31.12.2009 | 12:41
Blátt tungl og deildarmyrkvi
Í gærdag og -kvöldi var máninn sjálfur einstaklega fagur á himninum. Í kvöld er tunglið fullt, í annað skipti í mánuðinum. Talað er um blátt tungl þegar tunglið er fullt í tvígang í sama mánuði. Í fyrra skiptið var tungli fullt þann 2. desember. Blá tungl verða á um tveggja og hálfs árs fresti eða svo. Enn sjaldgæfara er að blátt tungl renni upp á gamlárskvöld. Það ku gerast eini sinni á hverjum nítján árum eða svo.
En það er ekki aðeins blátt tungl á gamlárskvöld heldur fáum við líka að njóta deildarmyrkva á tungli. Deildarmyrkvar verða þegar hluti tunglsins fer inn í alskugga jarðar. Í þetta sinn myrkvast næstum 8% af suðurhveli tunglsins svo um er að ræða minniháttar deildarmyrkva. Myrkvinn verður í hámarki klukkan 19:23 að íslenskum tíma. Tunglið er þá á austurhimni í tvíburunum. Þú getur smellt hér til að sjá góða hreyfimynd af deildarmyrkvanum.
En hversu oft ber deildarmyrkvað blátt tungl upp á gamlárskvöldi. Samkvæmt SpaceWeather.com er svarið um það bil einu sinni á hverjum 91 ári. Það er sjáldgæft. Vonandi sést í heiðan himinn í kvöld. Það er um að gera að fara út eftir gamlársmatinn til að njóta þess sem fyrir augum ber. Prófaðu að nota handsjónauka og ef þú ert svo heppin(n) að eiga stjörnusjónauka er um að beina honum að tunglinu. Það er kjörið að kveðja ár stjörnufræðinnar með þessum hætti.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.12.2009 | 14:39
Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2009
Stjörnufræði er einstaklega myndræn vísindagrein. Á tíðum líkjast niðurstöður stjarnvísinda helst listaverkum.
Á ári stjörnufræðinnar 2009 tóku stjörnufræðingar, stjörnuáhugamenn og sendiherrar jarðarbúa í sólkerfinu, þúsundir ljósmynda af undrum alheimsins. Margar þessara mynda eru í gullfallegar og verðskulda að sem flestir fái notið þeirra.
Myndirnar sem hér eru valdar tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2009 voru fyrst og fremst valdar út frá fegurðargildi, en ekki síður vísindalegu.
Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augum ber, enda eru fyrirbærin ekki síður áhugaverð en myndirnar fallegar.
Sjá Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2009.
Njóttu vel.
p.s. Sendu hlekkinn endilega á Facebook, á bloggið þitt og til vina og vandamanna.
Vísindi og fræði | Breytt 27.12.2009 kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2009 | 12:06
Tarantúluþokan óskar þér gleðilegra jóla
Stjörnufræðivefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. Meðfylgjandi er nýleg ljósmynd sem Hubblessjónaukinn tók af jólalegri stjörnuþoku í Stóra Magellanskýinu.
Á þessari fallegu jólaljósmynd sjást hundruð blárra stjarna innan í glóandi gasskýi. Þessi stóra stjörnuþyrping nefnist R136 og er að finna Tarantúluþokunni (30 Doradus eða NGC 2070) í Stóra Magellanskýinu, sem er lítil fylgivetrarbraut við Vetrarbrautina okkar. Hún er mjög ung, aðeins nokkurra milljón ára gömul. Tarantúluþokan er stærsta stjörnumyndunarsvæði sem menn þekkja og eru margar stjörnurnar, sem þar er að finna, meðal hinna massamestu sem vitað er um. Nokkrar eru meira en 100 sinnum massameiri en sólin okkar. Svo stórar sólir enda ævi sína sem sprengistjörnur eftir fáeinar ármilljónir.
Hubble tók myndina með nýju Wide Field Camera 3 myndavélinni milli 20. og 27. október 2009. Hér er blandað saman útfjólubláu, sýnilegu og innrauðu ljósi. Blái liturinn stafar af heitustu og orkuríkustu stjörnunum, græni liturinn frá glóandi súrefni en rauði liturinn frá vetni. Myndin þekur 100 ljósára breitt svæði.
Þessi pistill birtist upphaflega á Stjörnufræðivefnum.
Gleðilega hátíð!
21.12.2009 | 12:25
Vetrarsólstöður í dag
Eflaust sakna margir sólarinnar þessa myrkustu daga ársins. Í dag eru vetrarsólstöður eða vetrarsólhvörf. Þá er sól lægst á lofti og nóttin löng, en smám færist hún aftur hærra á himinninn, dag tekur lengja á nýjan leik og sólin færir okkur birtu og yl.
Af öllum stjarnfræðilegum fyrirbærum verðum við sennilega áþreifanlegast vör við árstíðirnar. Árstíðirnar breyta jú hitastigi og veðurfari umtalsvert á flestum stöðum á jörðinni. Margir halda að árstíðaskiptin séu af völdum breytilegrar fjarlægðar jarðar frá sólinni en svo er aldeilis ekki. Jörðin er nefnilega næst sólu í janúar þegar það er hávetur hjá okkur á norðurhvelinu en hásumar á suðurhvelinu.
Hvers vegna verða árstíðaskipti og hvers vegna er hlýrra á sumrin en veturna fyrst mismunandi fjarlægð jarðar frá sólu hefur þar engin áhrif? Svörin við þessum spurningum er að finna hér í grein okkar um árstíðirnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2009 | 11:09
Kúúúúl
Mér finnst þessi mynd frá Cassini geimfarinu alveg hreint stórfengleg:
Hér sést skuggi Títans falla á Satúrnus. Ef vel er að gáð sést að hálfskugginn er loðinn. Hringarnir varpa litlum skugga nú um stundir enda stutt síðan hringarnir sneru beint í átt að sólu. Nú er að vora á norðurhvelinu sem þýðir að sólin er að lýsa ofan frá og varpa hringarnir þunnum skugga á suðurhveli. Hringskugginn fer vaxandi þegar líður á Satúrnusarárið sem telur um 29 jarðarár
Títan er risastórt tungl, stærra en reikistjarnan Merkúríus en örlítið minni en Mars. Yfirborðið er ísilagt enda um 180°C frost þar allt árið og þar leikur metan svipað hlutverk og vatn á jörðinni. Það fellur sem regn, safnast í læki, ár og stöðuvötn. Eitt stöðuvatnanna á Títan er nefnt eftir mjög frægu íslensku stöðuvatni. Hvaða vatn skyldi það vera?
Ég minni svo á að við verðum með kynningu á sjónaukum í verslun A4 á Smáratorgi í dag milli 15 og 17. Verð þar með fuglasjónauka, stjörnusjónauka, handsjónauka og fylgihluti.
18.12.2009 | 16:05
Hinn sýnilegi alheimur - myndskeið
Það eru allir að pósta þessu myndskeiði hér og þar á netinu. Ég rakst á þetta hjá Örvitanum Matta Á. Það er vel þess virði að verja rúmum sex mínútum í að horfa á það sem við þekkjum af hinum sýnilega alheimi.
Myndskeiðið er útbúið af American Museum of Natural History í New York. Þið sem hafið komið þangað hafið örugglega (vonandi) heimsótt Hayden Planetarium þar sem svona myndskeið eru sýnd, vörpuð yfir okkur eins og himinhvel. Myndin hefst á jörðinni, svo er haldið út úr sólkerfinu, út úr Vetrarbrautinni og út að Örbylgjukliðnum, "bergmálið" frá Miklahvelli, sem eru endimörk hins sýnilega alheims (græna, bláa og rauða hvelið sem umlykur alheiminn í enda myndskeiðsins). Vissir þú að þú getur horft á Miklahvell í sjónvarpinu þínu?
Það er fátt áhrifaríkara en að sjá hvað jörðin okkar er pínulítil í samhengi við alheiminn.
17.12.2009 | 07:35
Jólapakki stjörnufræðiársins
Um þetta leyti árs fáum við fjölda fyrirspurna frá fólki sem biður okkur að mæla með hinum eða þessum sjónauka og hinni eða þessari stjörnufræðibókinni. Góðir sjónaukar eru tiltölulega ódýrar jólagjafir. Þeir kostar töluvert minna en t.d. leikjatölvur. Sjónauki er líka töluvert meira þroskandi og hentar allri fjölskyldunni. Fyrir skömmu tókum við saman stuttan lista yfir hluti sem við getum hiklaust mælt með í jólapakka stjörnuáhugamannsins.
Í tilefni alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar býður Sjónaukar.is upp á jólapakka stjörnufræðiársins. Í honum er FirstScope stjörnusjónaukinn, sem útbúinn var sérstaklega í tilefni stjörnufræðiársins (en var ekki valinn "vara ársins" eins og fyrirtæki út í bæ virðast halda), tímarit stjörnufræðiársins og opinber heimildamynd stjörnufræðiársins á DVD, með íslenskum texta að sjálfsögðu.
Allt þetta saman á 15.900 kr! Þetta ER jólagjöfin í ár. Allur pakkinn fæst hjá Sjónaukar.is.
Svo er auðvitað ýmislegt annað í boði fyrir þá sem vilja enn flottari sjónauka. Ef þú átt sjónauka nú þegar eru fylgihlutir málið. Svo áttu að sjálfsögðu að kaupa tímarit stjörnufræðiársins sem selt er í öllum helstu bókaverslunum landsins. Það er ódýr og frábær gjöf.
Það er kannski gott að hafa eitt í huga. Ef þú kaupir jólapakkann beint frá Sjónaukar.is styrkir þú starfsemi Stjörnufræðivefsins og Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Um leið styrkir þú stærsta vísindamiðlunarverkefni sem ráðist hefur verið í Íslandi. Gerist það betra?
p.s. Við verðum með kynningu á stjörnusjónaukum hjá verslun A4 á Smáratorgi á laugardaginn milli 15 og 17 og kannski aftur um kvöldið ef veður leyfir. Þá er öllum boðið í stjörnuskoðun!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2009 | 15:31
Breytingar á forsíðu mbl.is
Ég verð að viðurkenna umtalsverð vonbrigði með umfjöllun íslenskra vefmiðla um tækni og vísindi. Fréttir birtast alltof sjaldan og þær fáu sem birtast fá litla sem enga athygli. Fréttamennirnir á mbl.is geta alveg skrifað fínar vísinda- og tæknifréttir, en ég skil aftur mjög vel að það sé letjandi þegar sífellt er verið að hrauna yfir þær fáu fréttir sem birtast. Það er lítið mál að senda uppbyggilegar athugasemdir á netfrett@mbl.is. Í þeim fáu skiptum sem ég hef gert það hafa fréttirnar undantekningalaust verið lagfærðar.
Nú sé ég að búið er að breyta forsíðu mbl.is til hins verra, að mínu mati. Búið er að færa dálkinn "Tækni og vísindi" neðst á síðuna, undir slúðurdálknum og "Matur og vín". Meira að segja stjörnuspáin er á meira áberandi stað. Búið er að setja afþreyingarmyndskeið inn á staðinn þar sem Tækni og vísindi voru og í dag er það klósetthúmor sem á að trekkja að.
Ég heyrði það fyrir stuttu að Vísir.is væri kominn upp fyrir mbl.is í heimsóknum. Kannski þetta sé afleiðing þess. Vísir.is hefur hingað til ekki þótt jafn traustur vefur og mbl.is. Er þetta merki um uppgjöf og áhugaleysi mbl.is á vísindafréttum? Mér finnst hreinlega að fréttavefur sem ætlar að taka sig alvarlega eigi að halda slúðurfréttum í lágmarki og hafa þær neðst á síðunni og sleppa algjörlega "fyndum" myndskeiðum. Er mbl.is afþreyingarvefur eða fréttavefur? Þeir verða eiginlega að gera það upp við sig.
---
Nýjustu Vísindaþættirnir eru komnir á vefinn. Í þar síðustu viku ræddum við Björn Berg um slæm og góð vísindi í kvikmyndum og í síðustu viku ræddi Björn við Örn Arnaldsson stærðfræðing um stærðfræði. Í gær spjölluðum við Björn svo við Jón Ólafsson prófessor í haffræði við HÍ um súrnun sjávar og breytingar sem orðið hafa á hafinu. Þættirnir eru að sjálfsögðu á Stjörnufræðivefnum.
---
Þetta er leiðinlegasta bloggfærsla sem ég hef skrifað. Tilefnið er ærið. Skrifa um eitthvað meira hressandi á morgun eða föstudaginn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.12.2009 | 16:59
Eldtungur Logaþokunnar
Nú í desember vígði Stjörnustöð Evrópu á suðurhveli (ESO) nýjan sjónauka í Paranal í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile. Aðstæður þar til stjörnuathugana eru meðal hinna bestu í heiminum. Það skildi því engan undra að stjörnufræðingar reisi þar stærstu stjörnusjónauka jarðar.
Umræddur sjónauki nefnist VISTA sem stendur fyrir Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy. Líkt og nafnið bendir til er sjónaukanum ætlað að kortleggja himinninn í innrauðu ljósi. Spegill hans er 4,1 metrar og svo nákvæmlega slípaður að minnstu ójöfnur á honum eru aðeins nokkrir þúsundustu hlutar af breidd mannshárs! VISTA er stærsti sjónauki sinnar tegundar í heiminum.
Myndavél sjónaukans er engin smásmíði heldur. Hún vegur þrjú tonn og er útbúin sextán innrauðum ljósnemum sem saman mynda eina 67 megapixla myndavél. Sjónsvið sjónaukans er sérstaklega vítt og þekur ein ljósmynd frá honum tífalt stærra svæði á himninum en fullt tungl.
VISTA gerir einkum athuganir á innrauðu ljósi, þ.e. rafsegulgeislun með lengri bylgjulengd en við sjáum með berum augum. Þannig getur sjónaukinn séð fyrirbæri sem falin eru á bak við þykk rykský í Vetrarbrautinni okkar eða ljós frá heitum og ungum stjörnum í fjarlægum vetrarbrautum, sem upphaflega lagði af stað sem útfjólublátt eða sýnilegt ljós, en hefur, vegna útþenslu alheimsins, færst yfir á innrauða svið rafsegulrófsins.
Í desember birtist fyrsta myndin frá VISTA og er hún sérstaklega glæsileg. Á henni sést stjörnumyndunarsvæði í stjörnumerkinu Óríon sem kallast Logaþokan (NGC 2024). Í sýnilegu ljósi er þetta svæði þakið þykku ógegnsæju rykskýi. VISTA tekst að svipta hulunni af rykslæðunum og sýnir fjölda þyrpinga heitra og ungra stjarna innan skýsins. Skammt sunnan við eldtungur Logaþokunnar er endurskinsþokan NGC 2023 og þar undir glittir í Riddaraþokuna frægu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.12.2009 | 16:24
Stjörnuáhugamenn telja stjörnur!
Stjörnuáhugamenn hafa í seinni tíð tekið upp á því að nota fjölda stjarna sem sjást á himninum sem mælikvarða á ljósmengun. Hugmyndin er einföld: Því færri stjörnur sem sjást á heiðum himni - þeim mun meiri er ljósmengunin. Mæling af þessu tagi er ekki nákvæm (t.d. er sjón fólks misjöfn) en gefur engu að síður vísbendingu um hve ljósmengunin er mikil.
Ég er mjög hrifinn af þessari aðferðafræði. Þótt hún sé ekki hávísindaleg þá gefur hún kost á samanburði á milli staða og grófa hugmynd um áhrif ljósmengungar. Auk þess fer fólk út úr húsi að skoða sem er alltaf jákvætt! Loks minnir þetta okkur á að þótt aðstæður séu ólíkar og margt sem skapi sundrungu í heiminum þá búum við öll undir sama stjörnuhimninum sem er þess virði að passa vel upp á.
Það er í raun ekki alveg satt að fólk eigi að telja stjörnurnar heldur á það að reyna að sjá hvaða myndir af stjörnumerkjum eins og Svaninum eða Óríoni passa við himininn (sjá dæmi að neðan). Þeir sem reyndari eru geta svo notað stjörnukort til þess að finna daufustu stjörnuna sem sést. Birtustig daufustu stjörnunnar nefnist birtumark. Það er til marks um dimman himinn ef birtumarkið er hátt!
Svona gætu Svanurinn og Sumarþríhyrningurinn litið út á himninum yfir Krýsuvík þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stefnir að því að reisa stjörnustöð í framtíðinni. Kortið er úr forritinu SkyChart sem er til í íslenskri þýðingu.
Svona gætu sömu stjörnumerki litið út yfir miðbæ Reykjavíkur ef marka má athuganir mínar í síðustu viku.
Sláandi munur, ekki satt?
Tvær alþjóðlegar stjörnutalningar
Á hverju ári fara fram tvær alþjóðlegar stjörnutalningar þar sem safnað er saman niðurstöðum úr stjörnutalningum áhugamanna hvaðanæva að úr heiminum. Þær nefnast Globe at Night og World Wide Star Count. Miðast talningartímabilið við fáeinar vikur að hausti eða vori þar sem reynt er að drífa sem flesta út að telja.
Ekki hefur verið mikið gert af þessu hér á landi en vonandi verður breyting á því á næstu misserum. Í World Wide Star Count í október 2009 barst ein mæling frá Íslandi, nánar tiltekið frá þessum áhugamanni sem býr á Þingeyri. Stjörnuhiminninn þar er öllu skemmtilegri en í bænum enda ljósmengunin margfalt minni. Ég veit til þess að fleiri hefðu viljað taka þátt hér á Íslandi en í október var mikil rigningartíð og því sást lítið til stjarna.
Þrjár mælingar bárust frá íslenskum áhugamönnum í alþjóðlegri stjörnutalningu í október. Ég framkvæmdi tvær athuganir í Kanada og einn íslenskur áhugamaður skoðaði himininn yfir Þingeyri.
Ég sendi inn tvær athuganir mínar frá Edmonton í Kanada. Önnur þeirra var mat á fjölda stjarna í stjörnufræðiferð fyrir utan borgina (hér er blogg um hana). Hin mælingin var á himninum yfir miðborg Edmonton. Birtustig daufustu stjarnananna var svipað og yfir miðborg Reykjavíkur. Þó búa um 800 þúsund manns í Edmonton en aðeins 200 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Hér er greinilega þörf á að bæta úr!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)