4.2.2010 | 20:57
Fyrirlestur um loftslagsbreytingar
Við megum til með að benda þér á áhugaverða fyrirlestraröð:
Í tilefni af tíu ára afmæli Vísindavefsins verður almenningi boðið á fjóra fyrirlestra um vísindi, fjóra laugardaga í röð.
Fyrirlestrarnir verða í sal 132 í Öskju, klukkan 13:00-14:30.
Annar fyrirlesturinn verður haldinn laugardaginn 6. febrúar. Þá mun Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, flytja erindið Hitnar í kolunum.
Á 19. öld varð vísindamönnum ljóst að geislunaráhrif sumra lofttegunda í lofthjúpi jarðar valda verulegri hlýnun við yfirborð jarðar. Rökrétt afleiðing þess var að losun koldíoxíðs vegna bruna jarðefnaeldsneytis myndi valda hnattrænni hlýnun.
Á síðustu öld varð veruleg hlýnun og athuganir benda til þess að hún sé mikil og skörp í samanburði við loftslagsbreytingar fyrr á öldum. Skýrsla Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar árið 2007 olli nokkrum straumhvörfum í umræðunni, en þar voru dregnar saman mjög afgerandi upplýsingar um loftslagsbreytingar, ástæður þeirra og líklegar afleiðingar ef ekki yrði dregið úr losun.
Síðan skýrslan kom út hafa ítarleg gögn sýnt framhald loftslagsbreytinga og samningaviðræður hafa haldið áfram um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þær viðræður leiddu þó ekki til afdráttarlausrar niðurstöðu í Kaupmannahöfn í desember, en þeim verður haldið áfram á þessu ári. Þetta gerist í moldviðri brigslyrða um svik og pretti og háværri gagnrýni á vísindin. Í fyrirlestrinum verður rætt um stöðuna í loftslagsmálum á nýju ári.
Held að mörgum hér á Moggablogginu veiti ekki af að sækja þennan fyrirlestur.
Halldór hefur að sjálfsögðu heimsótt okkur í Vísindaþáttinn á Útvarpi Sögu. Hér getur þú hlustað á spjallið.
3.2.2010 | 09:27
Smástirnaárekstur, Ragnar Reykás og Avatar
Sólkerfið okkar er dýnamískur staður. Allt er á mikilli og stöðugri hreyfing og stundum verða hnettir í vegi hvors annars.
Þann 6. janúar síðastliðinn urðu bandarískir stjörnufræðingar varir við sérkennilegt fyrirbæri; langa rák sem leit ekki út fyrir að vera hefðbundin halastjarna heldur afleiðing árekstrar tveggja smástirna í 140 milljón km fjarlægð, í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíter. Fyrirbæri þetta hlaut nafnið P/2010 A2
Þann 25. og 29. janúar var Hubblessjónaukanum svo beint á fyrirbærið. Þetta var það sem hann sá:
Kúúúúúúúlllll!!!!
Á þessari mynd eru leifar árekstursins greinilegar. Langi halinn er ryk og grjót úr splundruðu smástirnunum. Sólvindurinn hefur síðan feykt þeim út á við, líkt og hala halastjarna. Á innfelldu myndinni sést að stærsta árekstraleifin er utan rykhjúpsins. Hann er talinn um 140 metra breiður eða á stærð við Laugardalsvöll.
Smástirnin voru óþekkt áður en áreksturinn varð. Árekstrahraðinn var að minnsta kosti 5 km/s sem er fimmfaldur hraði byssukúlu. Á þessum hraða kæmist þú frá Reykjavík til Selfoss á rúmlega tíu sekúndum eða frá Akureyri til Mývatns á tuttugu sekúndum!
Það er engin smávegis hreyfiorka fólgin í slíkum árekstri. Orkan sem losnar við áreksturinn og fer í að splundra hnöttunum er sambærileg við nokkrar kjarnorkusprengjur (veit ekki hversu margar því ég veit ekki massa hnattanna).
Ég veit ekki með þig en mér finnst þetta magnað.
----Efnafræði í daglegu lífi Ragnars Reykáss
Í Vísindaþættinum í gær, þriðjudaginn 2. febrúar, kom Ágúst Kvaran, prófessor í eðlisefnafræði við Háskóla Íslands, í heimsókn til okkar. Ágúst fór í gegnum dag í lífi Ragnars Reykáss. Í þættinum skoðuðum við þá efnafræði sem verður á vegi okkar, allt frá sápu og örbylgjuofni til eldsneytis, fæðu, kertaloga og flugelda. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt spjall og vonandi finnst þér það líka.
----
Stjörnulíffræði Avatar í Íslandi í bítið
Í Íslandi í bítið í morgun ræddi ég við Heimi og Sólveigu um kvikmyndina Avatar með augum stjörnulíffræðinnar. Ég er að vinna að stuttum pistli um vísindin í Avatar sem birtist fyrr en síðar á Stjörnufræðivefnum. Á meðan er hægt að hlýða á spjallið hér (mp3).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2010 | 14:49
Stjörnukort fyrir Ísland í febrúar
Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í febrúar. Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.
Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum
Annars er margt að sjá á næturhimninum í febrúar. Veiðimaðurinn Óríon fer fremstur í flokki stjörnumerkjanna en hann er auðþekktur á stjörnunum í beltinu sem eru yfirleitt nefndar Fjósakonurnar. Stjarnan Betelgás í öxl Óríons myndar Vetrarþríhyrninginn ásamt stjörnunum Síríus og Prókýon. Reikistjarnan Mars skín skært í austri á kvöldin og skömmu fyrir miðnætti rís Satúrnus upp á himininn en hringar hans sjást í litlum stjörnusjónauka.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2010 | 01:28
Stærsta fulla tungl ársins skammt frá Mars
Í kvöld, föstudagskvöld, ætlar næturhiminninn að setja á svið fallega sýningu þar sem tunglið og Mars leika aðalhlutverkin.
Eldsnemma á laugardagsmorguninn verður fullt tungl. Á sama tíma er tunglið líka eins nálægt jörðinni og það kemst. Verður því hér um að ræða stærsta fulla tungl ársins 2010, 14% breiðara og 30% bjartara en önnur full tungl á árinu, samkvæmt SpaceWeather.com. Í kvöld mun tunglið sem sagt líta út fyrir að vera aðeins stærra og bjartara en venjulega.
Mynd: (©) Anthony Ayiomamitis. Sjá hér.
En hvernig stendur á því að tunglið er mislangt frá jörðinni? Jóhannes Kepler áttaði sig á því fyrir næstum 400 árum. Hann komst að því að braut tunglsins um jörðina (og annarra reikistjarna um sólina) er ekki hringur heldur sporaskja. Minnst er fjarlægðin er tunglsins um 363.000 km en mest um 405.000 km. Þessi mismunur á jarðnánd (perigee) og jarðfirð (apogee) tunglsins veldur því að tunglið getur verið misstórt á himninum. Til gamans má geta þess að fyrir næstum 40 árum settu geimfarar fjarlægðarmet í geimnum. Þegar Apollo 13 flaug bak við tunglið í apríl 1970 var tunglið næstum eins langt frá jörðinni og mögulegt er, þá í 400.002 km fjarlægð.
Stórt tungl, aðeins minna tungl
Fullt tungl rís alltaf á sama tíma og sólin sest. Líttu í norð-austurátt við sólsetur í kvöld. Þar skríður tunglið upp á himinninn, risastórt að því er virðist, og appelsínugult. Síðar um kvöldið, þegar tunglið er komið hærra á himinninn, virðist það hafa skroppið aðeins saman og gránað. Hvers vegna?
Það sem þú ert að upplifa er tunglskynvillan svonefnda. Tunglið virðist stærra við sjóndeildarhringinn en það í raun og veru er vegna þess hvernig við skynjum lögun himinhvelfingarinnar. Þú getur sannreynt skynvilluna sjálf(ur) með því að beygja þig og horfa á tunglið á hvolfi. Hvað gerist? Tunglið minnkar. Reistu þig við og tunglið stækkar! Magnað, ekki satt?
Tunglið er alveg jafn stórt við sjóndeildarhringinn og þegar það er hæst á lofti. En hvernig útskýrum við litamuninn? Hvers vegna er tunglið appelsínugult þegar það er lágt á lofti en grátt hátt á lofti? Tunglið endurvarpar því sólarljósi sem á það fellur. Þegar tunglið er lágt á lofti þarf ljósið að ferðast lengri vegalengd í gegnum lofthjúpinn. Við það verður rauði liturinn í ljósinu allsráðandi og tunglið tekur á sig rauðan eða appelsínugulan blæ. Ljósið ferðast skemmri leið þegar tunglið er hátt á lofti og þá er blái liturinn í ljósinu allsráðandi.
Myndin hér fyrir ofan sýnir þetta vel en hún er fengin að láni héðan.
Hver er þessi bjarta stjarna við hliðina á tunglinu?
Glöggir himnarýnarar sjá bjarta appelsínugulleita stjörnu skammt vestan við tunglið. Þetta er enginn annar en stríðgsuðinn Mars örstutt frá býflugunum í krabbanum. Prófaðu að skoða býflugurnar með handsjónauka.
Síðastliðinn miðvikudag voru jörðin og Mars næst hvort öðru á þessu ári. Skildu þá 99 milljón km rauðu reikistjörnuna og móður jörð að. Í dag, föstudag, er Mars beint á móti sólinni frá jörðu séð (í gagnstöðu) og á þeim tímapunkti tekur jörðin fram úr Mars á leið sinni umhverfis sólin.
Jörðin og Mars mætast á ferðalögum sínum umhverfis sólin á rúmlega tveggja ára fresti. Brautirnar eru sporöskjulaga eins og Kepler komst að og þess vegna er fjarlægðin milli þeirra líka breytileg. Minnst getur fjarlægðin verið um 56 milljón km, eins og árið 2003, en mest um 102 milljón km, þegar þær eru næst hvor annarri.
Mynd frá Stjörnufræðivefnum.
Þegar fjarlægðin er minnst sést mest í gegnum sjónauka. Með góðum stjörnusjónauka (helst 114mm eða stærri) sést að Mars er sú reikistjarna sem líkist jörðinni mest. Sjá má pólhettur, ský, rykstorma og dökk- og ljósleit landsvæði.
Mynd: (©) Damian Peach.
Prófaðu að beina stjörnusjónaukanum þínum á Mars. Hann er krefjandi fyrirbæri að skoða og oftast finnst manni maður ekki sjá nokkurn skapaðan hlut á ljósrauðu skífunni sem blasir við í sjónaukanum. Taktu þér tíma og horfðu vel og lengi. Smátt og smátt birtast smáatriði sem þú hefðir aldrei haldið að þú gætir mögulega séð.
Úff, alltof langt. En takk fyrir ef þú nenntir að lesa þetta
Vísindi og fræði | Breytt 9.2.2010 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.1.2010 | 10:01
Kodak moment á Satúrnusi - Stjörnufræði í Íslandi í bítið
Stjörnufræðimynd gærdagsins var einstaklega glæsileg. Gjörðu svo vel!
Á myndinni sjást tvö af rúmlega sextíu þekktum tunglum Satúrnusar, tunglin Títan og Teþýs. Þetta er alvöru ljósmynd, ekkert fótosjoppuð þótt ótrúlegt megi virðast. Cassini geimfarið var í um milljón km fjarlægð frá Títan og tveggja milljón km fjarlægð frá Teþýs þegar myndin var tekin.
Teþýs er ístungl, rétt um 1000 km í þvermál. Yfirborðið er aldrað, alsett gígum. Stærsti gígurinn nefnist Ódysseifur og er hann um 400 km breiður. Væri Reykjavík á syðri gígbarmi hans væri Húsavík á nyrðri.
Myndin af Títan er forvitnileg. Eins og sjá má er yfirborðið hulið þykkum ógegnsæjum lofthjúpi. Ef vel er að gáð sjást efstu lög lofthjúpsins sem örþunn bláleit þokuslæða frammi fyrir kolsvörtum himingeimnum. Virkilega fallegt!
Hægt er að sækja stærri útgáfur hér.
----
Stjörnufræðivefurinn hefur hafið samstarf við Ísland í bítið á Bylgjunni. Næstu miðvikudagsmorgna klukkan 07:20 verður fjallað um stjörnufræði og stjörnuskoðun í þættinum hjá Heimi og Kollu (eða Sólveigu eins og í gær). Ætlunin er að miðla undrum alheimsins til þín á skemmtilegan og fróðlegan hátt sem vonandi skilur eitthvað eftir. Umfjöllunarefnin verða eins víðtæk og unnt er, allt frá vangaveltum um líf í alheimi og leitina að reikistjörnum í öðrum sólkerfum, til vangaveltna um uppruna alls í kringum.
Með þessu erum við að reyna að auka og efla umfjöllun um vísindi í fjölmiðlum.
Í gær ræddi ég, Sævar, við Heimi og Sólveigu um Mars og sérstaklega Marsjeppann Spirit sem situr nú fastur á yfirborðinu. Hægt er að hlýða á spjallið hér.
Í næstu viku ætla ég að fjalla um vísindin í kvikmyndinni Avatar.
----
Það má svo að sjálfsögðu ekki gleyma Vísindaþættinum á Útvarpi Sögu. Á þriðjudaginn ræddum við Björn Berg við Freystein Sigmundsson jarðeðlisfræðing við HÍ um jarðskjálftana á Haítí og jarðhræringar í Eyjafjallajökli og við Upptyppinga. Þátturinn er að sjálfsögðu kominn á vefinn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.1.2010 | 20:56
Nýr og spennandi kafli að hefjast
Þótt ökuferðum Marsjeppans Spirit sé lokið er fjarri því að dagar hans séu taldir. Fyrir næstum ári síðar skrifaði ég pistil um fyrstu fimm árin í lífi Spirit á Mars. Spirit er aldurhniginn þótt hann sé aðeins sex ára gamall. Hann haltrar eftir að tvö af sex hjólum hans biluðu. Hann er útataður í ryki sem veldur því að hann fær ekki eins mikla orku frá sólinni og oft áður.
Spirit hefur dvalið á reikistjörnunni Mars í meira en sex ár, næstum 25 sinnum lengur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Jeppinn lenti í Gusev gígnum á Mars snemma í janúar 2004. Hann hefur síðan ekið um hraunbreiðuna á botni gígsins víðfeðma.
Eftir þriggja mánaða ökuferð, heila þrjá kílómetra, komst jeppinn að Kólumbíuhæðum. Spirit varð fyrsti fjallgöngugarpurinn á Mars þegar hann klöngraðist upp hæðirnar. Á staðnum, þar sem Spirit er nú fastur, datt hann í lukkupottinn. Þar fann Spirit brennisteins- og kísilríkan jarðveg sem allt bendir til að sé veðruð leif af gufuhver. Gufuhver er staður þar sem grunnvatn ofurhitnar þegar það kemst í snertingu við fljótandi kviku. Kannski var á Kólumbíuhæðum staður sem líkist Hveravöllum fyrir næstum 4.000.000.000 árum. Kannski voru þar örverur líka. Hver veit?
Fyrir tíu mánuðum festist Spirit í fínum og dúnmjúkum jarðveginum. Verkfræðingum hefur ekki tekist að losa hann. Myndin hér til hliðar sýnir hjólin föst og tilraunir manna til að aka honum. Nú vinna verkfræðingar að því að stilla jeppanum þannig upp að hann drekki í sig sem mesta sólarorku fyrir veturinn sem brátt gengur í garð á Mars. Veturnir á Mars eru sambærilegir og á jörðinni, enda möndulhalli Mars svipaður og möndulhalli jarðar. En þar sem Mars er lengra frá sólinni en jörðin eru árstíðirnar tvöfalt lengri en á jörðinni.
Spirit er ekki dauður úr öllum æðum. Þótt hann aki ekki lengra á Mars hefst nú nýr og spennandi kafli í rannsóknum hans á reikistjörnunni. Þar sem hann situr fastur má nota hann til að mæla vagg í möndulsnúningi Mars sem getur veitt okkur upplýsingar um hvort kjarni reikistjörnunnar sé fastur eða bráðinn. Það krefst þess að jeppinn sé stöðugt á sama stað. Fylgst verður útvarpsmerkjum með föstum punkti á Mars til þess að reikna út vaggið með nokkurra sentímetra nákvæmni. Einnig verður fylgst með veðurfarinu á staðnum og jarðvegurinn rannsakaður ítarlega.
Sá dagur rennur upp að Marsferðalangur gengur fram á jeppann þar sem hann situr fastur á stað þar sem eitt sinn var hver. Hvaða uppgötvanir gerir ferðalangurinn þegar hann tekur sýni úr jarðveginum sem Spirit uppgötvaði nokkrum áratugum áður?
Ég get ekki beðið.
Á meðan skaltu horfa til himins. Þessa dagana skín Mars stjarna skærast á austurhimni á kvöldin, áberandi appelsínugulleitur. Á morgun, miðvikudaginn 27. janúar, verður minnst fjarlægð milli jarðar og Mars, þá 99 milljón km. Tveimur dögum síðar tekur jörðin fram úr Mars á braut sinni um sólina og fer rauða reikistjarna þá hægt og rólega minnkandi á himninum.
Ef þú átt góðan stjörnusjónauka, helst 114mm eða stærri, skaltu prófa að beina honum á Mars. Þú gætir greint hvíta norðurpólhettuna og dökkleit landsvæði. Spirit er nokkurn veginn við miðbaug reikistjörnunnar.
Þessar glæsilegu myndir tók breski stjörnuljósmyndarinn Damian Peach af Mars nú í upphafi ársins.
Tengt efni á Stjörnufræðivefnum:
![]() |
NASA viðurkennir ósigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.1.2010 | 17:33
Sólin öll að koma til
Undanfarin tvö ár hefur sólin verið einstaklega óvirk. Raunar hefur virknin ekki verið minni í meira en öld. Af þeim sökum hafa fallegar norðurljósasýningar verið óvenju fátíðar.
En svo virðist sem sólin sé öll að koma til. Virknin virðist vera að aukast eins og sjá má á myndunum hér undir:

Myndirnar sýna sólina í dag, 25. janúar. Myndin vinstra megin sýnir sólina nokkurn veginn í sýnilegu ljósi. Á henni sjást tvö sólblettasvæði, annað á norðurhveli en hitt á suðurhveli. Nyrðri hópurinn kallast 1042 en syðri 1041. Báðir hóparnir eru hluti af nýrri sólblettasveiflu og eru myndunarsvæði þeirra í samræmi við það. Við upphaf nýrrar sólblettasveiflu myndast sólblettir fyrst á háum breiddargráðum. Þegar líður á sólblettasveifluna færist myndunarsvæðið nær miðbaug. Þetta sést vel á hinu svonefnda fiðrildalínuriti.
Myndin hægra megin sýnir kórónu sólar. Kórónan er yfir milljón °C heit og geislar þ.a.l. aðallega frá sér orkuríku útfjólubláu ljósi. Á þessari mynd sést 1,5 milljón °C heitt ljós með 530 nanómetra bylgjulengd. Við þennan feykilega hita hafa járnatómin misst 13 af 26 rafeindum sínum. Slík atóm, eða öllu heldur jónir, eru venjulega táknuð Fe13+.
En hvers vegna er virkni sólar svona sveiflukennd? Þann 9. febrúar verður nýjum sólkönnuði skotið út í geiminn, Solar Dynamics Observatory, sem meðal annars á að leita svara við þeirri spurningu. Ljósmyndir verða teknar á tíu bylgjulengdum á tíu sekúndna fresti. Solar Dynamics Observatory á að senda daglega 1,5 terabæt af gögnum sem samsvarar því að maður hlaði niður hálfri milljón laga á degi hverjum. Ljósmyndir geimfarsins af sólinni verða 4096 x 4096 pixlar með tífalt meiri upplausn en háskerpusjónvarpsmyndir, eða sambærileg gæði og maður sér og upplifir í IMAX kvikmyndahúsi. Þannig verður unnt að koma auga á smáatriði á sólinni sem hafa sjaldan eða aldrei sést áður.
Það eru óneitanlega spennandi tímar framundan í rannsóknum á sólinni.
Í sumar munum við veita þér nokkur tækifæri til að skoða þessa nálægustu sólstjörnu í nálægð. Nánar að því næsta sumar.
Ítarefni á Stjörnufræðivefnum
Að lokum minnum við áhugasama á námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun!Vísindi og fræði | Breytt 26.1.2010 kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2010 | 12:24
Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun
Dagana 16. og 17. febrúar næstkomandi munu Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn standa fyrir námskeiði í stjörnufræði og stjörnuskoðun fyrir byrjendur. Námskeiðið er hugsað fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnunum og sérstaklega fyrir þá sem eiga stjörnusjónauka og vilja læra á hann. Eign á sjónauka er samtekkert skilyrði fyrir því að sækja námskeiðið.
Námskeiðið mun standa yfir tvö kvöld en eftir námskeiðið verður boðið upp á stjörnuskoðunarkvöld þar sem þátttakendum gefst kostur á að mæta með eigin sjónauka (ekki skilyrði).
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Síðar í mánuðinum munu félagið og vefurinn bjóða upp á styttri barnanámskeið. Þau verða 27. og 28. febrúar. Nánari upplýsingar um námskeiðin og skráningu er að finna á vefsíðu félagsins.
22.1.2010 | 13:19
Loftsteinn féll í gegnum húsþak
Þetta finnst mér skemmtilegasta frétt vikunnar. (Af einhverjum ástæðum birtist það ekki þegar ég "embedda" það hingað á bloggið.)
Sem betur fer slasaðist enginn þótt loftsteinninn hefði fallið á yfir 300 km hraða á klukkustund í gegnum húsið. Ég væri alveg til í að þetta kæmi fyrir mig. Þá ætti ég alla vega flottan stein og flotta sögu af því hvernig ég komst yfir hann.
----
Mig langar til að vísa á þrjú útvarpsviðtöl við mig í síðustu viku og þessari, ef svo ólíklega vildi til að einhver hafi snefil af áhuga á að hlusta.
- Reykjavík síðdegis - Bylgjan - Fimmtudagur 14. janúar - 15 metra langur óþekktur hlutur sem flaug framhjá jörðinni
- Ísland í bítið - Bylgjan - Fimmtudagur 21. janúar - Myndir HiRISE af Mars
- Harmageddon - X-ið 977 - Fimmtudagur 21. janúar - Sólin og lítil sólvirkni (hefst ca. 16:15)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2010 | 10:06
Listaverk frá Mars
Það hefur örugglega ekki farið framhjá ykkur, sem fylgist með þessu bloggi, að ljósmyndir frá HiRISE myndavélinni í Mars Reconnaissance Orbiter geimfarinu eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. HiRISE er 0,5 metra breiður sjónauki með stórri CCD myndavél sem gefur 0,3 metra upplausn úr 300 km hæð. Til samanburðar eru gervihnattamyndirnar í Google Earth með 1 metra upplausn úr sambærilegri hæð.
Ein ljósmynd frá HiRISE er 20.000 x 126.000 pixlar eða 2520 megapixlar. Hvað er myndavélin þín margra pixla? Óþjöppuð ljósmynd frá HiRISE er 28 Gb.
Á Stjörnufræðivefnum hef ég tekið saman tuttugu af mínum uppáhalds myndum frá HiRISE. Þessar myndir eru sannkölluð listaverk.
- Listaverk frá Mars - tuttugu ljósmyndir frá HiRISE af yfirborði rauðu reikistjörnunnar -
Njóttu vel og vandlega. Og gerðu okkur þann góða greiða að dreifa þessu sem víðast, hvort sem er með því að senda slóðina í tölvupósti eða setja á Facebook. Þessar myndir eru svo magnaðar að sem flestir ættu að njóta þeirra.