10.12.2009 | 13:18
Furðufréttir vikunnar
Í gær birtust tvær furðulegustu fréttir vikunnar á DV.is:
Þetta eru einhverjar skringilegustu og um leið sorglegustu fréttir sem ég hef lesið í langan tíma. Þessar ágætu konur virðast einlægar í trú sinni, en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er engin reikistjarna til sem heitir Vúlkan... nema auðvitað í Star Trek þaðan sem Mr. Spock á rætur að rekja... svo frétti ég líka af bæ í Kanada sem heitir Vúlkan, það er sennilega ekki það sem átt er við.
Mér finnst sorglegt að þessar konur trúi þessu en verst er þó að fólk í kringum þær virðist taka undir þessar hugrenningar þeirra, í stað þess að benda þeim á að þetta sé nú kannski ekki alveg raunveruleikinn. Reyndar sýnist mér það ekki skipta neinu máli hvort sem er. Seinni konan leitaði til stjörnufræðings við HÍ sem sagði henni að Vúlkan væri ekki til. Hún trúði honum samt ekki.
Væri reikistjarna á bak við sólina, sem við sæjum aldrei (sem gengur ekki upp), gætum við engu að síður fundið hana. Allir hnettir sólkerfisins, sér í lagi stórar reikistjörnur, sveigja brautir halastjarna og smástirna vegna þyngdaráhrifa sinna. Þetta gætum við hæglega mælt með því að fylgjast með brautum slíkra hnatta sem ferðast aftur fyrir sólina. Engin slík áhrif hafa nokkru sinni mælst.
Ætli ég kæmist í fjölmiðla með því að segjast koma frá Gliese 581c? Mín reikistjarna er í það minnsta ekki hugarburður. Ég veit að þessar tvær fréttir voru sennilega skrifaðar til að gera grín að konunum, en mér finnst þetta ekkert sérstaklega fyndið.
----
Önnur töluvert skemmtilegri furðufrétt barst frá Noregi í gær. Svakalega flottar ljósmyndir sýndu þyrillaga ský á himni yfir Noregi. Svo virðist sem þetta tilkomumikla sjónarspil hafi myndast af völdum eldflaugaskots sem fór úrskeiðis.
Glæsilegt ekki satt? Á myndskeiðum sést þyrillinn hreyfast. En hvað var þetta?
Hér er að öllum líkindum um stjórnlausa eldflaug að ræða. Við höfum svipað eiga sér stað áður við misheppnuð geimskot, en aldrei jafn tignarlegt og í þetta skipti. Eldflaugin snýst stjórnlaust í hringi svo það myndast samskonar mynstur við sjáum stundum í vindrellum. Þegar eldflaugaeldsneytið er uppurið myndast dökk geil í miðjunn sem síðan vex út á við. Blái strókurinn sem vindur sig upp á við bendir líka til að eitthvað hafi mistekist snemma í geimskotinu.
Þegar tölvulíkön eru gerð af stjórnlausri eldflaug birtist nákvæmlega sama mynstur:
Það hefði verið einstaklega gaman að verða vitni að þessu.
Jafnvel þótt staðfest verði að um misheppnað geimskot hafi verið að ræða, þá skiptir það engu fyrir þá sem trúa staðfastlega á geimveruheimsóknir.
Live long and prosper.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2009 | 12:56
Ný mynd frá Hubble sýnir fjarlægustu fyrirbæri alheims
Í gær birti NASA og ESA nýja ljósmynd frá einum besta vini okkar, Hubble geimsjónaukanum. Ljósmyndin sýnir elstu, fjarlægustu og daufustu fyrirbæri sem þekkjast í alheiminum.
Hún lætur ekki mikið yfir sér hér. Þess vegna skaltu endilega sækja stærri útgáfu og svífa um meðal allra þessara vetrarbrauta. Það er vel þess virði.
Í fjörutíu og átta klukkustundir starði Hubble á svæði á himninum, sem er á stærð við blýantsodd sem haldið er í útréttri hendi, í stjörnumerkinu Ofninn. Frá jörðu séð virðist svæðið að mestu leyti tómt en samt eru yfir tíu þúsund vetrarbrautir á myndinni.
Ljósið frá heitum og ungum stjörnum í þessum fjarlægu vetrarbrautum lagði upphaflega af stað sem útfjólublátt eða sýnilegt ljós, en vegna útþenslu alheimsins hafa bylgjulengdirnar lengst og færst yfir á innrauða svið rafsegulrófsins. Þess vegna eru fjarlægustu fyrirbærin á myndinni rauðleit. Ljósið frá þessum fyrirbærum lagði af stað fyrir meira en 13 milljörðum ára! Heilum 8,5 milljörðum árum áður en sjálf jörðin varð til! 13,1 milljarði árum eftir að ljóseindirnar lögðu af stað fyrst af stað er dýrategund á jörðinni svo loksins búin að útbúa sér geimsjónauka til að nema ljóseindirnar.
Þú getur lesið aðeins meira og skoðað myndina í stærri útgáfu hér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.12.2009 | 14:23
Af stjörnum ertu komin(n), að stjörnum skaltu aftur verða
Þú ert úr stjörnuryki. Súrefnið í vatninu, kalkið í beinum, járnið í blóðinu, kolefnið í erfðaefninu, gullið í skartgripunum. Öll urðu þessi efni til þegar stjarna sprakk fyrir mörgum milljörðum ára. Jarðarbúar eru tengdir alheiminum djúpum og órjúfanlegum böndum í tíma og rúmi.
Mér finnst það stórbrotin staðhæfing. Hún er studd sönnunargögnum. Við sjáum þetta allt í kringum okkur.
Árið 1054 sást stjarna springa í Nautsmerkinu. Það tók ljósið frá henni 6300 ár að berast til okkar sem þýðir að þegar menn urðu hennar fyrst varir hafði hún í raun verið dáin í 6300 ár. Sprengistjarnan var svo björt að hún sást að degi til og lesbjart var á næturnar. Í dag sést þarna stjörnuþoka, M1 eða Krabbaþokan, úr efnunum sem stjarnan skilaði frá sér við dauðdaga sinn.
Við sprenginguna hófst framleiðsla á öllum þeim náttúrulegu frumefnum sem finnast í alheiminum. Efnin dreifast með tímanum um víðáttur Vetrarbrautarinnar þar sem þau mynda hráefnið í nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.
Í miðju skýsins situr eftir ofurþétt stjörnuleif úr nifteindum; stjarna á stærð við höfuðborgarsvæðið sem snýst 30 sinnum á sekúndu og kallast því tifstjarna. Þú getur hlustað á tifið hér. Á hverri sekúndu gefur hún frá sér orku á við hundrað þúsund sólir. Snúningurinn er svo hraður að gríðarsterkt segulsvið myndast við hana sem lýsir upp alla þokuna. Segulsviðið hefur svo aftur þau áhrif að það hægist á snúningnum.
Þessi mynd sýnir Krabbaþokuna á þremur mismunandi bylgjulengdum ljóss. Blái liturinn táknar orkuríkasta ljósið, röntgengeislun, sem Chandra sjónaukinn sér. Rauði og guli liturinn kemur frá sýnilegu ljósi sem Hubblessjónaukinn sér. Fjólublái liturinn sýnir innrautt ljós sem Spitzer sjónaukinn greinir.
Fleiri stjarna í Vetrarbrautinni okkar bíða þessi nöturlegu örlög. Ein þeirra er áberandi á kvöldhimninum þessa dagana, Betelgás í Óríon. Við ætlum að fjalla nánar um hana hér á blogginu á næstunni.
Á meðan er kjörið að fara út á kvöldin, finna Nautið og elta uppi Krabbaþokuna. Það er lítið mál með hjálp góðra korta eins á finna má á Stjörnufræðivefnum. Ef þú vilt sjá hana er reyndar nauðsynlegt að eiga góðan stjörnusjónauka.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.12.2009 | 17:03
Meiri lýsing er ekki það sama og betri lýsing
Við höfum ítrekað reynt að koma því á framfæri að meiri lýsing sé ekki það sama og betri lýsing. Það er erfitt fyrir okkur að taka afstöðu til þess hvort það sé í lagi að stytta lýsingartímann en við erum ánægðir með að borgaryfirvöld séu farin að líta til sparnaðar í þessum málaflokki.
Stjörnuskoðun, sparnaður og umferðaröryggismál geta vel farið saman. Með betri ljóskerjum sem minnka glýju má auka öryggi í akstri þar sem ökumenn truflast ekki jafnmikið af ljósum frá ljósastaurum framundan. Á þennan hátt verður lýsingin markvissari og þá þarf ekki að nota jafnmikla orku til þess að lýsa upp göturnar. Um leið minnkar ljósmengun vegna ljóss sem berst til hliðar og upp til himins og nýtist ekki við götulýsingu. Allir græða!
Hér er umfjöllun um ljósmengun á Stjörnufræðivefnum og á bloggi Ágústs Bjarnasonar.
![]() |
Segja sparnað í lýsingu skapa hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2009 | 18:15
Ef jörðin hefði hringa eins og Satúrnus
Rakst á þetta forvitnilega myndskeið á netinu. Stundum er ég nefnilega spurður að því hvernig væri umhorfs ef jörðin hefði tignarlegt hringakerfi eins og Satúrnus. Þetta myndskeið svarar spurningunni mjög vel. Frá Íslandi séð yrði hringakerfið við sjóndeildarhringinn en við miðbaug mjó ræma. Þeir yrðu einstaklega tignarlegir að sjá frá stöðum eins og New York.
Ég er reyndar mjög sáttur við að jörðin hafi ekkert hringakerfi. Þeir myndu nefnilega birgja okkur sýn út í alheiminn!
30.11.2009 | 12:39
Stjörnukort fyrir Ísland í desember
Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í desember (á íslensku að sjálfsögðu!). Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.
Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum
Annars er margt að sjá á næturhimninum í desember á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Eitt af því sem vekur athygli er að tunglið verður fullt tvisvar sinnum í mánuðinum, bæði í upphafi hans og á síðasta degi ársins, gamlársdegi. Þetta gerist stökum sinnum en síðasti mánuðurinn sem hafði tvö full tungl var júnímánuður 2007.

Hátt á lofti í suðaustri blasir við Sjöstirnið en það er án nokkurs vafa auðþekktasta stjörnuþyrpingin á næturhimninum. Það er stórt og bjart og lítur út eins og glitrandi stjörnuský. Með berum augum má sjá um 6-8 stjörnur sem raðast upp í mynstur sem minnir á Karlsvagninn. Í handsjónauka og stjörnusjónauka koma í ljós margfalt fleiri stjörnur í þyrpingunni.
Fyrir neðan Sjöstirnið á himninum er bjart og fallegt stjörnumerki sem nefnist Óríon. Óríon var veiðimaður í grískum goðsögum og er auðþekktur á þremur björtum stjörnum í belti hans sem oft eru nefndar Fjósakonurnar. Fyrir neðan Fjósakonurnar er sverð Óríons. Í miðju þess er Sverðþokan sem sést með berum augum og er auðvelt að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka. Sverðþokan er í raun risavaxin stjörnuverksmiðja og hefur Hubblessjónaukinn náð myndum af sólkerfum sem eru að fæðast inni í miðri þokunni.
27.11.2009 | 16:01
Lag alþjóðaárs stjörnufræðinnar 2009
Nú þegar búið er að kynna til sögunnar mynd alþjóðaársins, sjónauka alþjóðaársins o.fl. hérna á blogginu þá er kannski við hæfi að birta lag sem er tileinkað alþjóðaári stjörnufræðinnar 2009. Lagið nefnist Spaced Out en höfundur þess er Michael Davis, stjörnuáhugamaður og lagasmiður í Bandaríkjunum. Hluti af myndunum er frá stjörnuteiti við Patoka vatn í suðurhluta Indiana. Hinar eru frá sjónaukum sem stjörnufræðingar nota og þar af nokkrar frá Hubblesjónaukanum.
Gjörið þið svo vel!
25.11.2009 | 10:35
Hamborgarinn
Ég fagrar vetrarbrautir. Centaurus A er ein þeirra
. Þessi glæsilega mynd var tekin í nær-innrauðu ljósi með 3,6 metra breiðum sjónauka Stjörnustöðvar Evrópu á suðurhveli (ESO) í Chile. Á myndinni sést sérkennilegur hringur af stjörnum :
Centaurus A er virk vetrarbraut. Hún er að ganga í gegnum hrinu stjörnumyndunar eftir að hafa étið aðra ólánsama þyrilvetrarbraut. Í kjarna hennar er risasvarthol, 200 milljón sinnum massameira en sólin okkar og 50 sinnum massameira en svartholið sem lúrir í miðju okkar Vetrarbrautar. Hugsaðu þér að sólin yrði þjöppuð saman, 200 milljón sinnum, á svæði sem er smærra en fjarlægðin milli jarðar og sólar!
Efni fellur stöðugt inn í risasvarthol Centaurus A sem veldur því að þessi risavetrarbraut er einstaklega virk. Stjörnuhringurinn sem sést á myndinni er sennilegast leifar árekstursins, meltingatruflanir eftir ofátið sem átti sér stað fyrir aðeins hálfum milljarði ára! Fyrir augnabliki á stjarnfræðilegum mælikvarða.
Centaurus A er nágranni okkar í geimnum. Hún er í aðeins 11 milljón ljósára fjarlægð og því sérstaklega glæsileg að sjá með stjörnusjónauka. Því miður sést hún ekki frá Íslandi en fólk á suðurhveli fær að njóta hennar. Í gegnum sjónauka lítur hún út eins og hamborgari þar sem bungurnar tvær eru brauðið og rykskýin í miðjunni kjötið og osturinn. Þess vegna köllum við hana stundum hamborgaravetrarbrautina.
Þessi mynd er tekin í sýnilegu ljósi, svona eins og við myndum greina hana með berum augum. Glæsileg, ekki satt? Ætli það sé einhver þarna að horfa yfir á Vetrarbrautina okkar og velta fyrir sér hvort þar sé líf?
Með útvarpssjónaukum og röntgensjónaukum sjást strókar út frá svartholinu. Strókarnir eru úr háorkuögnum sem svartholið hraðar á næstum ljóshraða út frá sitt hvorum pólnum eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan: "ropið" eftir allt ofátið.
Nú langar mig bara í hamborgara.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2009 | 13:01
Magnaðar myndir af Enkeladusi
Við skrifuðum fyrir skömmu um fyrra flug Cassini geimfarsins af tveimur framhjá Enkeladusi, einu af tunglum Satúrnusar. Síðara framhjáflugið varð fyrir nokkrum dögum og sendi geimfarið alveg hreint stórbrotnar myndir heim til jarðar af þessu dularfulla tungli. Á myndinni hér fyrir neðan sjást goshverirnir sem spúa vatni og öðrum efnum upp úr yfirborðinu og út í geiminn.
Fleiri myndir í stærri upplausn, er að finna hér. Mér finnst myndin af hrukkóttu yfirborði þessa íshnattar sérstaklega glæsileg.
23.11.2009 | 13:21
Stjörnuhiminninn í morgun
Í síðustu viku áttum við afar skemmtilegt spjall við Hafdísi Hönnu Ægisdóttir, plöntuvistfræðing, um lífríki eyja og sérstöðu þeirra. Hafdís hélt fyrirlestur um sama efni í Öskju síðasta laugardag í tilefni Darwin daga 2009. Sá þáttur, sem og þáttur morgundagsins, verða komnir inn á vefinn á miðvikudaginn.
----
Stjörnuhiminninn í morgun var sérstaklega glæsilegur. Ljónið var áberandi á suðurhimni og þar við hliðina Krabbinn og svo Tvíburarnir. Á morgunhimninum nú eru tvær reikistjörnur sjáanlegar, Mars og Satúrnus. Prófaðu að skoða Satúrnus í stjörnusjónauka. Hún er ótrúlega tignarleg.
Þú getur smellt á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Ef þú átt ekki sjónauka er um að gera að bæta úr því.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)