Mögulegt að sjá Venus fyrir sólsetur

Tákn Venusar

Í gær (22. apríl um klukkan 20:55 - hálftíma fyrir sólarlag) tókst mér að finna Venus á himninum á meðan sólin var enn á lofti. Það tók mig nokkrar mínútur að skanna yfir himininn og koma auga á hana sem örlítinn, stöðugan ljósdepil í vestri, vinstra megin við sólina.

Þetta er þriðja tímabilið sem mér tekst að sjá Venus að degi til á meðan sólin er fyrir ofan sjóndeildarhring. Eitt skiptið var fyrir nokkrum árum fékk ég símtal frá Sævari þar sem hann bað mig að kíkja á Venus út um gluggann þótt sólin væri enn á lofti. Hitt tímabilið var í janúar og febrúar á síðasta ári þegar ég náði að sjá Venus margoft að degi til. Þá tókst mér líka að sýna flestum nemendum mínum í MR reikistjörnu að degi til sem þeim þótti bara býsna merkilegt!

Hvernig er hægt að finna Venus á himninum fyrir sólsetur? 

Það ættu flestir að geta leikið þetta eftir og þegar fólk hefur séð Venus einu sinni að degi til verður næsta skipti margfalt auðveldara! Það eru örfá lykilatriði sem þarf að hafa í huga:

1) TRYGGJA AÐ SÓLIN SÉ ÖRUGGLEGA ALDREI Í SJÓNSVIÐINU (sjá mynd hér að neðan).

2) EF sólin er ÖRUGGLEGA ALLTAF fyrir utan sjónsviðið (í lagi þar sem Venus er talsvert frá henni á himninum) þá er ef til vill hægt að nota handsjónauka til þess að skanna rólega yfir himininn vinstra megin við sólina. Mér tókst að sjá Venus í öll skiptin án handsjónauka en þetta gæti samt hjálpað. Ef þetta er gert þá verður að tryggja að sólin skíni ekki inn í sjónaukann því það getur valdið augnskaða!

3) Venus er örlítill en stöðugur ljósdepill og það kemur á óvart hvað hún er dauf á himninum áður en sólin sest. Venus er svo langt í burtu að augun okkar sjá hana sem punkt frekar en skífu (ólíkt tunglinu og sólinni).

venus á himninum og sólin á bak við hús 

Hvers vegna sést Venus að degi til núna í apríl 2010?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að Venus sést núna sem kvöldstjarna og jafnvel að degi til áður en sólin sest. Meginástæðan er tvíeðli Venusar sem getur bæði verið kvöldstjarna og morgunstjarna, allt eftir því hvoru megin hún er við sólina þegar við horfum inn í sólkerfið. Nú er hagstætt að skoða Venus á kvöldin og jafnvel fyrir sólarlag vegna þess að:

1) Venus er vinstra megin við sólina (séð frá okkur) og getur því verið kvöldstjarna. Þegar Venus er vinstra megin þá fylgir hún í humátt á eftir sólinni á himninum. Þegar Venus er hægra megin við sólina þá sest hún yfirleitt á undan sólinni en þá kemur hún líka oft upp á undan sólinni og sést stundum sem morgunstjarna.

Hér að neðan er yfirlitsmynd þar sem horft er ofan á sólkerfið úr forritinu AstroViewer sem hægt er að nota ókeypis á netinu sem sýnir uppröðun hnatta í sólkerfinu og hornið á milli Venusar og sólarinnar á himninum sem nefnist álengd.

 Venus og jörðin - horft ofan á sólkerfið  

2) Önnur ástæðan sem einnig sést á myndinni að ofan er að Venus er tiltölulega langt frá sólinni á himninum (hornið eða álengdin er 24,5°). Mánuðum saman eru sólin og Venus það þétt saman á himninum að erfitt er að koma auga á reikistjörnuna. 

3) Þriðja ástæðan er ekki síður mikilvæg en hún er sú að nálægt jafndægrum (vor og haust) þá myndar sólbrautin (ferill sólarinnar á himninum) stórt horn við sjóndeildarhringinn. Sólin sest því frekar bratt og reikistjörnurnar sem fylgja henni á himninum (Venus núna og einnig Merkúr fyrr í mánuðinum) eru því frekar hátt á lofti þegar sólin sest og ljósið frá þeim verður því fyrir minni deyfingu vegna lofthjúpsins en þegar þær eru lægra á lofti.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig öll þessi skilyrði (staða vinstra megin, mikil álengd og bratt horn sólbaugs við sjóndeildarhring) eru uppfyllt þessar vikurnar. 

Venus á himninum 22. apríl 2010

Þótt álengdin sé mikil þá þýðir það ekki sjálfkrafa að Venus sjáist vel á kvöldin. Myndin hér að neðan sýnir t.d. stöðu Venusar í sólkerfinu og á himninum þann 21. nóvember 2011. Þá er Venus tiltölulega álíka langt frá sólinni á himninum í gráðum talið (með álengd 25°). Sólbrautin myndar hins vegar þröngt horn við sjóndeildarhringinn og því setjast Venus og sólin nánast samhliða. 

sólin og venus 21. nóvember 2011 

Þótt hornið á milli Venusar og sólarinnar á himninum (álengdin) sé heilar 25° á þessu framtíðar-nóvemberkvöldi verður líklega ómögulegt að sjá Venus með berum augum því hún verður fyrir svo mikilli deyfingu svona lágt á himninum. 

Ég vona að eitthvað af þessum pælingum hafi komist til skila. Mér finnst alltaf gaman að skoða stjörnuhimininn með berum augum og mjög skemmtilegt sport að reyna að koma auga á Venus fyrir sólsetur. Ég vona að einhver ykkar sem lesið bloggið okkar prófið þetta einhvern næstu daga þegar léttskýjað er úti við. Spurningar sem vakna er hægt að setja inn í athugasemdakerfið og við munum reyna að svara þeim eftir föngum.

-Sverrir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband