Spegillinn á Rás 1 ruglar saman geimstöðinni og Júpíter

Í Speglinum á Rás 1 í kvöld var rætt við geimfarann Bonnie Dunbar sem stödd er hér á landi og flutti erindi í Háskóla Íslands í dag (fyrirlesturinn er á morgun, fimmtudag). Umfjöllunin var prýðileg en þar kom líka eftirfarandi fram:

Alþjóðlega geimrannsóknastöðin sem vel sést í skammdeginu þegar heiðskýrt er þar sem hún lónar í um fjögur hundruð og sextíu kílómetra hæð yfir jörðu. Frá Reykjavík sést hún á austurhimni reyndar til suðausturs, skært ljós stafar frá henni, oft nokkuð gulleitt.

 Það er algengur misskilningur að geimstöðin sjáist frá Íslandi. Svo er ekki. Braut hennar liggur ekki nógu norðarlega til þess að svo sé. Og ef hún sæist, þá myndi hún sjást í stutta stund þar sem hún ferðast hægt og rólega yfir himininn uns hún hverfur í myrkrið, alveg eins og hvert annað gervitungl, nema auðvitað mun skærari.

Lýsingin hér að ofan á við reikistjörnuna Júpíter. Hann er bjarta og áberandi stjarnan á austurhimni á kvöldin. Þú getur sannreynt þetta með stjörnusjónauka!

Hve margir ætli hafi heyrt þetta? Þeir sem ekki vita betur halda nú að Júpíter sé Alþjóðlega geimstöðin. Svona geta fjölmiðlar smám saman sáð misskilningi til fólks. En vonandi verður þetta bara leiðrétt.

jupiter-austurhiminn.jpg

Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum.

- Sævar Helgi


LISA brautryðjandi leitar að geimgárum

Árið 2014 ætlar Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) að senda brautryðjandann LISA út í geiminn. Þar verður henni ætlað að leita að örlitlum og sérkennilegum kröftum sem breiðast um tímarúmið eins og gárur á vatni — þyngdarbylgjum.

lisa.jpg

Vísindamenn virða fyrir sér gervitunglið LISA Pathfinder. Mynd: Astrium UK

Albert Einstein spáði fyrir um þyngdarbylgjur í almennu afstæðiskenningu sinni árið 1916. Þær eru til dæmis taldar verða til við mestu hamfarir í alheiminum, til dæmis þegar tvö svarthol renna saman í eitt. Við áreksturinn verða til gárur í tímarúminu, eins og þegar steinn fellur í vatn.

Bylgjurnar breiðast út um alheiminn á ljóshraða og veikjast mjög með fjarlægð. Þess vegna þarf ótrúlega nákvæmni til að mæla þyngdarbylgjur — meiri en menn hafa nokkru sinni reynt að ná hingað til.

LISA verður komið fyrir á fremur rólegum stað í geimnum um 1,5 milljón km frá jörðinni. Um borð verða tveir rúmlega 4 cm teningar úr blöndu gulls og platínu sem svífa lausir í litlum hylkjum. Leysigeisli mælir stöðugt fjarlægðina á milli þeirra sem og hornið milli þeirra og geislans með nákvæmni sem nemur 10 trilljónustu úr gráðu. Það samsvarar stærð fótspors á tunglinu frá jörðu séð.

Við fullkomnar aðstæður í geimnum ætti hreyfing þessara teninga að vera nákvæmlega eins, nema til komi þyngdarbylgja sem bjagar tímarúmið. Þá færast teningarnir til og frá, upp og niður, líkt og önd á tjörn þegar vatnið bylgjast.

Þyngdarbylgjur eru mjög veikar og allar breytingar á fjarlægðinni milli teninganna því hverfandi litlar. Til að mæla þær þarf nákvæmni sem nemur um einum píkómetra. Það er einn trilljónasti úr metra eða milljónasti úr míkrómetra, hundraðasti af stærð atóms. Óskiljanleg smæð.

LISA er tilraunarfar sem ryður brautina fyrir stærri þyngdarbylgjukanna í framtíðinni. Með þeim gætum við hugsanlega greint gárurnar frá sjálfum Miklahvelli!

Hægt er að lesa sér betur til um þyngdarbylgjur á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi


Vá!

Alveg ótrúlega falleg reikistjarna sem við byggjum.

Njótið!

Earth | Time Lapse View from Space | Fly Over | Nasa, ISS from Michael König on Vimeo.

- Sævar


Líf og fjör á kennaranámskeiði í stjörnufræði

„Ég get ekki hætt að lofa þetta námskeið í skólanum“ sagði einn kennari í tölvupósti til okkar eftir kennaranámskeið í stjörnufræði sem við héldum síðustu helgi. Það er aldeilis!

Meira en 100 grunn- og framhaldsskólakennarar (og stöku leikskólakennarar) hafa sótt námskeið hjá okkur um stjörnufræði og stjörnuskoðun síðustu misseri. Við reynum að sýna kennurunum góðar aðferðir við að miðla ýmsum hugtökum í stjörnufræði á nýstárlegan og vonandi skemmtilegan hátt. Markmiðið er að efla vísindakennslu í skólum og veita kennurum stuðning.

Efnistök námskeiðanna eru margvísleg. Við fjöllum um Galíleósjónaukann, sýnum stjörnufræðihugbúnað sem henta í kennslu, tölum um dýrahringinn og stjörnumerkin, notum einfalt sýnidæmi til að sýna hvers vegna tunglið vex og dvínar og tölum um sólkerfið og alheiminn. Við reynum alltaf að brydda upp á einhverjum nýjungum. Í þetta sinn ákváðum við að gera rennblauta og hressandi tilraun um árekstra vetrarbrautaþyrpinga til að útskýra hulduefni.

Skoðaðu fyrst þessa mynd af Byssukúluþyrpingunni:

heic0818a.jpg

Hér eru tvær vetrarbrautaþyrpingar nýbúnar að rekast saman. Í öllum vetrarbrautaþyrpingum er heitt gas (sýnt bleikt) sem rekst saman og situr eftir í miðjunni á meðan vetrarbrautirnar sjálfar eru óskaddaðar og sitt hvoru megin við gasið. Í kringum vetrarbrautirnar er ósýnilegur massi sem heldur þeim saman og stjörnufræðingar kalla hulduefni (sýnt fjólublátt).

Til þess að útskýra þessa mynd settum við upp blauta tilraun sem við rákumst á á netinu.

img_1155a.jpg

Vatnið táknar heita gasið í þyrpingunum og litlar frauðkúlur (sem sjást illa á myndinni) eru vetrarbrautirnar. Alveg eins og í raunveruleikanum rekst vatnið saman í miðjunni en vetrarbrautirnar (kúlurnar) fara í gegn. Í kringum þær er hulduefnið sem heldur þeim saman.

Þetta virkaði mjög vel. Var stórskemmtilegt og uppskar hlátrasköll kennaranna.

Kennaranámskeiðin eru stór og mikilvægur hluti af okkar starfi. Við munum halda fleiri á næsta ári og ef einhverjir kennarar lesa þetta þá mælum við og kollegar ykkar eindregið með því!

----

Í vikunni þaut lítið 400 metra breitt smástirni framhjá jörðinni. Í dag birtist stórmerkileg frétt um annað smástirni sem menn komust nýlega að því að væri leifar þess efnis sem myndaði jörðina. Smástirnið nefnist Lútesía og er 100 km í þvermál. Lesa má nánar um það hér.

- Sævar Helgi


Það er risastór glóandi könguló á himninum

Í Dularfulla stjarnan rekur Tinni upp stór augu þegar hann lítur í gegnum stjörnusjónauka. Hann sér risavaxna könguló. Sú könguló var reyndar jarðnesk og aðeins framan á linsunni. Hefði Tinni verið staddur á suðurhveli jarðar hefði hann hins vegar getað skoðað risastóra glóandi könguló úti í geimnum.

Í tvígang hef ég verið svo heppinn að komast í stjörnuskoðun á suðurhveli. Suðurhimininn er stórkostlegur og geymir eitt allra fegursta fyrirbæri næturhiminsins: Tarantúluþokuna í Stóra-Magellansskýinu. Hún sést með berum augum þótt ljósið frá henni hafi verið 160.000 ár á leið til jarðar.

30dor.jpg

Mynd í röntgenljósi: NASA/CXC/PSU/L.Townsley et al. Mynd í innrauðu ljósi: NASA/JPL/PSU/L.Townsley et al.

Tarantúluþokan er eitt stærsta stjörnumyndunarsvæðið í námunda við Vetrarbrautina okkar. Í miðju hennar er þyrping næstum 2.400 gríðarstórra og þungra stjarna, þar á meðal þyngstu stjörnu sem vitað er um, R136a. Þessar stjörnur komu tiltölulega nýlega fram á sjónarsviðið, fyrir aðeins örfáum milljónum ára hið mesta. En þar sem stærstu stjörnurnar lifa skemmst eru þær þegar orðnar „miðaldra“ þótt í raun séu þær barnungar í samanburði við hversdagslegri stjörnur eins og sólina okkar. Þessar ungu og heitu stjörnur gefa frá sér griðarsterka geislun og öfluga stjörnuvinda sem feykja gasi burt og móta ásjónu geimþokunnar: Þær lýsa þokuna upp.

Myndin hér að ofan var tekin með Chandra röntgengeimsjónauka NASA. Hún sýnir gas sem hefur hitnað svo óskaplega af völdum stjörnuvindanna og höggbylgna frá sprengistjörnum í nágrenninu að það mælist margar milljónir gráða á Celsíus og gefur því frá sér röntgengeislun. Þetta heita gas þenst út og myndar risavaxnar bólur í kringum kaldara gas og ryk sem hér sést á innrauðri ljósmynd Spitzer geimsjónaukans. Hubble geimsjónaukinn hefur líka tekið stórkostlegar myndir af Tarantúlunni.

Tarantúluþokan er dæmi um rafað vetnisský. Röfuð vetnisský verða til þegar geislunin frá heitu ungu stjörnunum rífur burt rafeindir frá óhlöðnum vetnisatómum svo úr verður ský úr jónuðu vetni. Tarantúluþokan er stærsta rafaða vetnisský sem við vitum um í nágrenni okkar í alheiminum. Þess vegna eru stjörnufræðingar mjög duglegir við að rannsaka þessa fallegu þoku.

Hægt er að lesa sér betur til um Tarantúluþokuna á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi


Stórmerkilegur leiðangur

f-g_launch_lg.jpgVið höfum áður sagt frá þessum stórmerkilega leiðangri. Með Fóbos-Grunt í för er kínverska brautarfarið Yinghuo-1 en þetta er fyrsti leiðangur Kínverja út í sólkerfið. Fóbos-Grunt fer á braut um Mars í september eða október 2012 og sendir þá Yinghuo-1 á sína eigin braut um reikistjörnuna. Í febrúar eða mars 2013 mun Fóbos-Grunt lenda á Fóbosi, öðru af tveimur tunglum Mars, safna þar sýnum og snúa með þau aftur til jarðar í ágúst 2014. Sýnasöfnunarhylkið er á stærð við körfubolta en innan í því er lífhylki á stærð við mini-disk (ef einhver man eftir þeim) sem fjallað var um í annarri og ítarlegri bloggfærslu.

Síðar í mánuðinum, 25. nóvember, verður síðan næsta Marsjeppa skotið á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Hann nefnist Curiosity eða Mars Science Laboratory og er ekki ósvipaður golfbíl að stærð. Hann notar ekki sólarorku til að aka um yfirborðið eins og fyrirrennarar sínir Sojourner og Spirit og Opportunity, heldur er hann kjarnorkuknúinn.

Curiosity á að lenda í Gale gígnum upp úr klukkan 5 um morguninn að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012. Á Mars verður það um eftirmiðdag, einn fagran síðvetrardag á suðurhveli Mars. Jeppinn mun lenda ofan á eða við aurkeilu í gígnum þar sem augljós merki eru um að vatn hafi runnið. Í gígnum eru auk þess merki um leir, súlföt og blaðsíliköt, — allt fyrirbæri sem myndast í vatni. 

Ætli eitthvað forvitnilegt leynist þar? Örugglega, og það er líka ástæða þess að jeppinn er sendur þangað. 

Hægt er að lesa sér betur til um Fóbos-Grunt og Curiosity á Stjörnufræðivefnum.

p.s. Bæði Vísir.is og Mbl.is kalla tunglið Phobos upp á enska vísu en íslenska heitið er að sjálfsögðu Fóbos.


mbl.is Rússar senda geimfar til Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búist er við sólstormi...

Einhvern tímann í framtíðinni verður fylgst jafn náið með geimveðrinu og því jarðneska. Notaleg rödd frá geimveðurstofu Íslands segði okkur þá ef til vill: „Fyrst er viðvörun: Búist er við sólstormi, meira en 900.000 metrum á sekúndu við jörðina í kvöld og nótt með líkum á norðurljósum.“

Þessi lýsing gæti vel átt við næstu daga því á sólinni er stærðarinnar sólblettur sem hefur þegar varpað nokkrum vænum gusum út í geiminn, til að mynda í gær (3. nóv) (.mov). Engin hefur reyndar stefnt til okkar enn sem komið er en næstu daga færist sólblettasvæðið í átt að jörðinni og þá gætum við átt von á að fá yfir okkur skvettur.

solbletturar1339.jpg

Mynd: NASA/SDO

Það er ekkert víst í þessum efnum en áhugasamir ættu alla vega að fylgjast vel með og vonast eftir góðu veðri; norðurljósin gætu nefnilega orðið mjög falleg í næstu viku.

p.s. Til gamans má geta þess kórónuskvettan sem fylgdi blossanum 3. nóvember er að hellast yfir Merkúríus þegar þetta er skrifað (kl. 16:10, 4. nóv). MESSENGER geimfarið sem er á braut um Merkúríus mun fylgjast með áhrifum skvettunnar á reikistjörnuna. Ef skvettan yfirgnæfir tiltölulega veikt segulsvið Merkúríusar gæti hún hrifið með sér efni af yfirborði Merkúríusar, myndað lofthjúp tímabundið og bætt við efni í hala Merkúríusar (já, Merkúríus hefur hala!). 

p.p.s. Undirritaður var gestur í Morgunþætti Rásar 2 í morgun.

- Sævar


Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar

Í gær, fimmtudaginn 3. nóvember, veitti Siðmennt Páli Óskari Hjálmtýssyni Húmanistaviðurkenningu og okkur — Stjörnufræðivefnum og Stjörnuskoðunarfélaginu — fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins. Fræðsluviðurkenningin er hvorki meira né minna veitt „þeim aðila eða samtökum sem hafa fært þjóðinni mikilvægt framlag“ við vísindalega þekkingarleit og fræðslu.

Hope Knútsson, formaður Siðmenntar, flutti við þetta tækifæri eftirfarandi ræðu:

Í dag mun Siðmennt einnig veita Fræðslu-og vísindaviðurkenningu félagsins fyrir mikilvægt framlag í þágu fræðslu á Íslandi. Þetta er í fjórða sinn sem Siðmennt veitir þessa viðurkenningu. Fyrrum handhafar þessar viðurkenningar eru Pétur Tyrfingsson sálfræðingur árið 2008, Orri Harðarson rithöfundur og tónlistarmaður árið 2009 og Ari Trausti Guðmundsson rithöfundur og jarðvísindamaður í fyrra.

Ég vil byrja á því að segja hvers vegna Siðmennt lætur sig varða fræðslumál og upplýsta umræðu á Íslandi. Eitt af þremur meginviðfangsefnum félagsins er þekkingarfræði, sem er ein af undirgreinum heimspekinnar rétt eins og siðfræðin. Innan húmanismans er fjallað um eðli og uppsprettu þekkingar og skyld hugtök eins og skynjun, huglægni, hlutlægni, raunhyggju, rökhyggju og afstæðishyggju.

Í stefnu félagsins segir:

Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar, en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.

Siðmennt hvetur til gagnrýnnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.

Tveir aðilar sem hafa starfað mikið saman, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hafa lagt fram ótrúlega mikinn kraft og mikla hugsjón í þágu vísinda og þekkingar í íslensku samfélagi. Stjörnuskoðunarfélagið er 35 ára gamalt í ár. Félagið hefur aflað fjár til að kaupa og dreifa 300 sjónaukum til rúmlega 220 grunn-og framhaldsskóla ásamt heimildarmynd sem heitir “Eyes on the Skies” framleitt af European Space Agency, the European Southern Observatory og the International Astronomical Union. Ennfremur gerðu félagsmenn Stjörnuskoðunarfélagsins þýðingartexta fyrir myndina og heimsóttu rúmlega 150 skóla um allt land. Félagið bauð upp á námskeið fyrir kennara um notkun sjónauka og ráð um hvernig væri hægt að gera kennslu í stjörnufræði spennandi. Fyrir tveimur árum síðan hélt félagið ljósmyndasýningu undir berum himni á Skólavörðuholtinu með 26 stórar hrífandi myndir af alheiminum. Stóð sýningin yfir í 5 vikur. Mér finnst þetta framtak virkilega magnað!

Fyrir þetta stórkostlega framlag til fræðslu almennings á Íslandi vill stjórn Siðmenntar veita Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjörnufræðivefnum Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2011.

Við búum í samfélagi vísinda og tækni en samtímis búum við í samfélagi þar sem ríkir því miður mikil fáfræði og töluvert áhugaleysi um vísindi. Það vantar sárlega fleiri vísinda- og tæknimenntað fólk á Íslandi, en til þess þarf að vekja áhuga fólks á vísindum. Þetta er lykilatriði. Stjörnskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn standa sig prýðilega í þessu samhengi.

Mín er ánægjan að afhenda formanni Stjörnuskoðunarfélagsins og ritstjóra Stjörnufræðivefsins Sævari Helga Bragasyni fræðslu-og vísindaviðurkenningu Siðmenntar 2011. Félagið fær viðurkenningarskjal og Siðmennt hefur gefið formanninum flugmiða til Íslands til að geta tekið á móti viðurkenningunni fyrir hönd félagsins og til að vera með okkur í dag til að gleðjast saman.

Okkur þykir alveg óskaplega vænt um þessa viðurkenningu Siðmenntar. Takk kærlega!

si_mennt-3-nov-18.jpg

Hope Knútsson afhendir okkur (frá vinstri: Sævar Helgi Bragason, Ottó Elíasson, Tryggvi Kristmar Tryggvason og Sverrir Guðmundsson) vísinda- og fræðsluviðurkenningu Siðmenntar. Mynd: Kristinn Theodórsson

Fréttatilkynningin og myndir af athöfninni er að vinna á vef Siðmenntar. 

Þetta eru önnur verðlaun sem við hljótum á árinu fyrir vísindamiðlun. Á Vísindavöku Rannís sem fram fór í september var okkur einnig veitt viðurkenning fyrir okkar starf.

- Sævar Helgi


Skref í rétta átt

Margir mótmæla þessu og segja að þetta skerði umferðaröryggi. En það er ekkert sem bendir til að svo sé. Skýrslur um umferðaröryggi víða um heim renna stoðum undir það að lýsing á vegum utan þéttbýlis dragi ekki úr slysahættu heldur auki þvert á móti umferðarhraða sem leiðir til verri slysa. 

Um þetta má lesa í ágætri skýrslu Vegagerðarinnar. Þar segir í samantekt (fyrir þá sem stinga höfðinu í sandinn og vilja ekki lesa hana):

Skoðaðar voru ýmsar erlendar heimildir um veglýsingu og áhrif hennar á umferðaröryggi. Almennt má segja, að lýsing gatna innan þéttbýlis auki umferðaröryggi. Þessi áhrif eru alls ekki jafn skýr fyrir vegi í dreifbýli.

og

Auk þess var hugsanlegur ávinningur af lýsingu Reykjanesbrautar skoðaður sérstaklega.  Í ljós kom, að ávinningur í myrkri er lítill og ómarktækur.  Nokkrar ákeyrslur hafa orðið á staura. 

og 

Ekki er hægt að búast við neinum ávinningi við lýsingu Suðurlandsvegar yfir Hellisheiði.

og að lokum:

Hér er mælt með því, að vegkaflar í dreifbýli verði ekki lýstir upp.

Hér í Svíþjóð þar sem ég bý þessi misserin eru vegir milli þéttbýlisstaða almennt óupplýstir og lýsing almennt minni en heima á Íslandi. Mér finnst það mikill kostur.

Spörum götulýsinguna og njótum myrkursins fyrir utan þéttbýlissvæðin. Stjörnurnar njóta sín betur, norðurljósin líka. 

Slokkni ljós, kvikni stjörnur! 

- Sævar Helgi


mbl.is Dimmir yfir Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveimur Marsförum skotið á loft í nóvember

Í nokkrar vikur í nóvember og desember í ár opnast gluggi til Mars. Það gerist á 26 mánaða fresti eða svo, þegar jörðin og Mars mætast á göngu sinni um sólina en þá er minnst bil á milli reikistjarnanna og hagkvæmast að senda þangað geimför. Sé tækifærið ekki nýtt verða menn að bíða í meira en tvö ár þar til næsti gluggi opnast.

Og í ár verður tveimur nýjum Marsförum skotið á loft. 

Þann 8. nóvember næstkomandi, klukkan 20:16 að íslenskum tíma, verður rússneska sýnasöfnunarfarinu Fóbos-Grunt og kínverska brautarfarinu Yinghuo-1 skotið á loft frá Baikonur í Kasakstan. Fóbos-Grunt fer á braut um Mars í september eða október 2012 og sendir þá Yinghuo-1 á sína eigin braut um reikistjörnuna. Í febrúar eða mars 2013 mun Fóbos-Grunt lenda á Fóbosi, öðru af tveimur tunglum Mars, safna þar sýnum og snúa með þau aftur til jarðar í ágúst 2014. Sýnasöfnunarhylkið er á stærð við körfubolta en innan í því er lífhylki á stærð við mini-disk (ef einhver man eftir þeim) sem ég fjallaði um í annarri og ítarlegri bloggfærslu.

Þann 25. nóvember næstkomandi, klukkan 15:21 að íslenskum tíma, hyggst NASA senda næsta Marsjeppa út í geiminn. Hann nefnist Curiosity eða Mars Science Laboratory og er ekki ósvipaður golfbíl að stærð. Hann notar ekki sólarorku til að aka um yfirborðið eins og fyrirrennarar sínir Sojourner og Spirit og Opportunity, heldur er hann kjarnorkuknúinn. Hann lendir auk þess á nýstárlegan hátt eins og sjá má hér undir (lendingin hefst í kringum 1:30 mín):

Curiosity á að lenda í Gale gígnum upp úr klukkan 5 um morguninn að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012. Á Mars verður það um eftirmiðdag, einn fagran síðvetrardag á suðurhveli Mars. Jeppinn mun lenda ofan á eða við aurkeilu í gígnum þar sem augljós merki eru um að vatn hafi runnið. Í gígnum eru auk þess merki um leir, súlföt og blaðsíliköt, — allt fyrirbæri sem myndast í vatni. 

Ætli eitthvað forvitnilegt leynist þar? Örugglega, og það er líka ástæða þess að jeppinn er sendur þangað. 

Hægt er að lesa sér betur til um Fóbos-Grunt og Curiosity á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband