25.2.2010 | 14:43
Fjör á safnanótt og byrjendanámskeiði
Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn stóðu fyrir uppákomu á safnanótt í Listasafni Reykjavíkur. Sjö sjálfboðaliðar stóðu vaktina og buðu fólki m.a. í stjörnuskoðun innanhúss, að upplifa hverfitregðu á snúningsdiski og að halda á 4,5 milljarða ára gömlum loftsteinum! Gestir spurðu alls konar spurninga og nokkrir keyptu tímarit félagsins og DVD diskinn Horft til himins. Það var líka gaman að sjá nokkra félaga í Stjörnuskoðunarfélaginu sem kíktu við í Hafnarhúsinu.
Hægt er að sjá fleiri myndir frá safnanóttinni og byrjendanámskeiðinu á Stjörnufræðivefnum.
-Sverrir
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2010 | 23:17
Skrítin frétt - örfáar athugasemdir
**Uppfært** Fréttin hefur nú verið leiðrétt. Mbl.is fær hrós fyrir það. Þeir tengja líka á Stjörnufræðivefinn og fá sko feitan plús fyrir það. Þessi viðbrögð eru til fyrirmyndar.
Nú ætla ég að vera pínu leiðinlegur við mbl.is. Þeir hafa staðið sig ágætlega í vísindaumfjöllun að undanförnu, en þessa frétt hefði mátt lesa yfir að minnsta kosti einu sinni áður en hún var birt. Vona að þessi bloggfærsla verði til þess að þetta verði lagfært.
Til að byrja með verð ég að gera athugasemd við fyrirsögnina: "Stjarna étur upp fylgihnött." Hér er augljóslega um beina þýðingu að ræða og orðinu "upp" ofaukið. Hefði frekar haft þetta: "Stjarna étur fylgihnött sinn", eða eitthvað í þá áttina.
Svo kemur þessi málsgrein:
Það tekur WASP-12b sem er stödd í stjörnuþokunni Aurica um 26 tíma að fara hringinn í kringum WASP-12. Stjarnan sjálf, sem var uppgötvuð á síðasta ári, er einn gasmassi, um 40% þyngri en stærsta reikistjarna okkar sólkerfis, Júpíter, og með nær 80% stærri radíus.
Það er ekki til nein stjörnuþoka sem heitir Aurica. Hér er örugglega átt við stjörnumerkið "Auriga" sem heitir Ökumaðurinn á íslensku, eins og sjá má á lista yfir stjörnumerkin á Stjörnufræðivefnum. Skilja má seinni setninguna sem svo að stjarnan WASP-12 hafi fundist á síðasta ári, þegar hið rétta er að reikistjarnan WASP-12b fannst við sólstjörnuna WASP-12 árið 2008. Sólstjarnan sjálf, WASP-12, hefur verið þekkt lengi. Hún er ekki ósvipuð sólinni okkar.
Ég veit svo ekki hvað átt er við með "einn gasmassi, um 40% þyngri en stærsta reikistjarna okkar sólkerfisins, Júpíter, og með nær 80% stærri radíus". Líklega hefði ég orðað þetta svona: "Reikistjarnan, sem fannst árið 2008, er 40% massameiri en Júpíter, stærsta reikistjarna sólkerfisins, og hefur nærri 80% sinnum stærri radíus."
Höldum áfram. Í fréttinni segir líka:
Þó það taki Júpíter nær tólf ár að hringa sólina skýst WASP-12b á tólf tímum í kringum WASP-12 og er því einstaklega nálægt henni. Aðdráttarafl stjörnunnar er hins vegar það mikið að það er farið að að éta upp fylgihnöttinn með því að draga af því gaslög sem stjarnan bætir svo við sig.
Nart WASP-12 er farið að taka sjáanlegan toll á fylgihnettinum sem er ekki lengur hnöttóttur heldur egglaga og líkist nú helst amerískum fótbolta. Fylgst er með stjörnunum frá stjörnuathugunarstöð Peking háskóla í Kína.
Hér er í fyrsta lagi rangt farið með umferðartíma WASP-12b. Hún er rétt rúmlega 26 klukkustundir að snúast umhverfis sólina sína, eins og reyndar er tekið fram fyrr í fréttinni.
Heppilegra orðalag væri t.d.:
Wasp-12b er rétt rúmlega 26 klukkustundir að snúast umhverfis WASP-12, en til samanburðar er Júpíter nærri tólf ár að ljúka einni hringferð um sólina okkar. Smám saman dregur stjarnan reikistjörnuna í sig vegna nálægðarinnar. Er nú svo komið að hún er ekki lengur hnattlaga heldur líkist einna mest eggi eða amerískum fótbolta.
Ég vona að hér sé einfaldlega um að ræða fljótfærni, að eftir átti að lesa fréttina yfir áður en hún var birt. Hér undir er skjáskot af fréttinni, bara svo þessu sé haldið til haga ef (þegar) þetta verður lagfært.
- Sævar
![]() |
Stjarna étur fylgihnött |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 26.2.2010 kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
21.2.2010 | 12:19
Krakkanámskeið um næstu helgi
Um næstu helgi standa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn fyrir námskeiði fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.
Fyrra námskeiðið fyrir börn á aldrinum 6-9 ára verður haldið laugardaginn 27. feb. kl. 13:30-16:00. Það síðara, sem er fyrir börn á aldrinum 10-12 ára, verður haldið sunnudaginn 28. febr. kl. 11:30-14:00. Farið verður í stjörnuskoðun eftir námskeiðið þegar veður leyfir.
Við höfum lækkað verðið á námskeiðinu frá fyrra ári og nú kostar það 6.000 kr. fyrir eitt barn og einn fullorðinn sem við vonum að sé frekar sanngjarnt verð.
Skráning á námskeiðið fer fram á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og þar er einnig að finna frekari upplýsingar um námskeiðið og félagið.
Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!
-Sverrir
18.2.2010 | 17:30
Hvað eru sólblettir?
Ítarlegar upplýsingar um sólina og sólbletti er að finna á Stjörnufræðivefnum.
Mbl.is hefur staðið sig nokkuð vel að undanförnu í vísindafréttum. Vonandi heldur það áfram. Hér hefði ég viljað sjá útskýringu á því hvað sólblettir eru. Sólblettir eru virk svæði á sólinni þar sem sterkt staðbundið segulsvið hindrar uppstreymi heitara efnis. Við það kólnar svæðið staðbundið og birtist hitastigsmunurinn sem birtumunur. Þess vegna eru sólblettirnir dökkir á að líta. Gasið í sólbletti er rétt yfir 4000°C, samanborið við tæplega 5600°C hitastig ljóshvolfsins í kring. Dæmigerðir sólblettir eru oftast miklu stærri en jörðin okkar, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.
Breytilegur fjöldi sólbletta = 11 ára sólblettasveifla
Fjöldi sólbletta er breytilegur á ellefu ára tímabili sem kallast sólblettasveifla. Þegar sólblettasveiflan er í lágmarki eru sárafáir eða jafnvel engir sólblettir á sólinni svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Þegar sólblettasveiflan nær hámarki á ný getur sólin orðið óhemju virk og margir sólblettahópar myndast. Svo virðist sem sólin hafi verið í óvenju djúpu lágmarki undanfarin ár sem olli því meðal annars að tilkomumikil norðurljós hafa sést mun sjaldnar en fólk á að venjast. Búist er við því að næsta sólblettahámark verði árið 2013. Myndin hér undir spannar eina sólblettasveiflu. Eins og sjá má eykst virknin jafnt og þétt uns hún nær hámarki árið 2001 og nær svo aftur lágmarki nokkrum árum síðar. Nýverið skaut NASA á loft geimfari sem á að varpa ljósi á sólblettasveiflun, Solar Dynamics Observatory.
Glæsileg norðurljós að undanförnu
Aukin sólvirkni birtist okkur Íslendingum helst í glæsilegri norðurljósum. Á þriðjudagskvöldið kom lítið en fallegt norðurljósaskot rétt fyrir klukkan ellefu að kvöldi. Sýningin var þá mjög glæsileg og sennilega með þeim glæsilegri sem ég hef séð í langan tíma. Dagana á undan hafði kórónugeil verið á sólinni og út úr henni streymdu hlaðnar agnir frá sólinni sem síðan rákust á sameindir í lofthjúpi jarðar og mynduðu við það norðurljósin.
Á þriðjudagskvöldið stóðum við fyrir námskeiði í stjörnuskoðun og urðu þátttakendur því vitni af þessu sjónarspili. Næsta námskeið er krakkanámskeið helgina 27. og 28. febrúar næstkomandi.
Hver veit nema við skoðum sólina á krakkanámskeiðinu!
Ítarefni:
- Sævar
![]() |
Sólvirkni tekin að aukast á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.2.2010 | 07:41
The Big Bang Theory
Þú hélst kannski að við ætluðum að fjalla aðeins um Miklahvellskenninguna. Ekki núna, en seinna.
Sjónvarpsþátturinn The Big Bang Theory er mikil snilld og einn allra besti gamanþátturinn í dag (fyrir utan Curb Your Enthusiasm, hann er bestur). Í The Big Bang Theory segir frá fjórum hámenntuðum vinum, tveimur eðlisfræðingum, stjarneðlisfræðingi og verkfræðingi (sem er reyndar bara með meistaragráðu) sem starfa við Caltech í Pasadena og vinkonu þeirra sem er upprennandi leikkona og starfar á The Cheese Cake Factory. Persónurnar eru að sjálfsögðu algjörar stereótýpur af vísindamönnum, en stórskemmtilegar engu að síður.
Í þættinum eru fjölmargar tilvísanir í stjörnufræðina. Á heimili þeirra Sheldons og Leonards eru myndir á veggjum af nokkrum þekktum fyrirbærum í stjörnufræðinni, t.d. gormþokunni, Svelgnum, Sverðþokunni og Arnarþokunni. Að sjálfsögðu eiga þeir stjörnusjónauka og á hillunni í stofunni er hnattlíkan af örbylgjukliðnum. Ó mæ hvað mig langar í það hnattlíkan.
Greinilegt er að handritshöfundarnir fá hjálp frá vísindamönnum því í þáttunum er stundum minnst á nýjustu rannsóknir og uppgötvanir. Að minnsta kosti einu sinni hefur nóbelsverðlaunahafi komið fram - George Smoot sem hlaut eðlisfræðinóbelinn fyrir uppgötvanir á örbylgjukliðnum ásamt John Mather. Þetta er eitt af því sem gerir þættina svona skemmtilega. Í þeim eru fjölmargir "faldir" brandarar sem maður fattar ekki nema maður hafi einhverja þekkingu á vísindunum.
Hér er að finna eina frábæra senu úr einum þætti. Þessar næstum níu mínútur eru eintóm hamingja.
Allar persónurnar eru á Twitter og setja oft á tíðum inn skemmtilegar færslur. Stjörnufræðivefurinn fylgist að sjálfsögðu með þeim á Twitter.
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2010 | 19:55
Helstirnið heimsótt
Umhverfis Satúrnus gengur ístungl sem líkist einna helst Helstirninu úr Stjörnustríðsmyndunum. Tunglið heitir Mímas og er næstum 400 km í þvermál (á stærð við Ísland). Um nýliðna þaut Cassini geimfarið framhjá Helstirninu í rétt innan við 16.000 km fjarlægð. Og útsýnið var stórfenglegt!
Gígurinn sem gefur Mímasi þetta kvikmyndalega yfirbragð nefnist Herschel. Hann er 130 km í þvermál. Væri syðri gígbrún hans í Reykjavík væri sú nyrðri við Seljalandsfoss í Eyjafjöllum. Í miðju gígsins er fjallstindur sem myndaðist við áreksturinn þegar efni skvettist upp á við og féll aftur niður, eins og vatnsdropi sem fellur ofan í vatn. Þessi fjallstindur rís 6 km upp úr gígbotninum. Gígbarmarnir sjálfir eru um 5 km háir. Þú getur skoðað góða nærmynd af gígbotninum hér.
Helstirnið var vopnið sem tryggja átti Veldinu yfirráð í Vetrarbrautinni. Ætli dauðageislinn sé ekki falinn undir fjallstindinum? Ætli hringar Satúrnusar séu ekki bara leifar þeirra hnatta sem Helstirnið hefur tortímt?
Þú getur skoðað fleiri myndir frá þessu framhjáflugi Cassinis á Stjörnufræðivefnum.
Minni svo að lokum á stórskemmtilegt krakkanámskeið í stjörnufræði 27. og 28. febrúar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2010 | 12:32
Stjörnuskoðunarfélagið á Safnanótt

Á Safnanótt ætlum við að skýra út fyrir fólki á leikrænan hátt hvers vegna tunglið vex og dvínar, hvers vegna við sjáum aðeins aðra hlið þess og hvernig gígarnir á tunglinu verða til svo fátt eitt sé nefnt. Vel getur verið að fólk fái tækifæri til að snúast eins og nifteindastjörnur, reyndar aðeins hægar, en markmiðið þar er að útskýra hvers vegna þessar sprengistjörnuleifar snúast jafn hratt og raun ber vitni. Ef veður leyfir munum við reyna að líta til stjarna.
Við lofum skemmtilegri dagskrá í Listasafni Reykjavíkur á föstudagskvöld. Dagskráin hefst klukkan 19:30 og stendur til 22:30 eða svo. Allir eru að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir. Í leiðinni gefst gott tækifæri til að skoða mjög flotta sýningu á verkum Errós á geimförum.
10.2.2010 | 07:59
Samlífi með sólinni
**Uppfært kl. 17:00** Fresta varð geimskotinu fram til morguns vegna óhagstæðra veðurskilyrða.
Á morgun Í dag (kl. 15:26 að íslenskum tíma) sendir NASA á loft nýtt gervitungl sem rannsaka á sólina með nákvæmari hætti en nokkurn tímann áður. Gervitunglið heitir Solar Dynamics Observatory og er fyrsti leiðangurinn í "Living with a Star" verkefni NASA sem snýst um rannsóknir á áhrifum sólar á jörðina.
Geimskotið verður að sjálfsögðu sýnt í beinni útsendingu hjá NASA.
Solar Dynamics rannsóknarstöðin á jarðsnúningsbundinni braut yfir Nýju-Mexíkó, ólíkt öðrum sólkönnunarförum á borð við SOHO og STEREO sem eru milli jarðar og sólar. Þetta er vegna þess að SDO sendir daglega 1,5 terabætum af gögnum til jarðar eða stöðugt 16 mb á sekúndu, sem er talsvert meira gagnaflæði en í hefðbundinni internettengingu. Á einu ári aflar SDO því hálfu petabæti af gögnum! Þetta gagnamagn samsvarar því að maður hlaði niður 500.000 lögum á hverjum degi.
SDO sér sólina skarpar en nokkurt annað geimfar. Ljósmyndir geimfarsins af sólinni verða 4096 x 4096 pixlar eða með tífalt meiri upplausn en 1080p háskerpusjónvarpsmyndir. Þetta eru sambærileg gæði og maður sér og upplifir í IMAX kvikmyndahúsi. SDO mun þ.a.l. sýna okkur smáatriði á sólinni sem hafa sjaldan eða aldrei sést áður.
Fylgst með geimveðrinu
SDO á að fylgjast með því hvernig segulsvið sólar myndast, hvernig það er uppbyggt og hlutverki þess í orkuríkum atburðum á sólinni eins og sólvindinum, sólblossum og kórónuskvettum. Sólvindurinn er stöðugur straumur rafhlaðinna agna sem streyma frá sólinni og út í sólkerfið. Sólblossar eru öflugar sprengingar á sólinni sem þeyta miklu magni efnis út í geiminn. Kórónuskvettur eru enn öflugri sprengingar í kórónu sólar sem þeyta milljörðum tonna af efni út í geiminn á milljóna km hraða á klukkustund. Saman mynda öll þessi fyrirbæri geimveður. Með því að öðlast betri skilning á sólvirkninni getum við lært að spá fyrir um geimveðrið.
En hvers vegna er mikilvægt að geta spáð fyrir um geimveðrið? Ofsafengið geimveður getur valdið geimförum lífshættu og skapað hættu um borð í flugvélum á sveimi yfir pólsvæðum jarðar. Fjarskiptakerfi, samskiptatungl og GPS-gervitungl og rafmagnskerfi á heimilum okkar geta orðið fyrir miklum skakkaföllum í kjölfar storma á sólinni.
Ég get ekki beðið eftir því að sjá fyrstu myndirnar frá geimfarinu. Þetta er SOHO á sterum og ég á því von á einhverju mögnuðu!
Ég fjallaði stuttlega um leiðangurinn í Vísindaþættinum á Útvarpi Sögu í gær og í Íslandi í bítið í morgun (mp3).
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2010 | 14:36
Geimfarar tísta á Twitter utan úr geimnum
Fyrir skömmu fengu geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni loksins internettengingu. Nú geta geimfararnir sem sagt vafrað á netinu í 300 km hæð yfir jörðinni. Geri aðrir betur. NASA og geimfararnir hafa fært sér þetta í nyt með því að tísta á Twitter utan úr geimnum. Geimfararnir hafa t.a.m. tekið ljósmyndir af jörðinni og sett þær inn á TwitPic. Hér er ein þeirra af Pico de Orizaba, hæsta fjalli Mexíkó:
Hér getur þú fylgst með því sem geimfararnir eru að segja á Twitter.
Svo máttu líka fylgjast með okkur á Twitter.
5.2.2010 | 12:51
Stórmerkileg kort af Plútó
Ítarlegar upplýsingar um Plútó er að finna hér.
Plútó er óhemju fjarlægur og agnarsmár. Hann er þess vegna meðal erfiðustu hnatta sólkerfisins að ljósmynda. Nýju kortin eru endurunnar ljósmyndir Hubble geimsjónaukans frá árunum 2002 og 2003. Þegar þau eru borin saman við eldri kort, sem gerð voru árið 1994, sést að yfirborð Plútós hefur breyst umtalsvert og ört. Þetta eru stórmerkar niðurstöður.
Samanburður á kortinu 1994 og 2002-3 af Plútó
Mynd: NASA/ESA/M. Buie (SwRI)/Emily Lakdawalla
En hversu nákvæm eru þessi nýju kort? Kortin líkjast mjög því hvernig við greinum tunglið okkar með berum augum frá jörðinni. Með berum augum sjáum við dökk og ljós svæði á tunglinu en greinum engin smáatriði í landslaginu. Nýju kortin eru of ónákvæm til þess að við getum áttað okkur á jarðfræði Plútós en nógu nákvæm til að sýna okkur að dvergreikistjarnan er dílóttur hnöttur með ljósu, dökk-appelsíngulu og biksvörtu landslagi.
Loftslagsbreytingar á Plútó
Lofthjúpur Plútós er örþunnur, en við yfirborðið er loftþrýstingurinn 100.000 sinnum minni en við sjávarmál á jörðinni. Þú fyndir því ekki fyrir því þegar stormur geysaði Plútó.
Athuganir af jörðu niðri sýna líka að massi lofthjúpsins hefur tvöfaldast frá árinu 1988, vegna hlýnunar. Þegar hlýnar á Plútó þurrgufar ísinn af yfirborðinu svo lofthjúpurinn þykknar. Þurrgufunin er líkleg ástæða fyrir þessum breytingum á yfirborðinu. En hvers vegna hefur hlýnað?
Braut Plútós um sólina er mjög sporöskjulaga og hallar meira en brautir reikistjarnanna í sólkerfinu. Brautin er svo sporöskjulaga að um 20 ára skeið af 248 ára löngu ferðalagi sínu umhverfis sólina er Plútó nær sólu en Neptúnus. Seinast fór Plútó inn fyrir braut Neptúnusar 21. janúar 1979 og var næst sólu 5. september 1989. Tæplega tíu árum síðar eða 11. febrúar 1999 fór Plútó aftur út fyrir braut Neptúnusar.
Hlýnunin og loftslagsbreytingarnar á Plútó má rekja til þessa, þ.e. að Plútó var nær sólinni en venjulega.
Betri kort árið 2015Nýju kortin eru hin nákvæmustu sem við höfum af Plútó þar til New Horizons geimfar NASA flýgur framhjá honum og tunglunum Karon, Nix og Hýdra árið 2015. Nýju kortin eru vísindamönnum, sem starfa við þennan leiðangur, ómetanleg. Með þeim er hægt að skipuleggja framhjáflug geimfarsins árið 2015. New Horizons ferðast svo hratt framhjá Plútó að aðeins önnur hlið hans verður ljósmynduð í mestu mögulegu upplausn, svo mikilvægt er að velja hvor hliðin er áhugaverðari.
Með kortunum geta vísindamenn líka reiknað út réttan lýsingartíma fyrir ljósmyndirnar. Við framhjáflugið verður New Horizons svo langt frá jörðinni að það tekur skilaboð frá geimfarinu næstum sex klukkustundir að berast til jarðar. Þess vegna er ómögulegt að ljósmynda sömu svæði tvisvar, ef svo óheppilega vildi til að fyrri myndin misheppnaðist. Þess vegna er mikilvægt ljósmyndir geimfarsins verði hvorki undir- eða yfirlýstar.
Hvað skildi leynast á yfirborði Plútós? Ég get ekki beðið eftir því að New Horizons fljúgi þarna framhjá.
- Sævar
![]() |
Plútó roðnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)