Hvaða stjarna skín skært í vestri við sólsetur?

Náttúran setur reglulega fallegar sýningar á svið fyrir okkur. Það er svo undir okkur komið að líta í kringum okkur og njóta þess sem fyrir augum ber. 

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi á hug flestra þessa dagana enda afar tignarlegt. Þau ykkar sem skoðað hafa gosið í ljósaskiptunum hafið eflaust tekið eftir skærri stjörnu á vesturhimni. Við hlið hennar er önnur stjarna, reyndar ekki eins skær en áberandi engu að síður.

Þessar fallegu stjörnur eru ástarstjarnan Venus og sendiboðinn Merkúríus, innstu reikistjörnur sólkerfisins.

venus_merkurius_3april2010.jpg

Flestir hafa séð Venus á kvöld- eða morgunhimninum einhvern tímann á ævinni. Mun færri hafa séð Merkúríus enda er hann oftast nær frekar daufur. Hann er enda miklu minni, miklu nær sólinni og oftast talsvert fjarlægari en Venus.

Hér er gullið tækifæri til að berja hann loks augum. Tíminn er naumur því í kringum 10. apríl byrjar reikistjarnan að dofna mjög hratt. Hann er nefnilega að nálgast sólina og við það verður sífellt minni hluti hans upplýstur frá jörðu séð.

Kannski eru eldgos líka í gangi á Venusi þessa stundina. Hver veit?

- Sævar


Satúrnus í gegnum iPhone

Þá er ég loksins kominn heim eftir frábært ferðalag til Suður Afríku. Mun segja nánar frá ferðalaginu hér á blogginu og á Stjörnufræðivefnum síðar.

Einn af hápunktum ferðarinnar var stjörnuskoðun sem ég fór í hjá Stjörnustöð Suður Afríku. Þar eru nokkrar rannsóknarstöðvar og aðstæður í heimsklassa.

Ég skoðaði fjölmörg glæsileg fyrirbæri með 14 tommu Celestron Schmidt-Cassegrain sjónauka. Satúrnus var þar á meðal og tók ég mynd af honum í gegnum augnglerið með iPhone símanum mínum. Niðurstaðan kom mér mjög á óvart:

saturnus_titan_iphone.jpg

Það þarf ekki mikið til að greina hringa Satúrnusar í gegnum stjörnusjónauka. Litli depillinn vinstra meginn við Satúrnus er tunglið Títan. 

- Sævar


Nýr sjónauki MA heitir Stjörnu-Oddi

Á laugardaginn var haldið málþing á Akureyri um stjörnufræði í tilefni af ári stjörnufræðinnar og vígslu nýs stjörnusjónauka Menntaskólans á Akureyri. Félagar úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness mættu á svæðið og kynntu félagið, ásamt því að sýna gestum loftsteina og bjóða þeim í stjörnuskoðun innanhúss.

Sjónaukinn Stjörnu-Oddi á þaki MA 

Í lok málþingsins var vígður nýr stjörnusjónauki sem er að finna á þaki Möðruvalla (raungreinahús MA). Hann fékk það snjalla nafn Stjörnu-Oddi og í kjölfarið var haldinn stofnfundur nýs stjörnuskoðunarfélags á Akureyri sem fékk heitið Stjörnu-Odda félagið. Ætlunin er að hafa mikið samstarf milli félaganna á Akureyri og Seltjarnarnesi og er stefnt að sameiginlegum félagsfundi og stjörnuteiti í haust.

Á Stjörnufræðivefnum er að finna fleiri myndir frá málþinginu.

kynningarbord-i-ma-oskar_973540.jpg


Allir velkomnir á málþing um stjörnufræði á Akureyri laugardaginn 20. mars

Næstkomandi laugardag munu Háskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri standa fyrir málþingi um stjörnufræði undir því glæsilega nafni „Undur alheimsins“. Tilefnið er alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 og vígsla nýs stjörnusjónauka MA sem er tilbúinn til notkunar uppi á nýbyggingu skólans.

Málþingið hefst kl. 10:15 og stendur fram eftir degi. Allir eru velkomnir á málþingið og einstaka viðburði en dagskrána má sjá á vef Háskólans á Akureyri.

sjonauki_ma_litil

Í lok málþingsins á að stofna sérstakt stjörnuskoðunarfélag um nýja sjónaukann sem verður þá annað stjörnuskoðunarfélagið á landinu! Þessum fögnum við innilega hér fyrir sunnan því það er erfitt fyrir okkur að skipuleggja viðburði á Akureyri. Okkur tókst það samt bærilega í nóvemberbyrjun 2008 þegar við héldum námskeið fyrir byrjendur og kennara og stjörnuteiti fyrir gesti og gangandi. Hér eru myndir frá kennaranámskeiðinu fyrir norðan.

við erum fjórir félagar úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness sem munum fara sérstaklega norður í tilefni af málþinginu og vonandi verða fleiri félagar af Norðurlandi á staðnum. Við ætlum að kynna starfsemi félagsins og standa fyrir loftsteinakynningu og stjörnuskoðun innandyra. Einnig mun Stjörnuverið bjóða gestum í heimsókn. 

Ef veðrið reynist þokkalegt á laugardaginn þá verður blásið til stjörnuskoðunar utandyra um kvöldið fyrir Akureyringa og nærsveitamenn.


Í Höfðaborg í Suður Afríku er Óríon á hvolfi

Þessa dagana er ég, Sævar, staddur á ráðstefnu í Höfðaborg í Suður Afríku um miðlun stjörnufræði. Ráðstefnuna sækja yfir 200 manns frá háskólum og stofnunum um heim allan. Ráðstefnan er haldin í kjölfar alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar. Farið er yfir það sem vel tókst, það sem hefði mátt takast betur og það sem bíður okkar á næstu árum. Við slökum sko ekkert á í að miðla vísindunum þótt stjörnufræðiárið sé á enda.

Höfðaborg er mjög skemmtileg og flott borg. Hún er umlukin fallegum fjöllum frá Ordovísíum og Kambríum. Frægast þeirra er sennilega Borðið og svo Ljónshöfuðið og Ljónsrófan (hvort eru ljón með hala eða rófu?). Þetta má sjá á myndunum hér undir sem ég tók einn af fjölmörgum góðum veðurdögum.

 

Framkvæmdir eru á hverju götuhorni vegna undirbúnings fyrir HM. Hótelið sem ég er á, þar sem ráðstefnan fer fram, er í göngufæri við knattspyrnuvöllinn sem leikið verður á í sumar.  Verið er að leggja nýja vegi, útbúa bílastæði og svo framvegis. Hér sést völlurinn á mynd sem tekin er uppi á Ljónsrófunni.

HM völlurinn í Höfðaborg

Einn af mörgum hápunktum ferðarinn hingað til var heimsókn í skólann í Lunga. Lunga þýðir sól á tungumálinu Xhosa og er fátæktarhverfi. Sum börnin í skólanum bjuggu hreinlega í kofum. Það var virkilega mikil og jákvæð upplifun að spjalla við krakkana um alheiminn. Hér eru Carolina Ödman (Svíþjóð/Holland) og John Goldsmith (Ástralía) að fræða krakkana um jörðina.

Krakkarnir voru mjög áhugasamir um myndavélar og vildu endilega láta mynda sig með okkur. Hér er ég með nokkrum hressum stelpum úr skólanum.

Megintilgangur ferðarinnar er þó að sjá suðurhiminninn. Hann er nefnilega mjög frábrugðin íslenska stjörnuhimninum. Héðan sjást stjörnumerki sem við getum aldrei séð frá Íslandi, t.d. Suðurkrossinn, Mannfákurinn og fleiri. Héðan sjást líka djúpfyrirbæri sem við sjáum aldrei frá Íslandi svo sem Magellanskýin, Eta Carinae og Centaurus A. Héðan sjást líka fyrirbæri sem við sjáum frá Íslandi en þau líta allt öðruvísi út vegna ólíkrar hnattstöðu. Stjörnumerki eins og Óríon er á hvolfi og Síríus, bjartasta stjarna himinsins sem rétt skríður upp á íslenska himinninn, er í hvirfilpunkti, eins og sjá má á þessari mynd.

Suður Afríka virðist frábært land og allar sögur um að maður sé hreinlega í stórhættu hér á götum úti eru stórlega ýktar. Fólkið er yndislegt, veðrið gott og verðið lágt.

Besta leiðin til að fylgjast með þessu er að skoða Twitter og sérstaklega #CAP2010.

- Sævar


Ferðast um Vetrarbrautina með GLIMPSE

Það væri gaman að geta ferðast óhindrað um Vetrarbrautina okkar. Það er erfitt að gera sér grein fyrir öllum þeim fjölda fyrirbæra sem hún hefur að geyma. Gas og ryk í skífu Vetrarbrautarinnar gleypa í sig sýnilegt ljós og líkt og gluggatjöld, byrgja okkur sýn inn í skífuna. Spitzer er geimsjónauki NASA sem sér heiminn í innrauðu en innrautt ljós á auðvelda leið gegnum gas og ryk. Eitt af stóru verkefnum Spitzer var að kortleggja skífu Vetrarbrautarinnar í innrauðu ljósi. Verkefnið hlaut nafnið GLIMPSE (Galactic Legacy Infrared Mid-Plane Survey) og er nú opið almenningi til skoðunnar. Það er virkilega gaman að "vafra" um Vetrarbrautina með GLIMPSE þar sem hægt er að stækka og minnka að vild kort af ótrúlegum fjölda stjarna, gasskýja og rykmyndanna. Fátt betra en að geta farið í "stjörnuskoðun" heima í stofu þegar skýjað er. Hlekkurinn hér að neðan færir ykkur á heimasíðu GLIMPSE.

Skoða GLIMPSE (smellið á "Launch Viewer")

 milky_way_center_969514.jpg


Fjör á krakkanámskeiðum!

Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness héldu krakkanámskeið um síðustu helgi fyrir 6-12 ára börn og foreldra þeirra. Það er fátt jafngaman eins og að kenna áhugasömum krökkum um stjörnufræði og var þessi helgi engin undantekning.

img_0566

Meðal þess sem við gerðum var að kenna gestum um nifteindastjörnur (og leyfa þeim að snúast á bretti eins og skautadansari eða nifteindastjarna). Einnig fræddum við gesti um kvartilaskipti tunglsins og sýndum þeim loftsteina. Það verður nú að teljast góð ástæða til þess að mæta á næsta viðburð hjá okkur að fá að halda á 4,5 milljarða ára gömlum steinum utan úr geimnum!

Á mánudagskvöldið fórum við í stjörnuskoðun mðe hópinn þrátt fyrir óræða veðurspá. Við vorum við gervigrasvöll Gróttu á Seltjarnarnesi þar sem var smá skjól fyrir allri lýsingunni í kringum Valhúsaskóla. Ég fann Sjöstirnið frekar fljótt í FirstScope-sjónaukanum mínum inni á milli skýja en svo þegar fólk spurði hvar það væri það væri þá fékk það svarið „Sérðu stjörnuþyrpinguna þarna sem sést rétt svo í skýjunum, þetta er Sjöstirnið!“.

Það létti samt til þegar leið á kvöldið og fólk gat betur áttað sig á himninum með hjálp Stjörnukorts mánaðarins. Allir sem komu með sjónauka gátu fundið einhver fyrirbæri í honum sem þýðir að tilgangi stjörnuskoðunarinnar var náð! Meðal annarra fyrirbæra sem við kíktum á voru Sverðþokan í stjörnumerkinu Óríon og reikistjarnan Mars sem var áberandi appelsínugul og skein skært á himninum.

Við ætlum að endurtaka leikinn næsta vetur og bjóða aftur upp á krakkanámskeið (ásamt námskeiðum fyrir byrjendur). Áhugasamir skulu endilega kíkja inn á námskeiðssíðuna í fyrrihluta september í haust til þess að sjá hvenær námskeiðin fara fram.

Þangað til: Horfið til himins og látið hugann reika til stjarnanna!

-Sverrir


Stjörnukort fyrir Ísland í mars

Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í mars. Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.

Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum

Meðal þess sem er að finna á himninum eru reikistjörnurnar Mars og Satúrnus. Í litlum stjörnusjónauka má sjá hringa Satúrnusar sem örmjótt strik og Mars sem litla hringskífu. Óríon og stjörnurnar í Vetrarþríhyrningnum eru einnig áberandi á suðurhimni skömmu eftir sólsetur.

ljonid-mars-saturnus 


Hver er uppáhalds stjörnuskoðunin mín?

Það spannst smá umræða hjá okkur sem vorum með krakkanámskeið Stjörnuskoðunarfélagsins og Stjörnufræðivefsins um helgina hvað það væri sem við hefðum mestan áhuga á að skoða í stjörnuskoðun. Mig langar til þess að fara aðeins lengri leið að svarinu og segja frá svörum sem ég hef sjálfur fengið.

Ég fékk sjálfur þessa spurningu í fyrsta sinn úti í Kanada (reyndar þrisvar sinnum og í öll skiptin frá mönnum sem hafa verið yfir 20 ár í bransanum). Ég vissi ekkert hvernig ég átti að svara spurningunni en fékk að heyra aðeins frá þeim sem spurðu hvað þeir hefðu mestan áhuga á.

Einn þeirra, Larry í Edmontondeild RASC, fékk áhuga sinn á stjörnufræði þegar Halley-halastjarnan heimsótti okkur 1986. Í fyrsta alvöru samtali okkar þá sagðist hann hafa skoðað yfir 400 hringþokur. Þær eru því án efa efst á listanum hjá honum yfir fyrirbæri sem hann eltist við. Hann skoðar líka önnur djúpfyrirbæri með 12,5" sjónaukanum en hringþokurnar eru samt í sérflokki. Þegar hann spurði mig hvað ég hefði skoðað af hringþokum þá sagðist ég hafa séð kannski tvær eða þrjár (þar á meðal Hringþokuna í Hörpunni). Þær urðu samt miklu fleiri eftir að ég fór tvisvar í stjörnuskoðun með Larry út fyrir borgina Smile

Stjörnustöðin í EdmontonAnnar náungi sem spurði mig var hann Bruce McCurdy sem vann í stjörnustöðinni í Edmonton síðasta sumar og var þar manna duglegastur að kynna stjörnufræði fyrir almenningi og skólakrökkum. Ég átti í erfiðleikum með að svara spurningunni um uppáhalds stjörnuskoðunina mína en þegar ég spurði hann til baka þá sagðist Bruce núna vera mest á höttunum eftir loftsteinahríðum. Ég fór einu sinni með honum út fyrir bæinn að skoða Óríoníta. Hann fylgdist með himninum í kringum Óríon og þegar við sáum stjörnuhrap þá las hann inn á upptökutæki hvaðan steinninn hefði verið að koma og u.þ.b. hvað hann hefði verið bjartur. Til viðbótar var hann með klukku sem sagði tímann upphátt svo nákvæm tímasetning fylgdi með hverri upptöku. Það var mjög gaman að sjá hann gera þetta og ég á tvímælalaust eftir að fara með einhverjum í loftsteinaleiðangra út fyrir bæinn næsta vetur Smile

Þriðji maðurinn sem spurði mig var Stephen James O'Meara á stjörnufræðinámskeiði fyrir utan bæinn. Ég gat heldur ekki svarað honum heldur sagðist ég skoða alls konar fyrirbæri en ekkert eitt frekar en annað. Stephen er náttúrlega meðal þekktustu og reyndustu stjörnuskoðara í heiminum. Hann hefur skoðað ótal fyrirbæri af öllu tagi svo það væri kannski erfitt fyrir hann að svara spurningunni um uppáhalds stjörnuskoðunina.

Hann spurði mig samt sérstaklega út í norðurljósin (ekki skrýtið frá manni sem býr á Hawaii) en einnig hvort ég fylgdist með ljósagangi s.s. grænum blossum í kringum sólarlag. Ég byggi jú við sjóinn (öfugt við íbúa Edmonton sem er inni á miðju meginlandi N-Ameríku). Ég fylgist reglulega með aukasólum o.þ.h. en sagði við hann að ég myndi hafa augun enn frekar hjá mér hvað varðar litbrigði við sólarlag. Það sem Stephen hefur fjallað sérstaklega mikið um í pistlum sínum í Astronomy undanfarið er stjörnuskoðun með berum augum s.s. fyrirbæri við sólarlag, hvað hægt er að sjá á tunglinu með berum augum og einnig daufustu vetrarbrautirnar sem sjást með berum augum. Allt greinilega atriði sem hann hefur sérstaklega mikinn áhuga á þessi misserin.

Sjöstirnið í NautinuÞá er loks komið að mér: Ég fer yfirleitt aldrei einn í stjörnuskoðun með sjónauka. Bæði helgast það af bílleysi en einnig hef ég bara ekki mikinn áhuga á því (sem sást þegar ég hafði reglulega bíl til umráða og fór aldrei einn í stjörnuskoðun!). Hins vegar hef ég gaman að því að fara með öðrum t.d. í Krýsuvík og sérstakt yndi af því að sýna byrjendum Sjöstirnið, tunglið, Andrómeduvetrarbrautina og þessi helstu fyrirbæri (sem eru alltaf jafnáhugaverð í hvert skipti sem ég skoða þau). Bæði hef ég verið að gera þetta eftir námskeið félagsins og eins í stjörnustöðinni á meðan ég var í Edmonton. Maður verður alltaf fljótari að finna fyrirbærin og var ég m.a. búinn að ná upp tækni til þess að finna Herðatréð í Litlarefi í Edmonton áður en stjörnuklasinn sást með berum augum á himninum!

Uppáhalds stjörnuskoðunin mín er samt stjörnuskoðun með berum augum þar sem ég er úti að labba eða stend kyrr og kíki á Óríon, Perseif, reyni að sjá Vetrarbrautarslæðuna og rifja upp nöfn á stjörnum og staðsetningu stjörnumerkja (að útbúa stjörnukort mánaðarins hjálpar mér mikið með það!). Í Edmonton kom ég mér líka upp því sporti að leita uppi daufustu stjörnuna sem sést á himninum og geri það mjög oft þegar ég fer út, bæði eftir minni og eins eftir stjörnukorti. Út frá daufustu stjörnunni má álykta um ljósmengun og aðstæður og hve margar stjörnur sjást á himninum í heildina. Svona stjörnuskoðun með byrjendum og berum augum er þannig í mestu uppáhaldi hjá mér sem stendur.

Draumastjörnuskoðunin er náttúrlega að komast í góðar aðstæður á suðurhveli, hvort sem er með stóran sjónauka eða með lítinn sjónauka eða með berum augum úti í óbyggðum fjarri öllum ljósum (já, grasið er alltaf grænna hinum megin).

Ég setti inn spurningu um uppáhalds stjörnuskoðun íslenskra áhugamanna á spjallborði Stjörnuskoðunarfélagsins http://korkur.astro.is. Þið getið kíkt þar inn og séð svör þeirra um uppáhalds stjörnuskoðunina sína.

-Sverrir


Vetrarbraut Svarthöfða

Fyrir skömmu sögðum við frá tungli Satúrnusar sem líkist Helstirni Veldisins í Stjörnustríðsmyndunum. Það er greinilega enginn hörgull á fyrirbærum í geimnum sem líkjast tækjum og tólum úr Stjörnustríðmyndunum því í dag er komið að vetrarbraut sem minnir óneitanlega á TIE geimorrustuflaugar Veldisins sem Svarthöfði og félagar notuðu.

ngc_936.jpg

Hér er myndin í meiri upplausn.

Hér sést bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 936. Hún er í um 50 milljón ljósára fjarlægð frá okkur. Myndin sýnir sem sagt vetrarbrautina eins og hún leit út fyrir 50 milljón árum, löngu áður en Ísland varð til. Vetrarbrautina er að finna í stjörnumerkinu Hvalnum. Hún er ekki mjög björt en þó sjáanleg með stórum áhugamannasjónaukum (6-8 tommur og stærri). 

250px-tiefighterfull.jpgMiðbunga vetrarbrautarinnar minnir mjög á vélina og stjórnklefa TIE geimorrustuflauganna. Miðjan er umlukin hring af stjörnum sem samsvarar þ.a.l. vængjum orrustuflauganna sem eru útbúnir sólarhlöðum.

Vetrarbrautin inniheldur næstum eingöngu gamlar stjörnur og í henni eru engin merki um nýlega stjörnumyndun. Myndin var tekin með einum af VLT sjónaukunum fjórum á Cerro Paranal í Chile. Þarna eru að minnsta kosti 200 milljarðar sóla samankomnar. Skyldi einhver þar vera að horfa yfir til okkar?

Hvað sem því líður er augljóst að Veldið er í óðaönn að leggja undir sig alheiminn.

---

Krakkanámskeið í Morgunútvarpi Rásar 2

Hátt í fjörutíu krakkar tóku þátt í námskeiðum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins um liðna helgi. Sveinn Guðmarsson, einn af umsjónarmönnum Morgunútvarpsins á Rás 2 leit við og tók nokkra krakka spjalli. Hægt er að hlusta á það hér.

Fyrir áhugasama verða næstu námskeið í stjörnuskoðun og stjörnufræði í haust. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband