Helstirnið heimsótt

Umhverfis Satúrnus gengur ístungl sem líkist einna helst Helstirninu úr Stjörnustríðsmyndunum. Tunglið heitir Mímas og er næstum 400 km í þvermál (á stærð við Ísland). Um nýliðna þaut Cassini geimfarið framhjá Helstirninu í rétt innan við 16.000 km fjarlægð. Og útsýnið var stórfenglegt!

mimas_cassini_961515.jpg

Gígurinn sem gefur Mímasi þetta kvikmyndalega yfirbragð nefnist Herschel. Hann er 130 km í þvermál. Væri syðri gígbrún hans í Reykjavík væri sú nyrðri við Seljalandsfoss í Eyjafjöllum. Í miðju gígsins er fjallstindur sem myndaðist við áreksturinn þegar efni skvettist upp á við og féll aftur niður, eins og vatnsdropi sem fellur ofan í vatn. Þessi fjallstindur rís 6 km upp úr gígbotninum. Gígbarmarnir sjálfir eru um 5 km háir. Þú getur skoðað góða nærmynd af gígbotninum hér.

Helstirnið var vopnið sem tryggja átti Veldinu yfirráð í Vetrarbrautinni. Ætli dauðageislinn sé ekki falinn undir fjallstindinum? Ætli hringar Satúrnusar séu ekki bara leifar þeirra hnatta sem Helstirnið hefur tortímt?

Þú getur skoðað fleiri myndir frá þessu framhjáflugi Cassinis á Stjörnufræðivefnum.

Minni svo að lokum á stórskemmtilegt krakkanámskeið í stjörnufræði 27. og 28. febrúar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir þessa frábæru innsýn í hina þöglu eilífð. Mig langar svo líka til að lýsa yfir ánægju minni með þetta framtak að halda krakkanámskeið í stjörnuskoðun og stjörnufræði. Þetta er ómetanlegt að mínu mati og væri óskandi að fleiri raunvísindagreinar gerðu svipað. Hver veit nema að spurningar tærrar hugsunar yrðu fræðunum jafnvel til framdráttar.

Ég var mikill stjörnuglópur, sem krakki og átti litla bók um stjörnufræði og venjulegan kíki. Þau ferðalög sem ég fór með þessum ófullkomnu tækjum eru mér enn í huga. Tölvugrafískar kvikmyndir komast hvergi nærri því að lýsa þeim. 

Ég vona bara að svona framtak verði kveikjan að einhverju meira. 

Jón Steinar Ragnarsson, 15.2.2010 kl. 23:25

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Seinna meir sá ég Cosmos þætti Carl Sagan og hef aldrei orðið samur eftir. Missti raunar barnatrúnna við það og er eilíflega þakklátur fyrir að losna af þeim brautarteinum inn í vit-leysuna.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.2.2010 kl. 23:28

3 Smámynd: Arnar

Er nokkuð vitað um hvort tunglið sé fyrirmynd að Helstirnin George Lukas?

Helstirnið er alveg keimlíkt Mímas.

Arnar, 16.2.2010 kl. 09:39

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk sömuleiðis Jón Steinar fyrir þín orð. Mjög skemmtilegt að lesa þetta. Krakkanámskeiðin eru okkur mjög mikilvæg því á þeim reynum við að blanda vísindagreinunum aðeins saman. Á þeim fá krakkarnir og foreldrar þeirra að taka þátt í kennslunni eins og hægt er. Svo endum við öll á því að fara saman í stjörnuskoðun þar sem krakkarnir fá að læra á eigin sjónauka, ef þau eiga. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt á Safnanótt á föstudagskvöldið. Þar komu fullt af krökkum sem fengu að upplifa hverfiþunga (tengdum hann við nifteindastjörnur), búa til árekstragíga eins og á tunglinu og horfa í gegnum stjörnusjónauka. Fjalla um það síðar í annarri bloggfærslu.

Ég hef heldur aldrei orðið samur eftir að hafa séð Cosmos þættina. Horfi á þá á hverju ári enda stórkostlegir þættir. Þeir höfðu mjög svipuð áhrif á mig og aðra í kringum mig eins og þú lýsir. 

Arnar, Stjörnustríðsmyndin var frumsýnd tveimur árum áður en fyrstu nærmyndirnar af Mímasi voru teknar, svo þetta er alveg ótrúlega skemmtileg tilviljun.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 16.2.2010 kl. 10:32

5 Smámynd: Arnar

Ah, las bara að það hefði fundist 1789 en fattaði náttúrulega að gígurinn hefði kannski ekki sést þá

Arnar, 16.2.2010 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband