Sama þróun á Íslandi

_raefajokull_shb.jpg"...að sama þróun hafi átt sér stað á Íslandi og Svalbarða án þess að það sé útskýrt frekar." Þá er best að útskýra það frekar.

Jarðskorpan rís vegna breytinga á flotjafnvægi. Massi eins og jökull þrýstir skorpunni niður á við með þunga sínum niður í möttulinn. Þetta er enn að eiga sér stað eftir að ísöld lauk. Þannig er Skandinavía smám saman að rísa, sem og Norður-Ameríka.

Á síðustu öld missti Vatnajökull 10% af massa sínum vegna hlýnandi veðurfars. Af þeim sökum rís jarðskorpan umhverfis Vatnajökul um 2,5 cm á ári að jafnaði. Útreikningar jarðeðlisfræðinganna Freysteins Sigmundssonar og Carolinu Pagli benda til þess að þessi breyting valdi aukinni kvikumyndun í jarðskorpunni undir jöklinum, sem nemur um 0,014 rúmkílómetrum á ári. Ekki gífurlegt magn, en aukning engu að síður.

Þessi aukna kvikumyndun vegna breytinga á flotjafnvægi gefur vísbendingar um hugsanlegt samhengi þeirra og eldsumbrota, t.d. undir Vatnajökli. Í lok síðustu aldar gerði Hjalti Guðmundsson, nú hjá Umhverfisstofnun, rannsóknir á gjóskulögum frá Öræfajökli. Niðurstöður hans virðast sýna að gos verður í Öræfajökli rúmlega 300 árum eftir að jöklar ná sinni mestu útbreiðslu.

Ef til vill má búast við aukinni jarðskjálftavirkni og jafnvel eldvirkni samfara bráðnun jöklanna. Þegar ísinn þykknar eykst fargið og þrýstingurinn á kvikuhólf undir jöklinum svo hugsanlega dregur úr gostíðni. En þegar ísinn þynnist léttir fargi á kvikuhólfinu og þrýstingur minnkar sem kann að auka gostíðnina.

Í öllu falli verða næstu áratugir mjög forvitnilegir, ef fram fer sem horfir.

---

Talandi um loftslagsbreytingar. Í Vísindaþættinum í gær spjallaði ég við Áslaugu Geirsdóttur, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, um rannsóknir hennar á setlögum í Hvítárvatni og Haukadalsvatni og þá sögu sem þau segja um loftslagsbreytingar á Íslandi á nútíma.

Þátturinn er kominn á netið.

Myndina tók undirritaður af Öræfajökli frá Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi í síðustu viku.

- Sævar


mbl.is Landris vegna bráðnunar jökla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Sævar.

Ég hlustaði á mjög áhugavert viðtal þitt við Áslaugu í gær. Takk fyrir góðan þátt.

-

Hve lengi hafa menn mælt þetta nákvæmlega á Grænlandi, Svalbarða og Íslandi?

Hvert var landrisið á þessum stöðum fyrir t.d. 10 árum, 30 árum, 50 árum og 100 árum? Skekkjumörk?

Hver er hröðunin í þessum breytingum?

Með kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 19.5.2010 kl. 11:37

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Sæll Ágúst

Takk fyrir það. Ég var nokkuð sáttur með spjallið við Áslaugu. Vildi ég hefði haft meiri tíma samt, eins og venjulega.

Ég verð að svara öllum þessum spurningum á sama hátt: Ég hef ekki hugmynd. Þyrfti að spyrja Freystein út í það, hann hlýtur að þekkja það. Væri mjög áhugavert að fá svör við þessum spurningum.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 19.5.2010 kl. 11:59

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Áhugaverður pistill. Sem leikmaður get ég skilið þær röksemdir að staðbundin bráðnun jökla létti af fargi og lyfti landinu í næsta nágrenni. Auðvitað með tilheyrandi braki og brestum.

En hvernig má tengja þetta við það sem er að gerast í kringum miðbaug? Þar er land sagt sökkva og jarðskjálftavirkni að aukast, svo sem á eldhringnum umhverfis Indónesíu og plötuskilum í Karabíska- og Kyrrahafinu.

Veldur landlyfting á pólunum því að jarðplöturnar sporðreisist fyrir miðju jarðkúlunnar?

Kolbrún Hilmars, 19.5.2010 kl. 17:52

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sá fróðlegan þátt í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, minnir að það hafi verið á Discovery, þar sem verið var að fjalla um stóru vötnin á landamærum USA og Kanada. Vatnsmagnið í nyrðri hluta er að minnka á meðan það eykst í syðri hlutum þeirra. Þetta er rakið til landris, en á síðustu ísöld lá jökulbreiðan suður yfir vötnin. Yfir nyðri hlutanum var jökulbreiðan mun þykkari og er talið að land hafi sigið meira þar en á syðri hlutanum. Ég man ekki hversu mikið landrisið mælist á ári, þar sem það er mest, en það voru ótrúlegar hár tölur.

Gunnar Heiðarsson, 19.5.2010 kl. 20:00

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Kolbrún: Ég mundi nú halda að landris af völdum fargbreytinga eftir ísöld væru hverfandi við miðbaug, enda var þar enginn ís. Allt landris sem kann að vera þar hlýtur eiginlega að vera vegna hefðbundinna flekahreyfinga, en á sama tíma auðvitað lækkar land annars staðar. Hef ekki fundið neinar heimildir sem minnast á aukna eldvirkni sunnar á hnettinum, en ég mun örugglega spyrja jarðeðlisfræðingana við tækifæri hvort þeir hafi hugmynd um það. Landrisið veldur því ekki að flekarnir sporðreisist. Hér er mynd sem sýnir hvernig flekarnir eru.

Gunnar: Já, yfir Kanada og Norður Ameríku voru þykkir jökulskyldir sem þrýstu skorpunni niður og hún er enn að rísa eins og þú segir.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.5.2010 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband