar upp eigin leyndarmáli

eso1148a.jpg

Stjörnufræðingar hafa náð bestu mynd sem tekin hefur verið af stjörnu sem hefur glatað stórum hluta massa síns til fylgistjörnu sinnar. Með því að beina ljósgeislum sem safnað var með fjórum sjónaukum í Paranal stjörnustöðinni í einn punkt, gátu stjörnufræðingar útbúið 130 metra breiðan sýndarsjónauka sem var 50 sinnum skarpari en Hubblessjónauki NASA og ESA. Niðurstöðurnar eru óvæntar því þær sýna að flutningur efnis frá annarri stjörnunni til hinnar er mun rólegri en búist var við.

Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1148/

- Sævar Helgi 


Svarthol í miðju allra vetrarbrauta

Líklegt er að í miðju allra vetrarbrauta lúri skrímsli á borð við svartholin sem hafa nú fundist í sporvöluþokunum NGC 3842 og NGC 4889. Bæði eru næstum 10 milljarðar sólmassa, þ.e. 10 milljarðar sóla þjappað saman á svæði sem ef til vill er ekki mikið stærra en sólkerfið okkar. Það er ekkert smáræði og þyngstu svarthol sem við vitum um í „nágrenni okkar“. Eldra metið átti svartholið í miðju sporvöluþokunnar M87 í Meyjarþyrpingunni sem er 6,3 milljarðar sólmassa.  

En hvernig reikna menn út massa svarthola?

Best sýnidæmið er í miðju okkar eigin Vetrarbrautar. Um árabil hafa stjörnufræðingar skyggnst inn að miðjunni með hjálp risasjónauka á borð við Very Large Telescope ESO og fylgst með stjörnum hringsóla í kringum eitthvað mjög þungt en ósýnilegt. Með því að mæla umferðartíma stjarnanna er hægt að reikna út hve stór þessi ósýnilegi massi er með lögmálum Newtons og Keplers. Í ljós kemur að svartholið er „aðeins“ fjórar milljónir sólmassa. Þetta er útskýrt vel í myndskeiðinu hér undir:

Vegna fjarlægðar er ekki hægt að greina stakar stjörnur í kringum svarthol annarra vetrarbrauta með sjónaukum nútímans. Þess í stað skoðuðu stjörnufræðingarnir brautarhraða stjarna á nokkrum tugum svæða í vetrarbrautunum. Út úr mælingunum voru smíðuð líkön sem taka með í reikninginn hlutfall massa og ljóss (í öllum vetrarbrautum er meiri massi en ljós sem skýrist af hulduefni) og hulduefni í vetrarbrautunum. Líkönin veita upplýsingar um meðalumferðartíma stjarna í kringum miðju vetrarbrautarinnar sem síðan er hægt að nota til að reikna massa svartholsins. Svona er þetta gert í grófum dráttum. Sniðug aðferð sem þykir gefa tölfræðilega trausta niðurstöðu.

En þótt svartholin séu ósýnileg eru þau með björtustu fyrirbærum alheims, eða öllu heldur svæðið í kringum þau.

Þegar svarthol gleypa efni snýst það á ógnarhraða í kringum svartholið. Hraðinn er slíkur að efnið verður jafnvel nokkrar milljónir gráða á Celsíus og gefur þá frá sér mikla röntgengeislun. Við sjáum slík svæði í miðju okkar vetrarbrautar eins og sjá má hér undir. Innan í bjarta svæðinu Sagittarius A er svartholið.

chandra_hubble_spitzer_midja_vetrarbrautarinnar_isl_1124937.jpg

Úr enn stærri svartholum sjáum við mikla geislunarstróka sem skaga út úr vetrarbrautum eins og t.d. úr M87 sem sést hér undir:

opo1018a.jpg

Talið er að enn massameiri risasvarthol hafi knúið áfram dulstirni, mjög bjartar og fjarlægar vetrarbrautir sem við sjáum snemma í sögu alheimsins. Leifar þessara risasvarthola hafa ekki fundist í nágrenni okkar hingað til, nema kannski loksins nú!

Lesa má meira um svarthol á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi


mbl.is Hafa fundið risavaxin svarthol
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar merkilegar fréttir í dag

Nokkrar merkilegar fréttir hafa birst úr heimi stjarnvísinda í dag. Hér er fjallað um þrjár þeirra.

607769main_kepler22bdiagram_800-600.jpgFréttin um Kepler-22b er mjög merkileg. Hún sýnir að Keplerssjónaukinn er vel fær um að finna reikistjörnur á stærð við jörðina í lífbeltum sinna sólkerfa, því svæði í sólkerfi þar sem hvorki er of heitt né of kalt, heldur akkúrat passleg til að vatn geti verið á fljótandi formi. Við vitum ekki efnasamsetningu lofthjúpsins (til þess þyrfti stærri sjónauka sem gæti skoðað litróf reikistjörnunnar og hann er ekki til í dag) en þarna væri forvitnilegt að leita eftir súrefni og metani, efnum sem benda eindregið til lífs. Stærð reikistjörnunnar bendir til þess að hún sé úr bergi eins og jörðin, en þar sem hún er aðeins stærri yrði hún flokkuð sem risajörð.

En hvernig fannst þessi reikistjarna?

Kepler geimsjónaukinn starir á um 156.000 stjörnur á himinhvelfingunni milli stjörnumerkjanna Svansins og Hörpunnar. Um borð í sjónaukanum er mjög næmur ljósmælir sem mælir birtubreytingar stjörnu sem verður þegar reikistjarna gengur þvert fyrir stjörnuna frá jörðu séð. Við þvergönguna dregur reikistjarnan tímabundið úr birtu stjörnunnar.

Þvergangan stendur jafnan stutt yfir, oftast í fáeinar klukkustundir en ferlið verður að endurtaka sig, valda alltaf sömu birtuminnkun og standa jafnlengi yfir í hvert sinn til að hægt sé að staðfesta tilvist reikistjörnu. Hægt er að reikna út stærð reikistjörnunnar út frá birtuminnkuninni, en umferðartímann og þar af leiðandi fjarlægðina milli stjörnunnar og reikistjörnunnar er hægt að reikna út frá tímanum sem líður milli hverrar þvergöngu.

Staðfesta þarf allar reikistjörnur sem finnast með þessari leitaraðferð með öðrum mælingum, t.d. Doppler litrófsmælingum. Í þeirri aðferð mælir sjónaukinn örlitlar breytingar í litrófi móðurstjörnunnar sem rekja má til þeirra þyngdaráhrifa sem reikistjarnan hefur á stjörnuna. Flestar reikistjörnur utan okkar sólkerfis hafa fundist með þeim hætti.

Þess vegna var á sama tíma tilkynnt um aðrar 1000 hugsanlegar reikistjörnur sem sjónaukinn hefur fundið. Í heildina hefur Keplerssjónaukinn þar með fundið 2000 mögulegar reikistjörnur sem eftir á að sannreyna. Á meðal þeirra eru rétt rúmlega 50 sem gætu verið í lífbelti sinna sólkerfa. Við bíðum spennt eftir frekari niðurstöðum.

Á næsta ári fáum við sýnishorn af þessari aðferð þegar Venus gengur fyrir sólin frá jörðu séð. Lesa má nánar um það í tímaritinu Undur alheimsins sem er nýkomið út.

Hægt er að lesa sér betur til um Keplerssjónaukann og fjarreikistjörnur á Stjörnufræðivefnum.

----

Þyngsta svarthol sem fundist hefur

Í dag var einnig tilkynnt um að stjörnufræðingar hefðu „vigtað“ svartholið í miðju sporvöluþokunnar NGC 3842 sem er í um 280 milljón ljósára fjarlægð. Það reyndist hvorki meira né minna en 9,7 milljarðar sólmassa! Í miðju okkar Vetrarbrautar er risasvarthol sem vegur „aðeins“ fjórar milljónir sólmassa.

----

VLT finnur stjörnu sem snýst hraðast allra

Í Taranatúluþokunni í Stóra Magellansskýinu, í 160.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni er stjarnan VFTS 102 sem vakið hefur athygli stjörnufræðinga. Hún er 25 sinnum þyngri en sólin okkar, hundrað þúsund sinnum bjartari og snýst 300 sinnum hraðar um sjálfa sig! Engin önnur þekkt stjarnan snýst jafn hratt. Auk þess ferðast hún hægar um geiminn en nágrannar sínir. Allt bendir þetta til þess að stjarnan eigi stutta en stormasama ævi að baki eins og lesa má um í frétt ESO eða á Stjörnufræðivefnum.

eso1147a.jpg

Hluti Tarantúluþokunnar í Stóra Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Í miðjunni er stjarnan VFTS 102, sem snýst hraðast allra þekktra stjarna. Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru af sýnilegu og innrauðu ljósi með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla og 4,1 metra innrauða VISTA sjónaukanum í Paranal. Mynd: ESO/M.-R. Cioni/VISTA Magellanic Cloud Survey. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

- Sævar Helgi


mbl.is Systurpláneta jarðar fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýringin: Ljósker á himni

Það sem hér er að öllum líkindum um að ræða er ljósker sem kallast á ensku „Chinese lantern“. Þessi ljósker gefa frá sér appelsíngult ljós því innan í þeim er logandi kerti. Kertið hitar loftið svo ljóskerið svífur um himininn en það er vitaskuld háð vindi hversu hratt þau ferðast og í hvaða átt. Þau eru einnig nokkuð björt og geta sést frekar víða. Þessi ljósker njóta vaxandi vinsælda á Íslandi en þau hef ég margoft séð á himni erlendis. Og lýsingin kemur heim og saman við það. Ljóskerin líta svona út:

Miðað við lýsingar sjónarvotta er þetta líklegasta skýringin.

Þegar þið sjáið eitthvað sem þið getið ekki útskýrt á himninum, hafið endilega samband við okkur. Ekki skemmir ef þið náðuð mynd og getið sagt okkur tímasetningu og í hvaða átt fyrirbærið sást. 

- Sævar Helgi


mbl.is Torkennileg ljós á himni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórskemmtilegt spjall Stephen Colbert og Neil deGrasse Tyson

Ég er einn fjölmargra sem fylgist með meistara Neil deGrasse Tyson, stjarneðlisfræðingi og stjórnanda Hayden Planetarium í American Museum of Natural History í Bandaríkjunum, á Twitter.

Um daginn tístaði hann um spjall sem hann átti við Stephen Colbert, stjórnanda hins frábæra The Colbert Report á Comedy Central. Þetta er stórskemmtilegt spjall og Colbert er þarna ekki í karakter. Mæli með að þú horfir á þetta til enda, þótt langt sé:

Tyson er sá gestur sem oftast hefur komið í þátt Colbert og ræðir þar alla jafna um stjörnufræði. Þetta er til að mynda stórkostlegt innslag:

The Colbert ReportMon - Thurs 11:30pm / 10:30c
Bill O'Reilly Proves God's Existence - Neil deGrasse Tyson
www.colbertnation.com

Colbert Report Full EpisodesPolitical Humor & Satire BlogVideo Archive

Eitt sinn fékk Colbert Tyson til að læra um hvað þyrfti til að geta orðið stjarneðlisfræðingur:

The Colbert ReportMon - Thurs 11:30pm / 10:30c
Neil de Grasse Tyson
www.colbertnation.com
Colbert Report Full EpisodesPolitical Humor & Satire BlogVideo Archive

Tyson vinnur þessi misserin að nýjum Cosmos þáttum með Ann Druyan, ekkju Carl Sagan, og Seth MacFarlane, höfundi Family Guy.

Hlakka mikið til að sjá þá útkomu!

- Sævar Helgi


Bókin sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út!

skipulag-alheimsins.jpgHvaða bók skildi það vera sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út?

Jú, það er nýjasta bók Stephen Hawking, Skipulag alheimsins. Þýðendur bókarinnar, annar blaðamaður hjá Morgunblaðinu og hinn prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, urðu að taka á sig fjárhagslega áhættu og gefa bókina út sjálfir.

En hvers vegna vildu íslensk útgáfufyrirtæki ekki gefa þessa frábæru vísindabók út? Ég heyrði því fleygt að ein af ástæðunum væri sú að í bókinni er tæpt á viðkvæmu trúarlegu efni. Höfundar bókarinnar, Hawking og Mlodinow, vilja nefnilega meina að engan guð þurfi til að skapa alheiminn. 

Það er skandall ef satt er og bókaútgefndum til mikillar minnkunar. Ég vil ekki trúa því.

Mér finnst líklegra að ástæðurnar séu aðallega tvær: Áhugaleysi og lítil trú á að bókin seljist.

Það er ekki beinlínis hægt að segja að íslensk bókaforlög hafi staðið sig vel í að gefa út bækur um vísindi. Þau virðast hafa afskaplega lítinn áhuga á þeim. Fyrir vikið eiga þau talsverðan þátt í að draga úr vísindalegu læsi á Íslandi og mega alveg skammast sín fyrir það.

Ef þau telja að bókin seljist illa skjátlast þeim hrapallega. Bókin hefur nefnilega og mun seljast vel. Hvers vegna ætti bók eftir einn þekktasta vísindamann heims ekki að seljast í nægu upplagi til að það borgaði sig að gefa hana út? Hversu margar „fagurbókmenntir“ ætli komi út fyrir jólin sem enda í bullandi mínus?

Við hvetjum alla til að eignast þessa frábæru vísindabók og gefa heppnum í jólagjöf. Við munum leggja okkar af mörkum.

Hægt er að kaupa hana beint frá útgefendum hér á aðeins 3.990 kr.

Bendum líka á fleiri áhugaverðar vísindavænar gjafir.

- Sævar Helgi


Curiosity á leið til Mars!

Geimskot Curiosity gekk eins og í sögu og er geimfarið nú á leið til Mars! Jibbí!! 

Curiosity verður sjöunda bandaríska könnunarfarið og fjórði jeppinn sem lendir á Mars í ágúst á næsta ári. Lesa má nánar um þennan stórmerkilega jeppa á Stjörnufræðivefnum. Í Fréttablaðinu í dag er prýðileg umfjöllun um leiðangurinn og í Morgunblaðinu í gær sömuleiðis sem vert er að vísa á.

Fróðlegt er að bera saman fyrri lendingarför því Curiosity er stærstur eins og þessi mynd sýnir vel

pia11431_plusviking.jpg

Þrír jeppar og lendingarfar með Carl Sagan til samanburðar
Líkön af Marsjeppunum (Spirit og Opportunity), Sojourner og Curiosity ásamt Víking farinu með Carl Sagan til samanburðar. Mynd: NASA / JPL / Emily Lakdawalla

Eins og sjá má er Curiosity ekki ósvipaður fólksbíl að stærð. Hann vegur næstum 1 tonn en fyrrirennarar hans, Spirit og Opportunity, vógu 185 kg á meðan frumherjinn sjálfur, Sojourner, var aðeins rúm 10 kg. Víking förin voru hvort um sig rúmt hálft tonn en þau voru föst á sínum stað. 

Stærðin og þyngdin veldur því að erfitt er að lenda jeppanum. Hann er of stór og þungur til að hægt sé að lenda jeppanum með loftpúðaaðferðinni sem notuð var fyrir Spirit og Opportunity og Pathfinder/Sojourner. Þess í stað verður notast við eldflaugakrana sem lætur jeppann síga rólega niður á yfirborðið.

Curiosity á að lenda í Gale gígnum upp úr klukkan 5 um morguninn að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012. Á Mars verður það um eftirmiðdag, einn fagran síðvetrardag á suðurhveli Mars. Jeppinn mun lenda ofan á eða við aurkeilu í gígnum þar sem augljós merki eru um að vatn hafi runnið. Í gígnum eru auk þess merki um leir, súlföt og blaðsíliköt, — allt fyrirbæri sem myndast í vatni.

Góða ferð Curiosity! Ég hlakka til að sjá það sem þú sérð í Gale gígnum í ágúst á næsta ári! 

---

Við minnum á nýja blaðið okkar Undur alheimsins og svo frábæra bók eftir Stephen Hawking sem var að koma út í íslenskri þýðingu. Kjörið saman í jólapakkann!

- Sævar


Nýjasta bók Stephen Hawking komin út á íslensku

skipulag-alheimsinsÚt er komin nýjasta bók Stephen Hawking í þýðingu Baldurs Arnarsonar blaðamanns og Einars H. Guðmundssonar, prófessors í stjarneðlisfræði. Bókin hefur hlotið nafnið Skipulag alheimsins á íslensku, en á frummálinu heitir hún The Grand Design. Meðhöfundur Hawkings að verkinu er bandaríski eðlisfræðingurinn Leonard Mlodinow.

Þess má geta að Mlodinow hefur tekið boði þýðenda um að halda fyrirlestur við Háskóla Íslands í vor. Tímasetningin verður auglýst síðar. Jafnframt er ætlunin að kanna möguleikann á því að fá Hawking til landsins.

Bók þeirra félaga hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli erlendis fyrir frumleika og skýra og hnitmiðaða umfjöllun um efni sem almennt þykir flókið, það er að segja uppruna alheimsins, þróun hans og skipulag. Jafnframt finnst mörgum hugmyndaauðgi höfundanna skemmtilega ögrandi. Það á jafnt við um leikmenn sem sérfræðinga, þar á meðal eðlisfræðinga, heimspekinga og guðfræðinga.

Þessi þýðing á bók Hawkings og Mlodinows er eina verkið á íslensku sem fjallar um nýjustu og framsæknustu hugmyndirnar í eðlisfræði og heimsfræði samtímans. Og það á vel skiljanlegu máli.

Eins og ávallt þegar Hawking er annars vegar er framsetning efnisins sérlega áhugaverð og umfjöllunin markviss og sannfærandi. Þetta skemmtilega verk á því erindi til allra sem hafa áhuga á grundvallarspurningum um alheiminn, óháð aldri. Ritið hentar jafnframt mjög vel sem gjafabók við öll tækifæri.

Bókin er að koma í bókabúðir þessa dagana en einnig er hægt að panta hana á sérstöku tilboðsverði á netinu með því að fara inn á vefsíðuna http://nanophysics.raunvis.hi.is/~conference/Hawking/Hawking/Skipulag_alheimsins.html Þar er einnig að finna frekari upplýsingar um bókina, efni hennar, höfunda og fleira.

Tenglar


Nýtt tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðun

Undanfarnar vikur höfum við unnið hörðum höndum við útgáfu á nýju og glæsilegu blaði um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Það er nú loks komið út.

stj1114a.jpg

Blaðið er 84 litríkar síður úr hágæða pappír, allt prentað á vistvænan hátt (blaðið er Svansmerkt). Efnistök eru æði fjölbreytt og mun blaðið lifa alla vega næsta árið.

Félagsmenn fengu sitt eintak en við sendum líka öllum skólum á Íslandi tvö eintök af blaðinu, þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.

Blaðið fæst í Bóksölu stúdenta og Sjónaukar.is en einnig er unnið að því að koma það á fleiri sölustaði. Við hvetjum alla til að nálgast eintak!

Nánar um blaðið hér.

----

stj1113d.jpgÍ síðustu viku birtum við frétt af nýju átaki sem við vorum að hefja. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn ætla að afhenda öllum tíu ára skólabörnum landsins stjörnukort og fyrstu kortin voru afhent nemendum fimmta bekkjar í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi í gær.

Þetta er gert í framhaldi af því að á síðasta ári var öllum grunnskólum landsins gefinn sjónauki sem kenndur var við Galileó og gefur ekki ósvipaða möguleika til stjörnuskoðunar og hinn upphaflegi sjónauki meistarans.

Kortið sem nemendurnir fá sýnir stjörnuhimininn yfir Íslandi á vorin og haustin. Þau eru einföld í notkun og vonin er að þau hvetji bæði foreldra og börn til að horfa til himins og kynnast náttúrunni betur. Þetta er líka liður í að efla náttúrufræðikennslu í skólum enda veitir ekki af að hvetja ungdóminn til að velja sér braut náttúru- og raunvísinda á æviveginum.

Og nú undirbúum við annað verkefni fyrir allra yngsta áhugafólkið!

---


Mars á morgunhimninum

Ég sá reikistjörnuna Mars í morgun í fyrsta sinn í meira en eitt og hálft ár. Hún er í Ljónsmerkinu og er aðeins bjartari en bjartasta stjarnan sem nefnist Regúlus (sem merkir „litli konungurinn“). Á himninum sést að Mars er appelsínugul enda er hún nefnd „rauða reikistjarnan“ vegna járns á yfirborðinu sem hefur ryðgað.

Hér að neðan er mynd úr forritinu Stellarium af suðurhimninum eins og hann leit út kl. átta í morgun. Frekar auðvelt er að finna Ljónsmerkið undir Karlsvagninum í Stórabirni.

Mars 21 nóvember 2011

Við viljum svo endilega benda ykkur á stjörnukort mánaðarins sem er núna bæði til fyrir kvöld og morgna.

-Sverrir 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband