Eldfjallið sem sprakk

Á þessum degi fyrir þrjátíu árum síðan sprakk Sankti Helenufjall í Bandaríkjunum. Af því tilefni útbjó NASA þessa skemmtilegu myndasyrpu sem sýnir breytilega ásýnd fjallsins utan úr geimnum árlega frá 1979 og finna má hér.

Fyrir 55.000 árum eða svo sprakk Tindfjallajökull á svipaðan hátt. Mynduðust þá þykk flikrubergslög í Þórsmörk sem margir hafa eflaust séð en veitt litla athygli. Ef gengið er í átt að Steinsholtsjökli, innan um aurana og hnullungana sem bárust fram þegar bergspilda úr Innstahaus féll á jökulinn og olli hlaupi í Markarfljóti 15. janúar 1967, sést þetta flikruberg mjög vel. 

flikruberg_thorsmork.jpg

Flikrubergslagið í Þórsmörk sem myndaðist þegar Tindfjallajökull gaus fyrir 55.000 árum. Sjá má fallegan berggang á ská ofan á laginu. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Hraun án upphafs

Í síðustu viku var ég í jöklajarðfræðiferð á Suðurlandi. Við vörðum tveimur dögum í að skoða jöklajarðmyndanir við Fláajökul, skammt frá Höfn í Hornafirði. Á leiðinni þangað skoðuðum við nokkra aðra jökla, meðal annars Kvíárjökul sem gengur úr Öræfajökli. Framan við Kvíárjökul eru Kvíármýrarkambur, Kambur og Kambsmýrarkambur, yfir 100 metra háir jökulgarðar, hinir hæstu á Íslandi. Jökullinn reis yfir garðana þegar hann var stærstur undir lok 19. aldar, þegar Litlu-ísöld lauk.

Kvíárjökull situr sjálfur í dalverpi milli Staðarfjalls og Vatnafjalla. Hugsanlegt er að þetta dalverpi hafi orðið til í miklu sprengigosi á nútíma.

kviarjokull_panorama.jpg

Kvíárjökull situr e.t.v. í kleif sem til varð þegar eldkeila sprakk stuttu eftir ísaldarlok, ekki ósvipað og Sankti Helena árið 1980. Þú getur smellt á myndina til að sjá hana stærri. Vatnafjöll eru hægra meginn við jökulinn og í bröttum hlíðum þess er hraun sem virðist hvergi eiga sér upphaf. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Árið 1992 birtist grein í Náttúrufræðingnum eftir Sigurð Björnsson, bónda og fræðimann frá Kvískerjum. Greinin er fróðleg og skemmtileg og aðgengileg á Tímarit.is. Í greinni færir Sigurður rök fyrir því að stór eldkeila hafi verið í kleifinni þar sem jökullinn er nú sem hafi sprungið fram ekki ósvipað og gerðist í Sankti Helenu árið 1980. Í hlíðum Vatnafjalla liggur enda hraun en upptök þess, eldvörpin, finnast hvergi í landinu eins og það er nú. Skrítið, ekki satt? Hvergi finnast ummerki þessa mögulega goss, enn sem komið er, eftir því sem ég kemst næst. Kannski ég leggi bara eldfjallafræði fyrir mig og rannsaki þetta.

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ekki slæm hugmynd, nú halda sumir fram að byrjað sé tímabil mikillar virkni eldfjalla hér á landi. Því er margt vitlausara en að leggja það fyrir sig

Höskuldur Búi Jónsson, 18.5.2010 kl. 13:11

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sjá þennan pistil þar sem Helenufjall, Eyjafjallajökull, Laki og Katla koma við sögu.

Ágúst H Bjarnason, 18.5.2010 kl. 21:40

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Trúverðug kenning, þetta með Kvíárjökul. Hvenær tíma ársins er myndin tekin af honum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.5.2010 kl. 22:35

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Höski: Já það verður eflaust nóg að gera í eldfjallafræði í framtíðinni.

Ágúst: Takk fyrir þessa fínu vísun.

Gunnar: Ég tók myndina af Kvíárjökli á þriðjudaginn í síðustu viku.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 18.5.2010 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband