Vísindaþátturinn í dag

Það er ekki enn búið að reka okkur Björn Berg af Útvarpi Sögu og vonandi gerist það ekki í bráð. Við höldum því ótrauðir áfram að breiða út fagnaðarerindið, vísindin. 

Í Vísindaþættinum í dag verðum við með símaviðtal við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur. Hafdís er líffræðingur og mun á laugardaginn kemur flytja erindi um lífríki eyja í tilefni Darwin daga 2009. Ég veit svo sem ekki neitt um þetta viðfangsefni, en finnst það spennandi. Arnar Pálsson hefur skrifað nokkur orð um þetta sem vert er að vísa á.

Vísindaþættir síðustu tveggja vikna eru loksins aðgengilegir á vefnum. Fyrir tveimur vikum ræddi Björn Berg við eina fastagest þáttarins, Martin Inga Sigurðsson, um kerfislíffræði. Fyrir viku ræddum við Björn við Gísla Sigurðsson, prófessor við Árnastofnun, um goðsögur Snorra-Eddu og hvar finna má lýsingar á ýmsum náttúrufyrirbærum þar. Mér þótti það sérstaklega áhugavert.

Hægt er að nálgast alla Vísindaþættina á Stjörnufræðivefnum.


Loftsteinar splundrast gjarnan

Loftsteinar geta orðið mjög bjartir, litríkir og tilkomumiklir, þótt ekki séu þeir endilega stórir. Stundum splundrast þeir við komuna inn í lofthjúp jarðar. Lýsingin kemur heim og saman. Ég væri gjarnan til í að vita meira, t.d. litinn á glæringunum og í hvaða átt hann féll. 

Hvort loftsteinn splundrast eða ekki veltur á samsetningu hans, hraða hans þegar hann kemur inn í lofthjúpinn og undir hvaða horni. Hraðfleygur loftsteinn sem kemur inn á kröppu horni verður fyrir meira álagi og brotnar frekar upp. Loftsteinar úr járni standast betur álagið en loftsteinar úr bergi, þótt jafnvel járnsteinar geti auðvitað líka splundrast. Frægasta dæmið um loftstein (líklega brot úr halastjörnu) sem splundrast er atburðurinn í Tunguska í Síberíu árið 1908.

Mér er í fersku minni steinn sem við nokkrir félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness sáum splundrast í október í fyrra. Um hann skrifuðum við hér og tókum myndir af slóðinni sem hann skildi eftir sig.

Ef einhver brot úr þessum steini hafa ratað niður á jörðina, er harla ólíklegt að þau finnist. Loftsteinar blandast einfaldlega íslenska basaltinu svo erfitt er að greina þá frá öðru grjóti. Rétt er að taka fram að loftsteinarnir eru ekki heitir þegar falla niður til jarðar.

Hægt er að fræðast nánar um loftsteina á Stjörnufræðivefnum.

Skoðaðu stjörnurnar í kvöld!

Í kvöld, og jafnvel næstu kvöld, viðrar vel til stjörnuskoðunar. Það er fjölmargt forvitnilegt að sjá á himninum, bæði með berum augum og sjónauka. Ef þú vilt vita hvaða fyrirbæri hægt er að sjá skaltu heimsækja Stjörnufræðivefninn og prenta út stjörnukortið þar. Hver veit, kannski langar þig síðan í stjörnusjónauka til að sjá meira.

Tilkomumiklir loftsteinar eru algengari sjón en margur heldur. Prófaðu að fara út í kvöld og líta til stjarna. Kannski verður þú heppin(n) og sérð fallegt loftsteinahrap.

**Uppfært**

Í fréttinni segir nú: "Samkvæmt Almanaki Háskóla Íslands erum við að fara í gegn um loftsteinabelti. Áhrif þess eiga að vera í hámarki á þriðjudag. Viðmælendur blaðsins telja það líklegustu skýringuna."

Við erum á leið í gegnum loftsteinadrífu sem ber nafnið Leonítar, kennd við Ljónsmerkið vegna þess að geislapunktur drífunnar liggur í stjörnumerkinu. Ljónið kemur ekki upp á himinninn fyrr en eftir miðnætti og hámark drífunnar er 18. nóvember. Mér þykir því harla ólíklegt að þessi steinn tengist Leonítum.


mbl.is Loftsteinn sprakk á austurhimni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins! Vatn í töluverðu magni

Þann 9. október síðastliðinn lét NASA skeyti rekast á tunglið í gíginn Cabeus en á botni hans hefur sólarljós hefur aldrei náð á skína. Lesa má um árekstur farsins LCROSS á Stjörnufræðivefnum. Strax eftir áreksturinn birtum við frétt þar sem stóð meðal annars: Því miður sást enginn efnismökkur stíga upp frá tunglinu á myndunum í beinu útsendingunni, sem verður að teljast nokkur vonbrigði, þótt þetta hafi vissulega verið möguleiki sem fáir gerðu ráð fyrir

Þótt ekki hafi sést mökkur frá árekstrinum í beinu útsendingunni þá var könnunarfarið LCROSS búið nákvæmum mælitækjum sem gat rýnt í þann mökk sem steig upp í um 1.6 km hæð (en náði ekki út fyrir brún gígsins). Nú eftir að vísindamenn hafa rýnt í gögnin hafa þeir fullyrt að ásamt miklu ryki og grjóti hafi töluvert magn íss fundist í mekkinum. Einn vísindamannana segir að vatnsmagnið í skvettunni gæti numið um hundrað lítrum en það er of fljótt að segja til um það nákvæmlega. Það eina sem vitað er fyrir víst að litrófsmælir LCROSS gaf mjög skýrt til kynna að vatn hafi verið til staðar. Önnur efnasambönd gáfu sig ekki jafnvel til kynna en markmið verkefnisins er að bera kennsl á öll efnasambönd jarðvegsins og ákvarða magn hvers og eins.

Michael Wargo sérfræðingur hjá NASA segir að LCROSS hafi bætt við mikilvægum upplýsingum um vitneskju okkar um tunglið. "Þessi uppgötvun vatnsíss í árekstrarmekkinum er mikilvægur fyrir vísindasamfélagið og einnig vegna þess að vatnsbirgðir á tunglinu myndu reynast ómetanleg uppspretta fyrir tunglkönnuði framtíðarinnar". Eins og kom fram á Stjörnufræðivefnum fyrir nokkrum vikum væri unnt að vinna súrefni, drykkjarvatn og jafnvel eldsneyti úr vatninu á tunglinu.

Meira kemur innan skamms.


mbl.is Vatn finnst á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem við svífum um eins og rykarða...

Jörðin er langfallegasta reikistjarna sólkerfisins.

jordin_rosetta.png

Þessi stórglæsilega mynd sýnir heimili okkar í alheiminum í gær (12. nóvember), séð úr 633.000 km fjarlægð (1,5 sinnum meiri fjarlægð en tunglið). Myndin var tekin með ÓSÍRIS myndavélinni um borð í Rósetta geimfarinu. Er hún hluti af myndaröð sem sýna á snúning jarðar á einum sólarhring. Sú mynd verður víst birt síðar. Þú getur sótt stærri mynd hérna. Það er alveg þess virði. Hún er virkilega falleg.

Það slær mann strax að á myndinni eru engin merki um að þessi reikistjarna sé lifandi. Það sjást engin merki um mannkynið, sem þó hefur gríðarleg áhrif á þennan fagurbláa hnött. Á myndinni eru útlínur Suðurheimskautsins sýnilegar. Hafís undan ströndum þessarar stærstu eyðimerkur jarðar endurvarpar sólarljósinu sterkt sem veldur björtu blettunum neðst á jörðinni.

---

Þar sem það er föstudagurinn 13, þá má maður til með að hlæja aðeins. Mér var bent á þetta frábæra myndskeið þar sem "skotheld rök" fyrir sköpunartilgátunni eru sett fram.

Ég hef aldrei séð líf kvikna í hnetusmjörsdollunni hérna heima. Þar af leiðandi hlýtur þróunarkenningin að vera röng.


Hasarinn í miðju Vetrarbrautarinnar - myndir

Ætli Vísir.is - myndir aðferðin virki svona vel? Ætla að prófa þetta aftur.

Í gær birti NASA ljósmynd sem tekin var með þremur geimsjónaukum, Hubble, Spitzer og Chandra. Myndin er af miðju Vetrarbrautarinnar og sýnir hasarinn sem þar er með tilheyrandi litadýrð. 

Smelltu hér til að sjá myndina í öllu sínu veldi og umfjöllun um það sem sést á henni. Ó boj ó boj hvað það er þess virði. 

Mér finnst alltaf jafn magnað að hugsa til þess hvað við erum heppin að vera uppi á þeim tíma, þegar við eigum tæki og tól til sem gera okkur kleyft að skyggnast inn að miðju Vetrarbrautarinnar, og sjá þar hluti sem enginn hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér.

Vísindin færa okkur listaverk náttúrunnar.


Sjónaukarýni: Celestron FirstScope

16 firstscope_ofan_i

Ég er búinn að taka saman smá umfjöllun um Celestron FirstScope sjónaukann sem er framleiddur í tilefni af alþjóðaári stjörnufræðinnar 2009. Sjónaukinn fær mín bestu meðmæli og aukahlutirnir eru alveg ágætir miðað við verðið á heildapakkanum (15 þúsund). Sjónaukinn er mjög meðfærilegur og passar meira að segja í bakpoka ásamt öllum fylgihlutunum.

Hér er sjónaukarýnin á Stjörnufræðivefnum 


Útgjöld til hersins o.fl.

Verja Bandaríkjamenn virkilega meira fjármagni til hersins en velferðarkerfisins? Ég hef oft heyrt þessu fleygt og gapað af undrun, trúað þessu, en aldrei kannað málið fyrr en ég rakst á Egil Helgason segja þetta:

Það er alveg rétt, Bandaríkin verja óskaplegum fjármunum í herinn. Á meðan er velferðarkerfið fjársvelt. Og það má ekki hækka skattana – sem eru fjarska lágir á evrópskan mælikvarða.

Ég prófaði að Gúggla fjárlög bandaríska ríkisins og staka útgjaldaliði til að kanna eyðsluna. Eins og stundum áður, voru upplýsingarnar teknar saman á Wikipedia

Árið 2009 hefur forsetinn úr 3,1 trilljón dollara að spila (eitt ljósár er 9,5 trilljónir km, hvað ætli sé langt þar til fjárlögin eru jafn há ljósári?). Þetta deilist svona niður:

  • $644 milljarðar - Social Security
  • $515,4 milljarðar - Varnarmálaráðuneytið
  • $408 milljarðar - Medicare
  • $360 milljarðar - Atvinnuleysi og velferðarbætur auk annarra bótagreiðslna
  • $260 milljarðar - Vaxtagreiðslur vegna ríkisskulda
  • $224 milljarðar - Medicate og State Children's Health Insurance Program
  • $145,2 milljarðar - Stríðið gegn hryðjuverkum
  • $70,4 milljarðar - Heilbrigðisráðuneytið
  • $45,4 milljarðar - Menntamálaráðuneytið

Af þessum tölum að dæma fæ ég ekki betur séð en að Bandaríkin verji miklu hærri fjárhæðum til heilbrigðis- og velferðarmála en til hersins. Ég er á engan hátt að verja herútgjöldin með þessu, heldur einungis að benda á þetta. Það er hægt að verja hernaðarútgjöldunum á miklu betri hátt, t.d. í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og vísindi.

NASA fær ekki nema $17,6 milljarða og National Science Foundation $6,9 milljarða. Það finnst mér heldur snautlegt. Þessar tvær stofnanir eru meðal minnstu ríkisstofnanna í Bandaríkjunum. Ég yrði svangur ef ég fengi svona litla sneið af kökunni.

Til samanburðar á allri þessari eyðslu má nefna að tunglkapphlaupið kostaði ekki nema rúma $100 milljarða, sem dreift var yfir átta ára tímabil. 

----

En nóg um pólitík og leiðindi. Í Vísindaþættinum í dag kemur Gísli Sigurðsson í heimsókn. Gísli er prófessor við Árnastofnun og ætlar að fræða okkur um rannsóknir sínar á Snorra-Eddu og öðrum fornbókmenntum. Fyrir skömmu hélt Gísli mjög fróðlegt erindi um það hvernig finna má lýsingar af stjörnuhimninum í þessum ritum. 


Carl Sagan + Sigur Rós = Tær snilld

Rakst á þetta myndskeið hjá Slæma stjörnufræðingnum. Þarna les Carl Sagan, sem hefði orðið 75 ára í dag, einhvern fallegasta texta sem ég hef heyrt um okkar eina heimili í geimnum, sjálfa móður jörð, undir tónlist frá Sigur Rós.

Ég hlusta oft á Sigur Rós þegar ég fer í stjörnuskoðun. Það er eitthvað svo viðeigandi. Kosmísk tónlist sem fangar andrúmsloftið vel á þeim tíma. Undir stjörnubjartasta himni sem ég hef séð hingað til, í Atacama eyðimörkinni í Chile, hljómaði Sæglópur þegar ég virti stjörnurnar fyrir mér. Það var yndislegt.


Carl Sagan dagurinn í dag

carl_sagan.jpgÍ dag er Carl Sagan dagurinn. Mánudaginn 9. nóvember hefði þessi mikli meistari orðið 75 ára gamall, en hann lést langt fyrir aldur fram þann 20. desember 1996.

Carl Sagan hefur haft mikil áhrif á mig, sennilega meiri áhrif en nokkur annar ef foreldrar mínir eru undanskildir. Ég var ekki einu sinni fæddur þegar Cosmos þættirnir voru sýndir í sjónvarpinu, en þegar ég var 8 eða 9 ára komst ég yfir upptökur af þáttunum með íslenskum texta og horfði á. Þá var ekkert alltof langt síðan ég leit fyrst á Satúrnus í gegnum stjörnusjónauka og gjörsamlega heillaðist. Cosmos þættirnir gerðu ekkert annað en að efla þann áhuga gríðarlega, auk þess sem ég fékk áhuga á sögu vísindanna, eðlisfræði, líffræði og áttaði mig allt í einu á mikilvægi umhverfisverndar. 

Carl Sagan á líka stóran þátt í enskukunnáttu minni. Þegar ég var vart byrjaður að læra ensku í skólanum fékk ég Cosmos bókina að gjöf. Enskan í henni var ekki sú einfaldasta en ég lagði mig fram um að reyna að þýða kaflana til að skilja þá og lærði heilmikið af. Nokkrum árum síðar áttaði ég mig á því hversu fallegur og ljóðrænn textinn er í bókini og þáttunum. 

Ég á allar þær bækur sem Carl Sagan skrifaði. The Demon-Haunted World: Science as a Candle in the Dark er eflaust sú sem ég held mest upp á, en það er óður til efahyggju og vísinda. Broca's Brain er sömuleiðis frábær, svo ekki sé minnst á The Pale Blue Dot. Í Pale Blue Dot er þessi áhrifaríki kafli skrifaður út frá áhrifaríkri ljósmynd sem Voyager 1 geimfarið tók af sólkerfinu:

Cosmos þættirnir eldast ótrúlega vel þótt næstum þrjátíu ár séu liðin frá því að þeir voru frumsýndir í sjónvarpi. Ætli ég haldi ekki upp á daginn með því að horfa á einn þátt úr þessari frábæru þáttaröð.


Hubble heldur áfram að gleðja

Hubble geimsjónaukinn heldur áfram að gleðja stjörnuáhugafólk. Fyrir skömmu tók Hubble mynd af mikilli stjörnumyndun sem á sér stað í þyrilvetrarbrautinni M83, Suðursvelgnum í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Myndin var tekin með nýjustu myndavél Hubbles, Wide Field Camera 3 (WFC3), sem komið var fyrir í sjónaukanum í maí síðastliðnum.

hs-2009-29-b-web.jpg

Fleiri myndir í stærri upplausn er að finna hér.

---

Júpíter á kvöldin, Síríus á morgnana

Einhverjir hafa velt fyrir sér hvaða björtu stjörnur sjást á suðurhimni á kvöldin og á morgnana. Kvöldstjarnan er gasrisinn Júpíter en morgunstjarnan er Síríus, bjartasta fastastjarna himins.

Ef þú átt handsjónauka, eða stjörnusjónauka, skaltu endilega beina sjónaukanum á Júpíter. Með handsjónauka sjást Galíleótunglin sem Galíleó Galílei uppgötvaði fyrir næstum 400 árum síðan. Með stjörnusjónauka getur þú séð skýjabelti í lofthjúpi gasrisans.

Færra markvert sést með því að beina sjónauka að Síríusi. Síríus er mjög heit stjarna í 8,7 ljósára fjarlægð frá sólinni og líka nokkru stærri en sólin okkar. Hún hefur fylgihnött, hvítan dverg sem fannst fyrir um einni og hálfri öld. Flestir taka eftir því að Síríus virðist skipta litum. Ástæðan fyrir því er einfaldlega ferðalag ljóssins í gegnum lofthjúp jarðar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband