22.4.2010 | 12:34
Sólstrókar í samanburði við jörð og tungl
Í framhaldi af bloggi gærdagsins og frétt á Stjörnufræðivefnum er fróðlegt að bera tröllaukna sólstróka á sólinni saman við stærð tungls og jarðar.
Þarna sést svart á hvítu hvernig stórir strókar ná margfalt þvermál jarðarinnar út í himingeiminn!
Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stefna að því að halda sína árlegu sólskoðun á Austurvelli á 17. júní þar sem við höfum oft séð sólstróka (kannski ekki alltaf af þessari stærð heldur meira í þeim dúr sem sést hægra megin á sólskífunni).
Nú vonum við bara að veðrið verði gott og að sólin sýni sig!
-Sverrir
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.4.2010 | 18:46
Ný sýn á sólina - Sólin í há-háskerpu
Hér er alveg hreint stórglæsileg ljósmynd af sólinni frá nýjasta sólkanna NASA, Solar Dynamics Observatory:
Váááá!
Þetta er nákvæmasta mynd sem tekin hefur verið af sólinni.
En hvers vegna er hún svona sérkennileg á litin?
Svarið við því er í frétt okkar á Stjörnufræðivefnum!
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2010 | 14:05
Mögnuð mynd NASA af gosmekkinum
NASA birti áðan þessa stórkostlegu mynd af Íslandi og gosmekkinum úr Eyjafjallajökli sem tekin var rétt eftir hádegi í gær:
Smáatriðin í mekkinum:
Fyrir mitt leyti er þetta magnaðast gervitunglamynd sem tekin hefur verið af Íslandi hingað til.
Ég kíkti á gosið í gærkvöldi og tók nokkrar myndir af mekkinum.
Ég prófaði líka í fyrsta sinn að útbúa time-laps myndskeið. Hér er rúmlega fjórum mínútum þjappað í sjö sekúndur. Vissi ekkert hvað ég var að gera, eins og kannski sést, en hér er niðurstaðan á Vimeo.
Eldgos í Eyjafjallajökli from Sævar Helgi Bragason on Vimeo.
Ágætis byrjun svo sem en ég mun klárlega reyna að mastera þetta betur í framtíðinni.
- Sævar
![]() |
Öskufall á Mýrdalsjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2010 | 16:08
Gervitunglamyndir sýna vel útbreiðslu gjóskunnar
Gervitunglamyndin hér undir, sem tekin var klukkan 11:35 í morgun, sýnir vel hversu langt gjóskan berst til Evrópu. Myndin er af vef NASA.
Býsna magnað ekki satt?
Hér er önnur mynd frá Geimstofnun Evrópu.
Minni á fyrri bloggfærslu okkar um listaverk Hubble geimsjónaukans.
- Sævar
![]() |
Flugbannsvæði stækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.4.2010 | 21:46
Skrugguveður á Satúrnusi
Lofthjúpur Satúrnusar er nístingskaldur og stormasamur. Við höfum lengi vitað að þar er stundum skrugguveður en aldrei hafa náðst myndir af því fyrr en nú.
Myndskeiðið hér undir sýnir eldingar í skýi á næturhlið Satúrnusar. Hringar Satúrnusar lýsa skýið svo það sést dauflega á myndum Cassini geimfarsins. Skýið er 3000 km breitt þar sem það er breiðast, álíka og fjarlægðin milli Reykjavíkur og Rómar. Á þeim sextán mínútum sem athuganirnar standa yfir breytist svo stórt ský sjáanlega ekki neitt. Búið er að þjappa þessum athugunum saman í tíu sekúndna myndskeið. Hver elding stendur yfir í innan við eina sekúndu. Svæðið sem lýsist upp er um 300 km breitt.
Hægt er að skoða myndskeiðið hér. Ef þú hækkar í hátölurunum "heyrast" þrumurnar á formi útvarpsmerkja sem Cassini greindi.
Minni á fyrri bloggfærslu okkar um listaverk Hubble geimsjónaukans.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2010 | 16:43
Afmæli Hubblessjónaukans
Þann 24. apríl næstkomandi verða tuttugu ár liðin frá því að Hubblessjónaukanum var komið á braut um jörðina. Síðan hefur sjónaukinn orðið eitt afkastamesta vísindatæki sögunnar og bylt sýn okkar á alheiminn. Með honum hafa stjörnufræðingar mælt útþenslu alheimsins, greint fjarlægustu og elstu vetrarbrautir sem þekkjast í alheiminum og séð stjörnur fæðast djúpt í innviðum stjörnuþoka Vetrarbrautarinnar.
Á ljósmyndum Hubbles eru svör við mörgum af mikilvægustu spurningum stjarnvísindanna um alheiminn.
En myndirnar eru ekki aðeins vísindalega mikilvægar heldur oftar en ekki algjör listaverk. Í tilefni af afmælinu höfum við tekið saman tíu glæsilegar myndir frá Hubble.
Smelltu hér til að skoða listaverk Hubblessjónaukans
8.4.2010 | 17:58
Hársbreidd framhjá
Fjarlægðin milli jarðar og tungls er milli 365.000 og 406.000 km svo þetta er hársbreidd framhjá jörðinni á stjarnfræðilegum mælikvarða. Mikilvægt er að hafa í huga að smástirni smýgur þetta nálægt framhjá jörðinni á nokkurra vikna fresti.
Það er hins vegar gaman að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef smástirni af þessari kæmi inn í lofthjúp jarðar. Þyrftum við að hafa áhyggjur? Á vef Lunar and Planetary Laboratory í Arizona er hægt að reikna þetta út í grófum dráttum.
Til að áætla hugsanleg örlög smástirnisins þurfum við fyrst að áætla eðlismassa þess. Eðlismassinn fer eftir því úr hvaða efnum smástirnið er. Sé smástirnið að mestu úr ís er eðlismassinn í kringum 1000 kg/m3. Sé smástirnið úr bergi er eðlismassinn um 3000 kg/m3 en 8000 kg/m3 sé það úr hreinu járni. Bergsmástirni eru algengari svo við skulum gera ráð fyrir að eðlismassinn sé 3000 kg/m3.
Dæmigerður hraði smástirnis þegar það kemur inn í lofthjúp jarðar er um 17 km/s. Algengasta innfallshornið er sennilega 45 gráður.
Steinninn myndi byrja að brotna upp í rúmlega 50 km hæð yfir jörðinni. Í um 20 km hæð splundrast hann. Brot úr steininum næðu til jarðar en enginn gígur myndi myndast. Þetta yrði mögnuð ljósasýning!
Í versta tilfelli væri steinninn úr járni. Þá myndi hann byrja að brotna upp í um 14 km hæð og splundrast í 3 km hæð. Stór brot næðu til jarðar og lítil þyrping gíga gæti myndast. Þetta yrði enn magnaðari ljósasýning, en hér væri betra að vera ekki of nálægt.
Sem betur fer ver lofthjúpur jarðar ver okkur fyrir þessum vágestum.
Hafa ber í huga að þetta eru aðeins vangaveltur, gerðar til gamans. Miklir óvissuþættir eru í öllum útreikningum af þessu tagi.
Ítarefni á Stjörnufræðivefnum
Minnum að lokum á frétt okkar um nýja mynd frá Hubble geimsjónaukanum.
![]() |
Smástirni fer framhjá jörðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2010 | 14:03
Vetrarbrautaþrenning í Ljóninu
Einn fallegasti vetrarbrautahópur sem áhugafólk getur skoðað með litlum stjörnusjónaukum á næturhimninum er Ljónsþrenningin svonefnda. Í þrenningunni, sem er í um 35 milljón ljósára fjarlægð, eru þyrilvetrarbrautir - M65, M66 og NGC 3628 - sem allar víxlverka hver við aðra. Dag einn sameinast þær í eina risavetrarbraut í tiheyrandi hamförum.
Þyngdartogið milli þeirra er þegar farið að hafa áhrif á lögun vetrarbrautanna. Frá NGC 3628 liggur hali úr ungum bláum stjörnum meira en 300.000 ljósár út í geiminn eins og sjá má á þessari mynd sem ég stal af APOD.
Mynd: Steve Mandel (Galaxy Images)
Í dag birtist glæný og tignarleg mynd frá Hubble geimsjónaukanum af vetrarbrautinni M66. Sú vetrarbraut er greinilega að afmyndast vegna víxlverkunar við nágrannavetrarbrautirnar. Þyrilarmar hennar eru ósamhverfir, sem er harla óvenjulegt því oftast vinda þétt gas- og ryksvæði og nýmyndaðar stjörnur upp á miðju vetrarbrautar á samhverfan hátt. Kjarninn er heldur ekki í miðju vetrarbrautarinnar. Í þyrilörmunum sjást stjörnuþokur og nýmyndaðar stjörnuþyrpingar.
Stjörnufræðivefurinn fær nú fréttir frá ESO og Hubble fyrirfram svo hér eftir birtast fréttirnar samtímis hjá okkur og þeim.
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 10:02
Undur himingeimsins: Ferðalag út í geiminn
ATH! Uppselt er á námskeiðið laugardaginn 10. apríl. Ákveðið hefur verið að endurtaka námskeiðið viku síðar, laugardaginn 17. apríl. Skráning hér.
Nú hefjast Undur vísindanna sem er röð fjögurra námskeiða um vísindi fyrir fjölskyldur. Námskeiðin henta sérstaklega fyrir krakka á aldrinum 8-12 ára og aðstandendur þeirra en eru opin öllum áhugasömum um vísindi. Á námskeiðunum fjalla fræðimenn Háskóla Íslands um vísindi á lifandi og skemmtilegan hátt. Laugardaginn 10. apríl verður boðið upp á námskeið um geimferðir.
Hafa menn í alvöru stigið fæti á tunglið? Hvernig fara geimfarar á klósettið? Sofa geimfarar í rúmi og hvað borða þeir í geimnum? Hversu langt út í geiminn hefur maðurinn farið? Hvaða geimskip hefur farið lengst út í geiminn og hvað fór það langt? Hvað hafa geimferðir kennt okkur um himingeiminn? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem ætlunin er að svara á námskeiðinu Undur himingeimsins: Ferðalag út í geiminn.
Auk mannaðra geimferða verður kastljósinu líka beint að ómönnuðum geimförum. Farið verður í ökuferðir um Mars, flogið umhverfis Satúrnus með Cassini geimfarinu og ferðast framhjá halastjörnum í sólkerfinu, svo dæmi séu tekin.
Á þessu námskeiði mun Sævar Helgi Bragason segja okkur allt frá því hvernig geimfarar upplifa geimferðir, þeim geimferjum sem maðurinn hefur hannað og því sem fyrir augu ber á ferð þeirra um geiminn. Komdu með okkur í ferðalag út í geiminn.
Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér!
Undur vísindanna er röð fjögurra námskeiða um vísindi fyrir fjölskyldur. Námskeiðin henta sérstaklega fyrir krakka á aldrinum 8-12 ára og aðstandendur þeirra en eru opin öllum áhugasömum um vísindi. Á námskeiðunum fjalla fræðimenn Háskóla Íslands um vísindi á lifandi og skemmtilegan hátt.
Námskeiðin eru haldin af Vísindavefnum, Endurmenntun og Orkuveitunni.
Vísindi og fræði | Breytt 8.4.2010 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 20:38
Óvenjuleg en mögnuð mynd af norðurljósunum... úr geimnum!
Twitter er frábært fyrirbæri. Þar er okkur að sjálfsögðu að finna og geimfara einn sem er um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni. Sá kappi heitir Soichi Noguchi og er frá Japan. Með Nikon myndavél að vopni ljósmyndar hann jörðina úr 400 km hæð og sendir myndirnar á Twitter. Í gær sendi hann eina óvenjulega en alveg magnaða mynd af norðurljósunum.
Græni hluti ljósanna er í um 100 km hæð yfir jörðinni en rauði hlutinn getur teygt sig nokkur hundruð kílómetrum hærra. Soichi hefur því alveg rétt fyrir sér þegar hann segir að geimstöðin þjóti í gegnum norðurljósin. Geimstöðin svífur um jörðina á 28.500 km hraða á klukkustund. Á þessum hraða er hún fótboltaleik (90 mínútur) eða svo að ferðast umhverfis jörðina. Það skal tekið fram að geimfararnir hljóta ekki skaða af því að ferðast í gegnum norðurljósin.
Á myndinni sést Soyuz geimfarið tengt við geimstöðina. Á miðvikudag fjölgar íbúum geimstöðvarinnar þegar Discovery tengist við hana. Myndin er tekin út um einn af sjö gluggum Cupola einingarinnar sem geimferjan Endeavour kom fyrir á geimstöðinni í febrúar síðastliðnum.
Útsýnið sem þetta fólk nýtur út um glugga Cupola er stórkostlegt. Með hjálp Twitter getur þú notið þess sem geimfararnir sjá.
- Sævar
![]() |
Geimferja á loft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |