Falleg samstaða tunglsins og Júpíters á sunnudagskvöld

Á mánudagskvöldið verður falleg samstaða tunglsins og Júpíters á kvöldhimninum í suðvestri:

tunglid_jupiter_1701010.jpg

Kvöldi síðar verður tunglið rétt fyrir ofan Júpíter. 

Stjörnuhiminninn er oft á tíðum augnakonfekt. Um að gera að njóta sýningarinnar sem náttúran setur á svið.


Hubble 3D - Vísindaþátturinn

Ó mæ ó mæ hvað ég get ekki beðið eftir því að sjá þessa mynd: Hubble 3D. IMAX þrívíddarmynd um síðasta viðgerðarleiðangurinn til Hubble. Vá, það verður sjónarspil.

Slæmi stjörnufræðingurinn benti á að búið er að birta kynninguna á myndinni. Skoðaðu það, helst í 1080p háskerpu ef þú hefur tök á að sækja svo stóra skrá.

Kúúúúúúúl!

Ég vildi óska þess að það væri IMAX bíó á Íslandi. 

---

Fjórir síðustu Vísindaþættirnir eru loksins komnir á netið.

Rétt fyrir jól kíkti Anna Sigríður Árnadóttir, nýdoktor í stjarneðlisfræði frá Lundarháskóla í Svíþjóð, til okkar í spjall um doktorsverkefnið sitt sem fjallar um Vetrarbrautina okkar. Viðtalið er að finna hér.

Milli jóla og nýárs fórum við Björn Berg yfir stjörnufræðiárið og þættina okkar á árinu 2009. Ágætt spjall sem finna má hér.

Í fyrsta þætti ársins 2010 minntumst við þess að 400 ár voru liðin frá því að nútíma vísindi urðu til, þegar Galíleó Galílei fann fjögur tungl á sveimi um Júpíter. Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði og vísindasögu stiklaði á stóru um Galíleó og við Björn um tunglin sjálf. Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

Í síðasta þætti mætti líffræðingurinn og bloggarinn Arnar Pálsson til okkar. Við fórum yfir líffræðiárið 2009 og ræddum vítt og breitt um líffræði. Þetta var mjög skemmtilegt spjall sem hægt er að hlýða á hér.


Meira um sólina

Þetta er mjög flott grein hjá Morgunblaðinu! 

Við sem höfum áhuga á stjörnuskoðun höfum svo sannarlega orðið vör við litla virkni í sólinni. Hún kemur t.d. fram í að norðurljós hafa verið með minnsta móti undanfarin tvö ár eða svo. 

Virknin virðist vera að færast aðeins í aukana að undanförnu. Við sjáum það að sólblettir, virk svæði á sólinni, eru farnir að birtast á háum breiddargráðum. Þegar þetta er skrifað er stærðarinnar sólblettahópur á norðurhveli sólar, mörgum sinnum stærri en jörðin okkar:

midi512_blank.gif

Sólblettum fylgir oft aukin staðbundin virkni á sólinni og getur hún brotist út í sólblossa og sólgosi. Ef sólblossi verður varpar sólin talsverðu magni efnis út í geiminn. Ef það stefnir í átt til jarðar megum við eiga von á fallegri norðurljósasýningu.

Sólin er alveg ótrúlega heillandi fyrirbæri. Hún er eina stjarnan í alheiminum sem við getum skoðað í nálægð.

Á Stjörnufræðivefnum er ítarleg grein um sólina.

Við vekjum svo athygli á pistli Kára Helgasonar um starf sitt hjá NASA.


mbl.is Ládeyða í virkni sólar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daglegt líf í NASA

nasa-large.pngMargir hafa spurt mig hvernig það sé að vinna í NASA og er gef ég oftast stutt og ónákvæm svör (eins og "bara fínt"). Ég ákvað því að smella stuttri færlsu um veru mína í NASA Goddard Space Flight Center (GSFC). Ég er sem stendur í framhaldsnámi í stjarneðlisfræði við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum og vinn masters- og doktorsverkefni mitt í samvinnu við vísindamenn í Goddard.  Hérna vinna um tíu þúsund manns við ýmis verkefni á borð við Hubble sjónaukann, SOHO sólarsjónaukann, Swift, WMAP, James Webb sjónaukann o.s.frv. Venjan er að í Goddard fari fram mestöll vinna sem tengist sjónaukum og rannsóknartækjum á braut um jörðina á vegum NASA, meðan vinna við ómönnuð könnunarför (eins og Cassini og Messenger) fer að mestu fram í Kaliforníu í NASA Jet Propulsion Laboratory. Geimferjuáætlunin fer aftur fram enn annars staðar. Maryland-háskóli og NASA GSFC eru bæði staðsett í útjaðri Washington DC og hef ég búið hér síðan 2008.

Þar sem NASA er ríkisrekin stofnun fylgir henni mikil pappírsvinna og skrifstofuumsýsla. Til að mynda tók mig tvo mánuði að fá auðkennisskírteini sem veitir aðgang að gjörsamlega afgirtu Goddard svæðinu. Það eitt að fá tölvuaðgang og lykilorð tók um hálft ár og ég er þegar búinn að gleyma flestum lykilorðunum (já, þau eru nokkur). Öllum lykilorðum þarf síðan að breyta á tveggja mánaða fresti sem hjálpar ekki gleymnum vísindamönnum. Það má segja að þegar ég ákvað að taka að mér rannsóknarverkefni í Goddard vissi ég lítið sem ekkert um ferlið sem því fylgdi. Til að mynda flækir það málin töluvert að vera erlendur ríkisborgari. Sem betur fer er Ísland í náðdsc01123_951722.jpginni og gekk pappírsvinnan nokkuð "greiðlega" fyrir sig. Við erum jú á lista hinna viljugu :-).

Byggingarnar á Goddard svæðinu hafa hvorki að geyma sjálfvirkar stálhurðar né augnskanna, þvert á væntingar margra. Fólk situr í þröngum skrifstofubyggingum í misgóðu ásigkomulagi. Allir stjarneðlisfræðingar í Goddard voru nýlega fluttir undir eitt þak og þar hefur myndast góður andi. Í nýju byggingunni nr. 34 (já, þær eru fleiri en 34!) var mér úthlutað skrifstofu og kom það mér í opna skjöldu að hún er staðsett við hliðina á skrifstofu John Mather, nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði árið 2006. Það eina sem hvetur mann áfram snemma á morgnanna, fyrir utan kaffibolla auðvitað, er að hitta John. Skemmtilegast finnst mér að heimsækja bygginguna þar sem sjónaukum og gervitunglum er raðað saman af verk- og tæknifræðingum í hvítum samfestingum. Þar er til að mynda risavaxinn lofttæmistankur sem var notaður til að prófa Hubble sjónaukann á sínum tíma auk hljóðbylgjuklefa sem sker úr um hvort tækin þrauki eldflaugaskot. Myndin er af lofttæmistanknum.

Ég byrjaði hér sumarið 2009 að vinna að rannsóknum á innrauðu bakgrunnsgeisluninni og hvernig hægt best sé að nema hana með James Webb sjónaukanum. Innrauða bakgrunnsgeislunin er svipað fyrirbæri og Örbylgjukliðurinn en á sér allt aðrar rætur. Hugsanlega kemur þetta daufa innrauða ljós frá fyrstu stjörnunum sem mynduðust í alheiminum sem eru svo fjarlægar að þær hafa aðeins skilið eftir sig daufan bjarma af innrauðu ljósi. James Webb sjónaukanum verður skotið á loft árið 2014 og er þess beðið með mikilli eftirvæntingu að þessi arftaki Hubbles gefi okkur nýja mynd af alheiminum. Myndin að neðan er af undirrituðum með líkani af James Webb sjónaukanum.

NASA ræður í vinnu ótrúlega breiðan hóp fólks, stjörnufræðinga, verkfræðinga, tölvunarfræðinga, jarð- og veðurfræðinga, og marga fleiri. Fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna í samstarfi við NASA þá eru ýmis tækifæri fyrir háskólanema, svo sem sumarskólar, styrkt verkefni og rannsóknarsamvinna. Síðan má  ekki gleyma Evrópsku geimrannsóknarstofnuninni (ESA) sem færist sífellt í aukana.

p1052685_951725.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

-Kári Helgason 


Góðar bloggsíður um vísindi

Á Moggablogginu eru, sem betur fer, þónokkrir sem blogga um vísindi. Hér reynum við að einbeita okkur að stjarnvísindum og stjörnuskoðun. Innan stjarnvísinda flokkast auðvitað stjarneðlisfræði og reikistjörnufræði svo við getum farið um víðan völl. Mig langar til að minnast á nokkur sem við lesum reglulega.

Líffræði

Jarðfræði

Veður- og loftslagsfræði:

Orkumál

Við vildum óska þess að fleiri íslenskir vísindamenn sæju sér fært að blogga um hugðarefni sín. Erlendis er hægt að finna mjög skemmtilegar bloggsíður á ScienceBlogs.com og hjá Discover Magazine. Einn íslenskur vísindamaður bloggar á ScienceBlogs.com. Bloggið hans heitir "Aflfræði katta".

 

Við minnum svo á okkur á Facebook og Twitter.


Stórfurðulegt og listrænt landslag

Ég held að HiRISE sé mitt uppáhald. Myndirnar frá þessari öflugustu myndavél sem send hefur verið út í sólkerfið eru í senn stórfurðulegar og stórglæsilegar. Gott dæmi er þessi mynd hér:

hirise_mars_nordurhvel.jpg

Sjáðu stærri útgáfu hér. Í alvöru! Smelltu til þess að sjá það sem hér verður lýst á eftir.

Hvað í veröldinni er hér um að vera?

Myndin er auðvitað af rauðu reikistjörnunni Mars. Myndin er vísvitandi í fölskum litum til að draga fram smáatriði sem ella sæjust illa eða alls ekki. Á henni sést risasvaxið sandöldusvæði á norðlægum breiddargráðum, á stað sem e.t.v. var á kafi í vatni fyrir milljörðum ára. Á veturnar verður svo kalt á þessum slóðum að koldíoxíðið í lofthjúpnum frýs og þurríslag legst yfir sandöldurnar og bindur ryk í hlíðum sandöldunnar. Með vorinu hækkar sólin á lofti og hitastigið um leið. Við það þurrgufar þurrísinn, rykið losnar úr krumlum hans og fossar niður hlíðarnar. Við það myndast dökku rákirnar í sandölduhlíðunum.

Á myndinni hér fyrir neðan er búið að stækka hluta af svæðinu. Á henni sjást dökku rykrákirnar mjög vel, sitt hvorum meginn sandöldunnar. Á efri hlutanum sést að lítið rykský hefur þyrlast upp við skriðuföllin. 

hirise_smaatridi.jpg

Ef vel er að gáð sjást á myndinni fyrirbæri sem við þekkjum vel í íslenskri náttúru: frosttiglar. Tiglarnir verða til þegar ísinn undir þiðnar. Þegar ísinn frýs þenst hann út, en þegar hann þiðnar dregst hann saman og skilur eftir sig augljóst tiglamynstur.

Mars er alveg ótrúlega heillandi reikistjarna. 

Það er ekkert skrítið þótt ein af myndum HiRISE hafi orðin ein af tíu bestu stjörnuljósmyndum ársins 2009. Árið er rétt nýhafið en strax er kominn sterkur kandídat á listann yfir tíu bestu stjörnuljósmyndir ársin 2010.

Pistillinn birtist fyrst á Stjörnufræðivefnum.


400 ár frá einum áhrifaríkasta viðburði vísindasögunnar

sjonaukar-og-rannsoknir-galileo-martin-kornmesser.jpgFimmtudaginn 7. janúar 2010 verða 400 ár liðin frá einum áhrifaríkasta viðburði mannkyns- og vísindasögunnar.

Að kvöldi hins 7. janúar 1610 beindi ítalski stjörnufræðingurinn Galíleó Galílei sjónauka sínum að Júpíter sem þá var í nautsmerkinu. Með aðeins 30x stækkun sá hann þrjár litlar stjörnur í beinni línu við reikistjörnuna sem hann í fyrstu taldi fastastjörnur. Sú fjórða bættist við innan við viku síðar. Þann 15. janúar var Galíleó orðinn sannfærður um að ekki var um fastastjörnur að ræða heldur tungl sem fylgdu Júpíter á leið hann umhverfis sólina

Galíleó birti niðurstöður athugana sinna í tímamótaritinu Sidereus nuncius eða Sendiboði stjarnanna í mars 1610. Við það öðlaðist Galíleó heimsfrægð. Hann hafði sýnt fram á að fleiri reikistjörnur en jörðin hefði fylgihnetti. Uppgötvunin renndi styrkum stoðum undir sólmiðjukenningu Kópernikusar, sem naut sívaxandi fylgis á þessum tíma.

Nánari upplýsingar er að finna á Stjörnufræðivefnum.

Takk Galíleó!


Eltu okkur á Twitter og finndu okkur á Facebook

Samfélagsvefir eins og Twitter og Facebook eru sniðug apparöt. Persónulega er ég hrifnari af Twitter. Þar finnur maður stuttar færslur og vísanir á efni á vefnum frá þeim sem maður hefur áhuga á að fylgjast með. 

Á Facebook er of mikið kraðak af upplýsingum; upplýsingum sem maður hefur lítinn áhuga á eins og hver er að verða vinur hvers og þess háttar. Það er vissulega hægt að stilla það sem maður vill sjá en af einhverjum ástæðum er erfitt að samþætta "Status update" og "Links" á Facebook. Twitter meiri svona "no nonsense" vefur. 

Við á Stjörnufræðivefnum höfum reynt að tileinka okkur þessa "Web 2.0" samfélagsvefi. Við erum með ljósmyndir frá okkur á Flickr, en mættum vera duglegri við að henda myndum þangað inn. Á YouTube setjum við inn myndskeið frá okkur (þeim mun fjölga á árinu) eða finnum önnur sem við mælum með að kennarar noti við stjörnufræðikennslu. Við vitum að þetta er notað og er það gleðiefni.

Við mælum með að þú eltir okkur á Twitter og finnir okkur á Facebook. Á báða þessa vefi setjum við inn tilkynningar um nýjar fréttir á vefnum, myndskeið sem við mælum með og fleira. Ef eitthvað áhugavert og fallegt er á himninum minnumst við á það þar. Þarna látum við líka vita ef við ætlum að fara eitthvert í stjörnuskoðun. Þá ert þú hjartanlega velkomin með.

----

Það styttist í 400 ára afmæli uppgötvunar Galíleós á fjórum tunglum Júpíters.

----

Annað kvöld ætlar fulltrúi Stjörnufræðivefsins efast á kránni. Fulltrúinn er reyndar bindindismaður en það er annað mál.


Árið 2009...

... var ekki ár kreppu eða Icesave leiðinda. Árið 2009 var alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar og ár Darwins og þróunarkenningarinnar. Er strax farinn að sakna þess. Við gerðum fjölmargt á síðustu tólf mánuðum. Við gáfum út veglegt tímarit (af hverju ertu ekki búin(n) að eignast það?), stóðum fyrir fyrirlestraröð og héldum ljósmyndasýningu

Líffræðingarnir stóðu sig líka vel.

Ekki sér enn fyrir endann á öllu saman. Það besta er handan við hornið. Á vormánuðum munu allir grunn- og framhaldsskólar landsins fá stjörnusjónauka að gjöf frá okkur sem stóðum að stjörnufræðiárinu hér á landi. Við munum skýra betur frá því síðar.

Stjörnufræðivefurinn er bjartsýnn fyrir komandi ár. Við ætlum að fylgja eftir velheppnuðu stjörnufræðiári með krafti. Við munum halda áfram að flytja ykkur fréttir og sýna ykkur gullfallegar ljósmyndir af undrum alheimsins. Við munum standa fyrir námskeiðum í stjörnufræði og stjörnuskoðun. Við munum heimsækja skóla og kenna kennurum og nemendum. Við ætlum að halda áfram að efla vefinn og kynna nýjungar til sögunnar. 

Þú ættir endilega að slást í hóp með okkur

Jörðin næst sólu

Í dag er jörðin næst sólu á braut sinni. Þá í aðeins um 147 milljón km fjarlægð. Þann 6. júlí verður jörðin fjærst sólinni, þá í um 152 milljón km fjarlægð. Munurinn er sáralítill, aðeins 5 milljón km, svo þetta hefur ekki mikil áhrif á hitastigið á jörðinni. Þessi breyting er ekki ástæðan fyrir árstíðaskiptum eins og margir halda.

Mynd fengin héðan.

Sem betur fer er sólin í öruggri fjarlægð frá okkur. Ef þú ætlaðir að fljúga þangað með venjulegri farþegaþotu tæki flugferðin hátt í 30 ár! 


Stjörnukort fyrir Ísland í janúar

Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í janúar (á íslensku að sjálfsögðu!). Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.

Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum

Annars er margt að sjá á næturhimninum í byrjun nýs árs. Veiðimaðurinn Óríon fer fremstur í flokki stjörnumerkjanna en hann er auðþekktur á stjörnunum í beltinu sem eru yfirleitt nefndar Fjósakonurnar. Fyrir neðan Fjósakonurnar er sverð Óríons. Í miðju þess er Sverðþokan sem sést með berum augum og er auðvelt að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka. Sverðþokan er í raun risavaxin stjörnuverksmiðja og hefur Hubblessjónaukinn náð myndum af sólkerfum sem eru að fæðast inni í miðri þokunni.

Óríon 

Reikistjarnan Mars er áberandi á austurhimni þegar líður á kvöld í janúarmánuði og upp úr miðnætti rís Satúrnus upp á himininn með hringa sína sem sjást í litlum stjörnusjónauka.

Meðal annarra viðburða í mánuðinum má nefna loftsteinadrífuna Kvaðrantíta en geislapunktur hennar er efst í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (sést á kortinu sem hægt er að ná í hér fyrir neðan). Þeir ættu að sjást síðdegis þann 3. janúar í norðvestri ef skyggni er gott. Best er að fara út fyrir mestu ljósmengungarsvæðin til þess að njóta þeirra. Erfitt er að spá fyrir fram um fjölda stjörnuhrapa en þau gætu verið á bilinu 20 til 100 á klukkustund við hámarkið í kringum kl. 19.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband