Stjörnufræðivefurinn fær andlitslyftingu

Lesendur bloggsins og Stjörnufræðivefsins hafa eflaust tekið eftir því að við höfum ekki birt marga nýja pistla eða nýjar fréttir upp á síðkastið. Það á sér góðar skýringar. Nú í sumar fær Stjörnufræðivefurinn tímabæra andlitslyftingu frá Hugsmiðjunni. Útlit vefsins breytist til hins betra og í leiðinni færum við okkur úr vefkerfinu Joomla í Eplica 2. Þetta mun gjörbreyta vefnum þannig að hann verður miklu notendavænni og auðveldari í uppfærslu.

Í sumar ætlum við þess vegna að vinna að því að uppfæra og bæta þær greinar sem fyrir eru og skrifa nýtt efni. Ef þið lumið á góðum hugmyndum, eða einhverju sem þið vilduð vilja sjá á vefnum þætti okkur vænt um að heyra af því. 

Nýi vefurinn opnar um svipað leyti og skólar hefja störf í haust. Við munum opna með pompi og prakt, kynna nýjungar og margt fleira spennandi. Nánar um það síðar.

forsida_vefs.jpg

Núverandi forsíða Stjörnufræðivefsins. Nýi vefurinn verður gjörbreyttur.


Sama þróun á Íslandi

_raefajokull_shb.jpg"...að sama þróun hafi átt sér stað á Íslandi og Svalbarða án þess að það sé útskýrt frekar." Þá er best að útskýra það frekar.

Jarðskorpan rís vegna breytinga á flotjafnvægi. Massi eins og jökull þrýstir skorpunni niður á við með þunga sínum niður í möttulinn. Þetta er enn að eiga sér stað eftir að ísöld lauk. Þannig er Skandinavía smám saman að rísa, sem og Norður-Ameríka.

Á síðustu öld missti Vatnajökull 10% af massa sínum vegna hlýnandi veðurfars. Af þeim sökum rís jarðskorpan umhverfis Vatnajökul um 2,5 cm á ári að jafnaði. Útreikningar jarðeðlisfræðinganna Freysteins Sigmundssonar og Carolinu Pagli benda til þess að þessi breyting valdi aukinni kvikumyndun í jarðskorpunni undir jöklinum, sem nemur um 0,014 rúmkílómetrum á ári. Ekki gífurlegt magn, en aukning engu að síður.

Þessi aukna kvikumyndun vegna breytinga á flotjafnvægi gefur vísbendingar um hugsanlegt samhengi þeirra og eldsumbrota, t.d. undir Vatnajökli. Í lok síðustu aldar gerði Hjalti Guðmundsson, nú hjá Umhverfisstofnun, rannsóknir á gjóskulögum frá Öræfajökli. Niðurstöður hans virðast sýna að gos verður í Öræfajökli rúmlega 300 árum eftir að jöklar ná sinni mestu útbreiðslu.

Ef til vill má búast við aukinni jarðskjálftavirkni og jafnvel eldvirkni samfara bráðnun jöklanna. Þegar ísinn þykknar eykst fargið og þrýstingurinn á kvikuhólf undir jöklinum svo hugsanlega dregur úr gostíðni. En þegar ísinn þynnist léttir fargi á kvikuhólfinu og þrýstingur minnkar sem kann að auka gostíðnina.

Í öllu falli verða næstu áratugir mjög forvitnilegir, ef fram fer sem horfir.

---

Talandi um loftslagsbreytingar. Í Vísindaþættinum í gær spjallaði ég við Áslaugu Geirsdóttur, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, um rannsóknir hennar á setlögum í Hvítárvatni og Haukadalsvatni og þá sögu sem þau segja um loftslagsbreytingar á Íslandi á nútíma.

Þátturinn er kominn á netið.

Myndina tók undirritaður af Öræfajökli frá Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi í síðustu viku.

- Sævar


mbl.is Landris vegna bráðnunar jökla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldfjallið sem sprakk

Á þessum degi fyrir þrjátíu árum síðan sprakk Sankti Helenufjall í Bandaríkjunum. Af því tilefni útbjó NASA þessa skemmtilegu myndasyrpu sem sýnir breytilega ásýnd fjallsins utan úr geimnum árlega frá 1979 og finna má hér.

Fyrir 55.000 árum eða svo sprakk Tindfjallajökull á svipaðan hátt. Mynduðust þá þykk flikrubergslög í Þórsmörk sem margir hafa eflaust séð en veitt litla athygli. Ef gengið er í átt að Steinsholtsjökli, innan um aurana og hnullungana sem bárust fram þegar bergspilda úr Innstahaus féll á jökulinn og olli hlaupi í Markarfljóti 15. janúar 1967, sést þetta flikruberg mjög vel. 

flikruberg_thorsmork.jpg

Flikrubergslagið í Þórsmörk sem myndaðist þegar Tindfjallajökull gaus fyrir 55.000 árum. Sjá má fallegan berggang á ská ofan á laginu. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Hraun án upphafs

Í síðustu viku var ég í jöklajarðfræðiferð á Suðurlandi. Við vörðum tveimur dögum í að skoða jöklajarðmyndanir við Fláajökul, skammt frá Höfn í Hornafirði. Á leiðinni þangað skoðuðum við nokkra aðra jökla, meðal annars Kvíárjökul sem gengur úr Öræfajökli. Framan við Kvíárjökul eru Kvíármýrarkambur, Kambur og Kambsmýrarkambur, yfir 100 metra háir jökulgarðar, hinir hæstu á Íslandi. Jökullinn reis yfir garðana þegar hann var stærstur undir lok 19. aldar, þegar Litlu-ísöld lauk.

Kvíárjökull situr sjálfur í dalverpi milli Staðarfjalls og Vatnafjalla. Hugsanlegt er að þetta dalverpi hafi orðið til í miklu sprengigosi á nútíma.

kviarjokull_panorama.jpg

Kvíárjökull situr e.t.v. í kleif sem til varð þegar eldkeila sprakk stuttu eftir ísaldarlok, ekki ósvipað og Sankti Helena árið 1980. Þú getur smellt á myndina til að sjá hana stærri. Vatnafjöll eru hægra meginn við jökulinn og í bröttum hlíðum þess er hraun sem virðist hvergi eiga sér upphaf. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Árið 1992 birtist grein í Náttúrufræðingnum eftir Sigurð Björnsson, bónda og fræðimann frá Kvískerjum. Greinin er fróðleg og skemmtileg og aðgengileg á Tímarit.is. Í greinni færir Sigurður rök fyrir því að stór eldkeila hafi verið í kleifinni þar sem jökullinn er nú sem hafi sprungið fram ekki ósvipað og gerðist í Sankti Helenu árið 1980. Í hlíðum Vatnafjalla liggur enda hraun en upptök þess, eldvörpin, finnast hvergi í landinu eins og það er nú. Skrítið, ekki satt? Hvergi finnast ummerki þessa mögulega goss, enn sem komið er, eftir því sem ég kemst næst. Kannski ég leggi bara eldfjallafræði fyrir mig og rannsaki þetta.

- Sævar


Skoðunarferð um Suðurland

Í gær héldum við fimm saman, jarðfræðinemarnir, í skoðunarferð um helstu áhrifasvæði gossins. Fórum lengst til Víkur í Mýrdal sem leit út eins og draugabær. Aldrei hef ég áður séð jafn lítið líf í bænum.

Landslagið allt í kring er í senn stórfenglegt og skelfilegt. Það kemur upp mjög skrítin tilfinning þegar maður sér bóndabæ, sem er litríkur á björtum sumardegi, á kafi í grárri ösku. Maður getur rétt ímyndað sér hvað forfeður okkar gengu í gegnum þegar svona hamfarir dundu yfir.

En þótt áhrif gossins á líf fólks í námunda við gosið séu hræðileg er ekki annað hægt að segja en að þetta sé mikið sjónarspil. Ég prófaði að gera aðra tilraun í time-laps myndatöku frá mismunandi stöðum. Tók svo nokkrar aðrar myndir sem hægt er að sjá hér undir eða á Flickr.

Eyjafjallajökull ash plume on May 8th 2010 from Sævar Helgi Bragason on Vimeo.

Þar sem Katla sefur... í bili

dsc_7638.jpg

Gosmökkurinn úr rúmlega fimm km fjarlægð

dsc_7992.jpg

- Sævar 


mbl.is Drunur norður í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska er stundum tungubrjótur

Það hefur vafalaust ekki farið framhjá neinum að útlendingum reynist einstaklega erfitt að bera orðið Eyjafjallajökull fram. Þetta falleg, einfalda og fullkomlega skiljanlega nafn.

Íslenskan er stundum tungubrjótur. Á ferðalagi mínu til Suður Afríku klæddist ég einu sinni bol sem á stóð "Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar" og er auðvitað bara bein þýðing á "International Year of Astronomy". Ég var í tíu manna hópi sem fór og skoðaði Góðravonarhöfða þegar tveir ferðafélagar mínir furðuðu sig á íslenska heitinu á stjörnufræðiárinu. Þeir reyndu að bera þetta fram en áttu í talsverðum erfiðleikum með það. Mér fannst það svo óskaplega fyndið að ég gat ekki stillt mig um að taka það upp. Svona bera portúgalinn Pedro Russo og suður afríkumaðurinn Kevin Govender þetta fram.

(Af einhverjum ástæðum kemur upp villa þegar ég set myndskeiðið hingað inn. Hægt að sjá það hér.)

Þessi ferð var hrikalega skemmtileg!

- Sævar


Stærsta auga jarðar valinn staður

Gangi allt að óskum falla fyrstu ljósgeislar alheimsins á stærsta auga jarðar árið 2018. Þá tekur Evrópski risasjónaukinn til starfa. Spegill sjónaukans verður 42 metrar í þvermál. Það er reyndar tæknilega útilokað að smíða svo stóran spegil og verður hann þess í stað samsettur úr næstum þúsund 1,45 metra breiðum speglum!

Í gær tilkynntu vinir okkar hjá Stjörnustöð Evrópu á suðurhveli (ESO) að sjónaukinn verður reistur á 3060 metra háu fjalli, Cerro Armazones, í Atacamaeyðimörkinni Chile. Sjónaukinn verður steinsnar frá VLT sjónaukum ESO á Cerro Paranal. Að þessu tilefni útbjó ESO þetta fróðlega kynningarmyndskeið sem sýnir sjónaukann og hvernig staðið var að valinu.

- Fylgstu með okkur á Facebook og Twitter -

- Sævar


Hjartanlega ósammála

Til að byrja með langar mig til að vísa á tvær greinar á Stjörnufræðivefnum sem koma inn á geimverur.

Mér þykir Hawking heldur svartsýn. Eða kannski er hann bara raunsær. Við höfum jú bara eitt dæmi á jörðinni um dýrategund sem er fær um að láta alheiminn vita að hún er til. Maðurinn hegðar sér oft ekki beint eins og hann hafi nægjanlegan siðferðisþroska til að gera það sem honum er hagstæðast og jörðina sem hann byggir fyrir bestu. Ásælni og græðgi mannsins í auðlindir er með ólíkindum. Segjum það bara hreint út, mannkynið hegðar sér oft eins og fífl.

Kannski vita geimverur af okkur nú þegar en eru ekkert að láta vita af sér. Hver veit? Fylgjast með okkur úr fjarlægð eins og við fylgjumst með atferli dýra úr fjarlægð. Við höfum nýlega öðlast tæknina til að "þefa af" lofthjúpi fjarreikistjarna (þessi aðferð kallast litrófsgreining). Með þá tækni að vopni getum við fundið lyktina, ef svo má segja, af lífvænlegri reikistjörnu annars staðar í Vetrarbrautinni okkar. Það er því alls ekki loku fyrir það skotið að geimverur viti af okkur nú þegar. Þær þurfa bara að eiga góða stjörnusjónauka og þekkja eðlisfræði ljóssins. Með öðrum orðum getum við hvergi falist þótt við vildum það.

Ef aðrar vitsmunaverur búa yfir tækninni til að ferðast milli stjarna, þá eru þær komnar tæknilega svo langt fram úr okkur að þær hafa fullorðnast tæknilega, án þess að tortíma sjálfum sér í leiðinni. Það bæri frekar merki um þroska. Svona hugsanagangur er aðallega til vitnis um hversu óþroskað mannkynið er. Framtíðin er ekkert mjög björt hjá dýrategund sem hugsar svona. En maður eygir von.

Kannski er græðgin bara í eðli okkar að og ef svo er, deyjum við bara út eins og aðrar dýrategundir með tímanum. Munurinn verður þá bara sá að við getum sjálfum okkur um kennt. Ef við þroskumst bíður okkar bjartari framtíð í geimnum, milli stjarnanna þar sem við höldum áfram að leysa ráðgátur alheimsins. Það er nóg af auðlindum í alheiminum sem við gætum nýtt án þess að tortíma öðrum geimverum í leiðinni.

Geimveruóttinn á hljómgrunn á Íslandi í dag en í öðru samhengi. Hljómar þetta nefnilega ekki svolítið eins og fólkið sem sér inngöngu Íslands í Evrópusambandið allt til foráttu? Evrópusambandið ætlar nefnilega að leggja undir sig allar auðlindir landsins er það ekki? Auðlindir sem við þykjumst eiga ein, en eigum í raun ekkert frekar en aðrar dýrategundir á jörðinni. (Pólitík er alveg drepleiðinleg, ég nenni ekki svoleiðis umræðu, þess vegna yfirstrika ég þetta. Vil fremur ræða um hvort geimverur séu vondar eða ekki, séu þær á annað borð til.)

Með öðrum orðum, ég er hjartanlega ósammála Stephen Hawking. Við eigum einmitt að hlusta á alheiminn og reyna að finna aðrar verur sem búa hér líka.

- Sævar


mbl.is Geimverur geta verið varhugaverðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögulegt að sjá Venus fyrir sólsetur

Tákn Venusar

Í gær (22. apríl um klukkan 20:55 - hálftíma fyrir sólarlag) tókst mér að finna Venus á himninum á meðan sólin var enn á lofti. Það tók mig nokkrar mínútur að skanna yfir himininn og koma auga á hana sem örlítinn, stöðugan ljósdepil í vestri, vinstra megin við sólina.

Þetta er þriðja tímabilið sem mér tekst að sjá Venus að degi til á meðan sólin er fyrir ofan sjóndeildarhring. Eitt skiptið var fyrir nokkrum árum fékk ég símtal frá Sævari þar sem hann bað mig að kíkja á Venus út um gluggann þótt sólin væri enn á lofti. Hitt tímabilið var í janúar og febrúar á síðasta ári þegar ég náði að sjá Venus margoft að degi til. Þá tókst mér líka að sýna flestum nemendum mínum í MR reikistjörnu að degi til sem þeim þótti bara býsna merkilegt!

Hvernig er hægt að finna Venus á himninum fyrir sólsetur? 

Það ættu flestir að geta leikið þetta eftir og þegar fólk hefur séð Venus einu sinni að degi til verður næsta skipti margfalt auðveldara! Það eru örfá lykilatriði sem þarf að hafa í huga:

1) TRYGGJA AÐ SÓLIN SÉ ÖRUGGLEGA ALDREI Í SJÓNSVIÐINU (sjá mynd hér að neðan).

2) EF sólin er ÖRUGGLEGA ALLTAF fyrir utan sjónsviðið (í lagi þar sem Venus er talsvert frá henni á himninum) þá er ef til vill hægt að nota handsjónauka til þess að skanna rólega yfir himininn vinstra megin við sólina. Mér tókst að sjá Venus í öll skiptin án handsjónauka en þetta gæti samt hjálpað. Ef þetta er gert þá verður að tryggja að sólin skíni ekki inn í sjónaukann því það getur valdið augnskaða!

3) Venus er örlítill en stöðugur ljósdepill og það kemur á óvart hvað hún er dauf á himninum áður en sólin sest. Venus er svo langt í burtu að augun okkar sjá hana sem punkt frekar en skífu (ólíkt tunglinu og sólinni).

venus á himninum og sólin á bak við hús 

Hvers vegna sést Venus að degi til núna í apríl 2010?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að Venus sést núna sem kvöldstjarna og jafnvel að degi til áður en sólin sest. Meginástæðan er tvíeðli Venusar sem getur bæði verið kvöldstjarna og morgunstjarna, allt eftir því hvoru megin hún er við sólina þegar við horfum inn í sólkerfið. Nú er hagstætt að skoða Venus á kvöldin og jafnvel fyrir sólarlag vegna þess að:

1) Venus er vinstra megin við sólina (séð frá okkur) og getur því verið kvöldstjarna. Þegar Venus er vinstra megin þá fylgir hún í humátt á eftir sólinni á himninum. Þegar Venus er hægra megin við sólina þá sest hún yfirleitt á undan sólinni en þá kemur hún líka oft upp á undan sólinni og sést stundum sem morgunstjarna.

Hér að neðan er yfirlitsmynd þar sem horft er ofan á sólkerfið úr forritinu AstroViewer sem hægt er að nota ókeypis á netinu sem sýnir uppröðun hnatta í sólkerfinu og hornið á milli Venusar og sólarinnar á himninum sem nefnist álengd.

 Venus og jörðin - horft ofan á sólkerfið  

2) Önnur ástæðan sem einnig sést á myndinni að ofan er að Venus er tiltölulega langt frá sólinni á himninum (hornið eða álengdin er 24,5°). Mánuðum saman eru sólin og Venus það þétt saman á himninum að erfitt er að koma auga á reikistjörnuna. 

3) Þriðja ástæðan er ekki síður mikilvæg en hún er sú að nálægt jafndægrum (vor og haust) þá myndar sólbrautin (ferill sólarinnar á himninum) stórt horn við sjóndeildarhringinn. Sólin sest því frekar bratt og reikistjörnurnar sem fylgja henni á himninum (Venus núna og einnig Merkúr fyrr í mánuðinum) eru því frekar hátt á lofti þegar sólin sest og ljósið frá þeim verður því fyrir minni deyfingu vegna lofthjúpsins en þegar þær eru lægra á lofti.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig öll þessi skilyrði (staða vinstra megin, mikil álengd og bratt horn sólbaugs við sjóndeildarhring) eru uppfyllt þessar vikurnar. 

Venus á himninum 22. apríl 2010

Þótt álengdin sé mikil þá þýðir það ekki sjálfkrafa að Venus sjáist vel á kvöldin. Myndin hér að neðan sýnir t.d. stöðu Venusar í sólkerfinu og á himninum þann 21. nóvember 2011. Þá er Venus tiltölulega álíka langt frá sólinni á himninum í gráðum talið (með álengd 25°). Sólbrautin myndar hins vegar þröngt horn við sjóndeildarhringinn og því setjast Venus og sólin nánast samhliða. 

sólin og venus 21. nóvember 2011 

Þótt hornið á milli Venusar og sólarinnar á himninum (álengdin) sé heilar 25° á þessu framtíðar-nóvemberkvöldi verður líklega ómögulegt að sjá Venus með berum augum því hún verður fyrir svo mikilli deyfingu svona lágt á himninum. 

Ég vona að eitthvað af þessum pælingum hafi komist til skila. Mér finnst alltaf gaman að skoða stjörnuhimininn með berum augum og mjög skemmtilegt sport að reyna að koma auga á Venus fyrir sólsetur. Ég vona að einhver ykkar sem lesið bloggið okkar prófið þetta einhvern næstu daga þegar léttskýjað er úti við. Spurningar sem vakna er hægt að setja inn í athugasemdakerfið og við munum reyna að svara þeim eftir föngum.

-Sverrir


Hubble á afmæli - ný, gullfalleg ljósmynd

Þann 24. apríl 1990 hóf geimferjan Discovery sig á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Um borð í geimferjunni var nýr og byltingakenndur geimsjónauki, Hubble geimsjónaukinn.

Til að fagna árunum tuttugu birti NASA og ESA nýja og alveg ótrúlega glæsilega ljósmynd af stjörnumyndunarsvæði í 7500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Kilinum. Frétt um myndina má finna hér.

hubble_afmaelismynd_litil.jpg

Ég gapti fyrst þegar ég sá þessa mynd. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað og fallegt við staðina þar sem stjörnur eru að fæðast og mynda sólkerfi. Hugsaðu þér, í þessu skýi eru öll þau frumefni sem finnast innan í okkur; hráefnin sem þarf í líf! Ég fæ bara gæsahúð við að hugsa um þetta.

Þú getur skoðað stærri mynd og lesið meira um hana á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar


Sólin í öllu sínu veldi

Við birtum bloggfærslu og frétt um þessar stórkostlegu myndir í gær. Frétt okkar er að finna hér, hafi einhver áhuga á.

Í dag skrifaði Sverrir svo stutta færslu þar sem stærðin á sólstróknum er borin saman við stærð jarðar:

Sólin, tunglið og jörðin

Í sumar ætlum við að bjóða þér og öllum áhugasömum að skoða þessi fyrirbæri á sólinni. Við erum vel útbúnir sjónaukum sem sýna okkur sólstrókana og önnur virk svæði á sólinni. Sólskoðunin fer fram þann 17. júní ef veður leyfir og munum við kynna það nánar þegar nær dregur.

Nánar er hægt að lesa um Solar Dynamics Observatory á Stjörnufræðivefnum.

Hrós til Mbl.is fyrir að birta þessa fínu frétt um þessar stórfenglegu myndir!

- Sævar


mbl.is Nýjar myndir af sólinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband